Skýrsla um könnun á meðal erlendra gesta á Iceland Airwaves 2012


ÚTÓN stóð fyrir könnun á nýliðinni Iceland Airwaves hátíð þar sem aðalmarkmiðið var að kanna útgjöld erlendra gesta hátíðarinnar. Spurningalisti var lagður fyrir 434 erlenda gesti hátíðarinnar dagana 31. okt. – 4. nóv.

Helstu niðurstöður eru að velta erlendra gesta hefur aukist um 66% frá árinu 2011 og er nú rúmar 800 milljónir króna og þá er ferðakostnaður undaskilinn ásamt útgjöldum gestanna utan höfuðborgarinnar. Ef ferðakostnaður er meðtalinn er heildarvelta gestanna tæplega 1,1 milljarður króna. Veltu-aukninguna má helst rekja til þess að erlendum gestum hefur fjölgað mikið á milli ára eða um 46%.

Hver gestur eyðir að meðaltali 29.268 kr. á dag og gistir að meðaltali 6,7 nætur í dvöl sinni á Íslandi. Flestir erlendir gestir koma frá Bandaríkjunum eða um 18%. Þá koma um 11% gestanna frá Þýskalandi og um 9% frá Bretlandi. Um 86% erlendu gestanna var að koma í fyrsta sinn á hátíðina en erlendu gestirnir voru í ár í fyrsta sinn fleiri en Íslendingar á hátíðinni. Heildarfjöldi gesta á hátíðinni var 7.543 og þar af voru 4.076 erlendir gestir, eða um 54%.

Árið 2005 var framkvæmd samnorræn könnun þar sem kannað var hversu miklu fé erlendir gestir Iceland Airwaves-hátíðarinnar verja á meðan dvöl þeirra stendur. ÚTÓN hefur endurtekið könnunina árlega síðan á hátíðinni 2010 og er þetta því þriðja árið í röð sem ÚTÓN stendur fyrir könnuninni. Skýrslu um könnunina má lesa í heild sinni hér en í henni er að finna ítarlegri niðurstöður könnunarinnar og tölfræði um hátíðina.