10 íslenskir tónleikahaldarar fá veglega styrki úr púls-áætlun Norræna menningarsjóðsins


Á næstu tveimur árum munu sextíu og tveir skipuleggjendur um öll Norðurlönd bjóða almenningi upp á dagskrá með efnilegu norrænu tónlistarfólki. Auk þess að tilnefna púls-tónleikahaldara veitir sjóðurinn 4,8 milljónir danskra króna í styrki. Verkefnið hefur vaxið um 600 þúsund DKK og tuttugu ný tónlistarhús og tónlistarhátíðir hafa bæst í hópinn. Púls-áætlunin er þriggja ára verkefni Norræna menningarsjóðsins með það að markmiði að efla tónleikahald á Norðurlöndunum og um leið tengslanet tónleikahaldara og veita þannig almenningi á Norðurlöndunum aukin tækifæri til að kynnast nýrri norrænni tónlist.

Benny Marcel, framkvæmdastjóri Norræna menningarsjóðsins, lýsir yfir ánægju sinni:

„Púls er dæmi um öflugt fjölþjóðlegt samstarfsnet sem eykur gæði menningarlífsins. Skipuleggjendur vinna stórkostlegt starf til eflingar tónlistarlífinu á Norðurlöndum. Þarna sjáum við að púls hefur þegar haft áhrif. Þegar skipuleggjendur skuldbinda sig á tilteknu tímabili til að vinna með norrænu tónlistarfólki aukast möguleikar tónlistar­fólksins á að hasla sér völl á Norðurlöndum. Þess vegna erum við mjög þakklát og stolt af því að styrkirnir skuli eiga sinn þátt í að skapa einstakt og fjölbreytt tengsla­net tónleikahaldara um leið og almenningur á Norðurlöndunum fær tækifæri til að kynnast nýrri tónlist.“

Fjörutíu púls-tónleikahaldarar fá styrki til að halda starfinu áfram á næsta ári. Auk þess hefur sjóðurinn tilnefnt nýja púls-tónleikahaldara frá Noregi, Svíþjóð, Íslandi, Grænlandi og Álandseyjum.

Um það segir Søren Staun, aðalráðgjafi hjá Norræna menningarsjóðnum:

„Í ár tekst okkur að ná til allra norrænu landanna. Ísland er sérstaklega áberandi með mjög sterka umsækjendur og fyrir tilstilli púls verður nú komið á öflugu samstarfsneti íslenskra tónleikastaða um norræna tónlist.  Þá hefur sjóðurinn bætt við fimm nýjum skipuleggjendum frá Svíþjóð vegna þess að sérstök fjárveiting barst frá sænskum stjórnvöldum.“

Púls-tónleikahaldarar fá styrki til að halda samtals um 360 tónleika og jafnframt fé til áheyrendaþróunar. Styrkirnir eru veittir til eins árs í senn til dagskrár sem saman­stendur af þremur til átta tónleikum og skulu þeir haldnir á tímabilinu ágúst 2018 – ágúst 2019. Til þess að geta orðið púls-tónleikahaldarar þurfa aðilarnir sjálfir að taka þátt í fjármögnun tónleikanna. Eigin fjármögnun púls-tónleikahaldaranna er um tveir þriðjungar og á næsta ári nema fjárfestingar í púls-tónleikum á Norðurlöndum því um 15 milljónum DKK.

Púls-skipuleggjendurnir sextíu og tveir dreifast á löndin sem hér segir:

Danmörk – 15

Finnland – 10

Færeyjar – 4

Grænland – 1

Ísland – 10

Noregur – 8

Svíþjóð – 13

Álandseyjar – 1

Íslenskir tónleikahaldarar sem fá styrk úr púls-áætluninni eru:

Húrra – Havarí – Græni hatturinn

Iðnó

Mengi

Salurinn

Norræna húsið

Eistnaflug

Myrkir músíkdagar

Iceland Airwaves