ÚTÓN tekur þátt í viðskiptferð til Þýskalands og kallar eftir umsóknum


Reeperbahn showcase hátíðin verður haldin dagana 19. – 23. september í Hamborg í ár. ÚTÓN hefur verið í góðu samstarfi við hátíðina í nokkur ár og hafa fjölmargir íslenskir tónlistamenn komið fram á hátíðinni og hafa góð viðskiptasambönd sprottið þar upp í kjölfarið. Hátíðin er ein aðal bransahátíðin fyrir popp/rokk/indie músík fyrir þýska markaðinn og þar mæta allir helstu aðilar í þýska tónlistarbransanum. Fyrir utan það er hátíðin mikilvæg fyrir alla þá sem herja á Þýskalandsmarkað, þannig þar getur maður hitt fólk allstaðar frá Evrópu, Bandaríkjunum og jafnvel Asíu og Suður Ameríku.

ÚTÓN hefur ákveðið að gera meira í kring um Reeperbahn hátíðina í ár en undanfarin ár og við höfum þannig tekið að okkur að verkefnastýra viðskiptaferð til Berlínar 18. September, daginn áður en Reeperbahn hefst, í samstarfi við Reepebahn hátíðina og þrjár aðrar norrænar útflutningsskrifstofur: Noreg, Svíðþjóð og Finland.

Ferðin hefst með morgunverði í Berlín þriðjudaginn 18. September, eftir það er röð fyrirlestra frá mikilvægum þýskum fyrirtækjum og stofnunum á borð við Berlin Music Commission, Publishers Association og félag sjálfstæðra tónlistarfyrirtækja. Eftir það eru pitch meetings, speed meetings og svo í eftirmiðdaginum eru fyrirtækjaheimsóknir til mikilvægra tónlistarfyrirtækja í Berlín. 

Eftir þessu er lokið fara allir saman í lest um 17:00 leytið til Hamborgar þar sem boðið verður upp á tenglamyndun, lifandi tónlistarflutning, drykki og snarl. Í Hamborg fara allir Norrænu aðilarnir í kvöldverð saman, og svo á miðvikudeginum tekur við  sérstakur tengslamyndunarfundur með austurrískum tónlistarfyrirtækjum og norrænt partí með þýska lagahöfunda- og publishing geiranum.

Nánari dagskrá verður birt síðar. Dagskráin mun einnig taka mið af fyrirtækjunum/einstaklingunum sem taka þátt í ferðinni.

Heildar pakkinn lítur svona út:

  • Þátttaka í viðskiptaferð í Berlín (innifalið er lestarmiði, morgunverður, hádegisverður, drykkir og snarl í lest)
  • Kvöldverður í Hamborg með Norrænum viðskiptaaðilum 
  • Tengslamyndunarfundur og partí í Hamborg á miðvikudags eftirmiðdegi 

ÚTÓN greiðir þennan kostnað fyrir þátttakendur en þátttakendur greiða sjálfir flugmiða og gistingu. Athugið að ferðakostnaður er ekki styrkhæfur í gegn um Útflutningssjóð (nema sem hluti af ferðastyrk fyrir hljómsveit sem þú vinnur með)

Ef þú vilt taka þátt í ferðinni þá biðjum við þig um að sækja um með að senda okkur tölvupóst á anna@icelandmusic.is. Við þurfum helst að vita hvaða tónlistarverkefni þú vinnur með, hvaða viðskipti þú hefur átt með þitt verkefni í Þýskalandi nú þegar og hvað þú vilt helst áorka með ferðinni.

Umsóknarfrestur er 8. ágúst.