ÚTÓN VERÐUR TÓNLISTARMIÐSTÖÐ
– nýr vefur á leiðinni með upplýsingum um okkar starfsemi og styrki nýs Tónlistarsjóðs.
Tónlistarmiðstöð tekur við hlutverki Útflutningssjóðs að veita ferða- og markaðsstyrki fyrir útflutningsverkefni í tónlist.
Tilkynning um umsóknarfresti kemur í apríl. Ekki er hægt að sækja um styrki lengur af þessum vef.
Fjárhagsáætlunargerð
Hvernig á að setja upp góða fjárhagsáætlun fyrir umsókn til Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar?
Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar veitir bæði ferða- og markaðsstyrki til útflutnings á íslenskri tónlist. Hverri umsókn þarf að fylgja sannfærandi fjárhagsáætlun.
ÚTÓN býður upp á sniðmát (e. template), eitt fyrir ferðastyrki og svo annað sameiginlegt fyrir markaðsstyrk og styrk til framleiðslu á kynningarefni.
Sniðmát fjárhagsáætlunar fyrir ferðastyrksumsókn er að mestu leyti óbreytt, en sameiginlegt sniðmát fyrir tvær gerðir markaðsstyrkja er ný viðbót. Þar sem umsókn um styrk til framleiðslu á kynningarefni er viðbótarumsókn við markaðsstyrk er eitt sniðmát fyrir báðar fjárhagsáætlunirnar. Athugið að hægt er að fá markaðsstyrk án styrks til framleiðslu á kynningarefnis en ekki öfugt.
Bæði sniðmátin má einnig nálgast á ensku.
GERÐ Á FJÁRHAGSÁÆTLUN FYRIR UMSÓKN Í ÚTFLUTNINGSSJÓÐ
(1) FJÁRHAGSÁÆTLUN OG UMSÓKN SKULU SEGJA SÖMU SÖGU
gott ráð: byrja fyrst á fjárhagsáætlun!
Mikilvægt er að þær upplýsingar sem komi fram í umsókn séu endurspeglaðar í fjárhagsáætlun og öfugt. Fjárhagsáætlun og umsókn eru í raun mismunandi framsetning á sömu upplýsingum og mikilvægt er að gera grein fyrir öllum þáttum umsóknar á báðum stöðum.
(2) GERIÐ GREIN FYRIR RAUNVERULEGUM KOSTNAÐI
er oft meira en upphæðin sem sótt er um
Góð fjárhagsáætlun gerir grein fyrir raunverulegum kostnaði, til dæmis við kaupum á farmiðum vegna tónleikaferðalaga, auglýsingakostnaði, keyptri umfjöllun, kostnaði við gerð kynningarefnis, framleiðslukostnaði og öllum þeim atriðum sem huga þarf að við útflutning á tónlist. Athugið að ekki er ólíklegt að raunkostnaður verkefnis sé hærri en sú upphæð sem sótt er um til Útflutningssjóðs. Í sniðmátum ÚTÓN eru liðir fyrir þessa helstu kostnaðar- og tekjuliði, en bætið við að vild.
(3) KOSTNAÐUR OG TEKJUR SKULU STEMMA AF
kostnaður = tekjur í fjárhagsáætlun
Í sniðmátunum sem ÚTÓN býður upp á eru tveir dálkar, annar sem listar út kostnað og hinn tekjur. Samtalan á hvoru fyrir sig á að vera nákvæmlega sama tala. Þetta á að vera áætlun, þannig takið fram áætlaðan kostnað og áætlaðar tekjur. Í því felst einnig að gera grein fyrir þeim styrk sem sótt er um, og gerið ráð fyrir að hann fáist.
Ef áætlaður kostnaður er hærri en áætlaðar tekjur er mismunurinn gerður upp með eigin fjárframlagi, styrk frá öðrum opinberum aðila eða úr einkageiranum. Fyrir tónleikaferðalög er auðveldara að gera grein fyrir beinum tekjum heldur en af markaðsherferð. Ástæðan er að það er í eðli markaðsherferða að skila tekjum óbeint, með t.a.m. auknu streymi, fylgjendum og umfjöllun.
ATH: Ein algengasta ástæða fyrir því að umsókn er felld er vegna slakrar fjárhagsáætlunar.
FERÐASTYRKIR
HELSTU KOSTNAÐARLIÐIR
Athugið að gera grein fyrir raunkostnaði er kemur að ferðakostnaði og gistingu
Sjálfsagt er að gera ráð fyrir launakostnaði og kostnaði á kynningu
HELSTU TEKJULIÐIR
Takið fram þau laun sem búist er við
Athugið að ef að ferðakostnaður er greiddur af bókara eða skipuleggjenda er umsóknin ekki styrkhæf
Áætlið tekjur af sölu á varningi og miðum
Takið fram aðra styrki sem nýtast fjármögnunar á ferðalaginu sjálfu.
Athugið að ekki þarf að taka fram aðra styrki sem tengjast ekki ferðalaginu beint eins og t.d. úr Hljóðritasjóði eða þess háttar.
MARKAÐSSTYRKIR OG STYRKIR TIL FRAMLEIÐSLU Á KYNNINGAREFNI
Fjárhagsáætlun fyrir markaðsstyrki og styrki til framleiðslu á kynningarefni er á einum stað, en athugið að hún er tvískipt eftir styrkjum.
FYRIR MARKAÐSSTYRKI
HELSTU KOSTNAÐARLIÐIR
PR þjónusta
Afmarkast oft við skilgreinda markaði. Takið fram helstu aðalatriði þjónustunnar sem keypt er og á hvaða markaði er stefnt.
Birtingar
Gerið grein fyrir kostnaði við keypta umfjöllun ef við á.
Gerið grein fyrir kostnaði við auglýsingum á mismunandi miðlum
Annar kostnaður
Athugið að taka fram kostnað við framleiðsla á kynningarefni í næstu áætlun fyrir neðan.
Nýtið þetta pláss fyrir annan tilfallandi kostnað á markaðsherferð þessa verkefnis. Ekki þarf að gera grein fyrir kostnað á upptöku eða annan kostnað á framleiðslu á tónlist.
HELSTU TEKJULIÐIR
Styrkir
Takið fram aðra styrki utan Útflutningssjóðs sem verkefnið hefur fengið til markaðssetningar
Aðrar tekjur
Það er óalgengt að markaðsherferðir skili beinum tekjum þar sem að þegar vel tekst til skilar fjárfestingin sér óbeint í auknu streymi, sölu á miðum eða öðrum varningi. Það er þó ekki útilokað, svo gerið grein fyrir öðrum tekjustraumum hér ef við á.
Fjárframlag
Ef að tekjur mæta ekki kostnaði er hægt að gera upp mismunin með:
Eigin fjármagni
Fjárhagslegum stuðningi frá bakhjarli eins og til dæmis vörumerkjum eða fyrirtækjum (e. sponsorship)
Styrkur frá Útflutningssjóði
Gerið grein fyrir þeim styrk sem sótt er um
FYRIR STYRKI TIL FRAMLEIÐSLU Á KYNNINGAREFNI
HELSTU KOSTNAÐARLIÐIR
Myndbandsupptökur
Framleiðsla á myndbandsefni verður sífellt stærri hluti af kynningarefni tónlistarfólks og getur talið hefðbundin tónlistarmyndbönd, streymi í beinni útsendingu, upptökur á tónleikum og margt fleira. Gerið hér grein fyrir framleiðslukostnaði.
Hönnun og ímynd
Ímynd tónlistarfólks skiptir sífellt meira máli og eru oft fagaðilar ráðnir til að aðstoða við framsetningu á tónlistinni. Gerið grein fyrir kostnaði sem tengist myndatöku, ráðgjöf, hönnun og öðrum kostnaði tengd sköpun á ímynd.
Kynningarefni fyrir vefmiðla
Efni fyrir samfélagsmiðla þarf að setja saman, hvort sem það eru myndir eða grafík eða stiklur (stutt myndbönd). Takið fram kostnað tengd framleiðslu á slíku efni.
HELSTU TEKJULIÐIR
Styrkir
STEF til dæmis veitir styrki stundum til ferðalaga og fleira
Aðrar tekjur
Það er óalgengt að markaðsherferðir skili beinum tekjum þar sem að þegar vel tekst til skilar fjárfestingin sér óbeint í auknu streymi, sölu á miðum eða öðrum varningi. Það er þó ekki útilokað, svo gerið grein fyrir öðrum tekjustraumum hér
Fjárframlag
Ef að tekjur mæta ekki kostnaði er hægt að gera upp mismunin með:
Eigin fjármagni
Fjárhagslegum stuðningi frá bakhjarli eins og til dæmis vörumerkjum eða fyrirtækjum (e. sponsorship)
Styrkur frá Útflutningssjóði
Gerið grein fyrir þeim styrk sem sótt er um