Algengar spurningar
Hér má finna svör við þeim spurningum sem við fáum reglulega.
Uppfært október 2018
Streymisveitur
+ Hvernig kem ég tónlistinni minni á Spotify?
Tónlistarveitan er ein vinsælasta tónlistarveitan í dag. Ekki er langt síðan að Spotify hóf að bjóða Íslendingum upp á aðgang að tónlistarveitunni en ekkert lát virðist vera á vinsældum veitunnar.
Ein algengasta spurningin sem ÚTÓN hefur fengið frá því að Spotify kom til landsins er hvernig íslenskir tónlistarmenn, sem ekki eru með útgáfu- eða dreifingarsamninga erlendis, koma tónlist sinni á Spotify.
Til þess að hlaða tónlist upp á streymisveitur þarf að fara í gegnum dreifingaraðila. Það eru til fjölmargir dreifingaraðilar sem að taka mismunandi mikið gjald eða hlutfall af streymi fyrir það að dreifa. Einn af þeim er Dreifir, sem heyrir undir Öldu Music. Alda Music ehf. hér á landi er með samninga við Spotify og Phonofile og getur tónlistarfólk komið tónlist sinni á Spotify og nær allar aðrar streymisveitur með aðstoð þeirra. Alda Music stýrir þjónustu Dreifis sem er stærsta stafræna dreifingarþjónustan fyrir tónlist á Íslandi. Að koma lögum inn á streymisveiturnar í gegnum Dreifi er fljótlegt ferli og sömuleiðis mjög hagstætt fyrir íslenskt tónlistarfólk miðað við aðra erlenda dreifingaraðila. Til að koma efni inn á streymisveitur eða fá nánari upplýsingar þá er hægt að hafa samband við info@dreifir.is eða á Facebook.
Við viljum benda tónlistarfólki á að skoða vel hvað það fær í sinn hlut hjá dreifingaraðilum áður en valið er. ÚTÓN hefur ekki kynnt sér málið til hlítar en við vitum þó að ef tónlistarmaður selur lag á iTunes á 1 USD í gegnum TuneCore að tónlistarmaðurinn fær 70% tekna í sinn hlut (0,7 USD) og tónlistarveitan 30%, sem ku vera langalgengasta skipting tekna á tónlistarveitum.
Við mælum með að tónlistarmenn setji líka upp listamannaprófíl á Spotify. Sjá leiðbeiningar og frekari upplýsingar í Spotify Guide.
Önnur algeng spurning sem ÚTÓN fær vegna Spotify er um hvað tónlistarmenn fái greitt fyrir hvert streymi. Það er ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu en samningar geta verið misjafnir sem erlendir dreifingaraðilar hafa við Spotify. Algengar tölur sem heyrast eru um 0,4 bandaríkja-cent fyrir hvert sinn sem lagi er streymt eða 0,5 kr. en aðrar heimildar segja tölurnar vera hærri.
+ Hvernig kem ég tónlistinni minni á lagalista?
Spotify tekur núorðið aðeins við tillögum að lögum fyrir ritstýrða lagalista í gegnum Spotify for Artists appið. Hinir ýmsu aðilar tengdir laginu geta sent inn tilllögur: listamaðurinn sjálfur, umboðsmaðurinn, útgefandinn osfr. Að sögn Spotify beita mismunandi aðilar ólíkum aðferðum við að lýsa sama laginu, til dæmis lýsa listamenn yfirleitt stemmningum og pælingum sínum þegar sköpunarferlið fer fram á meðan umboðsmönnum hættir til að lýsa hljóðfæraskipan og útgefendur tala gjarnan um möguleika lagsins til að ná til ákveðinna markhópa, s.s. flylgjendur á Facebook, Instagram og Spotify. Til þess að hafa sem mesta möguleika á að komast á spilunarlista hjá Spotify er best að allir þessir aðilar, þeas listamaðurinn, umboðsmaður og útgefandi, og þessvegana fleiri, komi saman að einni tillögu fyrir viðkomandi lag, en umsóknin innihaldi flesta þá þætti sem taldir eru upp hér að framan.
Stærstu laglistarnir á Spotify eru ákveðnir eftir bæði greiningu og ritstjórn. Lög sem eru mest spiluð á hverjum laglista eru sent í næsta stig á svæðinu - Spotify Ísland fer í Spotify Skandinaviu, og þá Spotify Evropu áður en það er íhugað fyrir Spotify á heimsvísu.
Fyrrverandi 'ritstjorn' netfangið er ekki lengur notuð. Annað en tónlistarútgáfur, Spotify for Artists forritið er nú eina leið til að koma í laglistana. Þar getur þú valið eitt óútgefið lag til íhugunar. Það er nauðsynlegt að láta Spotify hafa eins mikið af upplýsingum um lagið og þú getur, t.d. tonlistagrein, skap, hvaða hljóðfæri eru notuð, ef lagið er cover lag, og svo framvegis.
Svo líka gerir ÚTÓN nokkra Spotify lagalista. Icelandic Indie lagalistinn okkar er vinsælastur, og hafa yfir en 14.000 hlustendur, en við stjórnum líka lagalistum eftir tonlistagreinum og skapi. Til að komast á lagalistanna, sentu tölvupost hér.
+ Ég hef búið til mitt eigið tónlistarmyndband, en enginn virðist vera að horfa á það! Hjálp, hvað get ég gert?
Tónlistarmenn ættu alltaf að hlaða upp myndböndum sínum beint í gegnum Facebook til að fá sem flest áhorf: Myndbönd sem hafa verið hlaðin upp í gegnum "Facebook Native Upload" fá allt að 10x fleiri deilingar en myndbönd frá Youtube. Facebook ýtir tenglum þriðja aðila eins og Youtube niður á botn fréttaveitunar til þess að halda notendum á Facebook.
+ Er nóg að tónlistin mín sé bara á Spotify?
Apple Music er jafn vinsælt og Spotify í BNA og Bretlandi, svo það er mikilvægt að hafa tónlistina þína í boði þar, sem og á Google Music. Það eru margar streymiþjónustur sem þú ættir ekki að vanrækja, eins og t.d. Pandora, Youtube Premium og Youtube Music. Það eru vaxandi gögn um að hefðbundin tæknifyrirtæki eins Google og Facebook eru að ryðja sér leið inn á tónlistarbransann. Þessar þjónustur ætti ekki að vanrækja bara vegna þess að þær eru ekki í boði á Íslandi.
+ Hvernig nota ég Spotify Direct-Upload?
Spotify hefur gefið út þetta verkfæri sem leyfir tónlistarmönnum að komast framhjá hinu hefðbunda kerfi með útgáfufyrirtækjum og dreifingaraðilum. Þessi þjónusta er enn í beta og er enn sem komið er einungis fáanlegt í Bandaríkjunum. Það eru kostir og gallar við að hlaða upp milliliðalaust, og það er óljóst hvort það eru vandamál varðandi höfundaréttagjöld. Lesið þessa grein til að kynna ykkur sum málefnana.
Útflutningssjóður
+ Hvenær er umsóknafrestur Útflutningssjóðs?
Umsóknarfrestur er fyrir miðnætti (23:59 GMT) á síðasta degi hvers mánaðar.
+ Er hægt að fá endurgreiðslu á flugmiða sem ég hef þegar keypt?
Það er ekki hægt að gefa afturvirkan afslátt eða endurgreiðslu á flugmiða sem hafa verið keyptir af styrkjum eru fengnir frá Reykjavík Loftbru.
+ Dagsetningar á tónleikaferðunum mínum eru ekki staðfestar. Get ég samt sótt um útflutningssjóð?
Það er ekki nauðsynlegt að syna fram á dagsetningar tónleika þegar sótt er um hjá Útflutningssjóði Íslenskrar Tónlistar.
+ Eru sjóðirnir skattfrjálsir?
Skattur er greiddur af öllum styrkjum. Sjá nánar hér.
Aðrir spurningar
+ Hvernig getur fólk hlustað á tónlistina mína?
Þegar ný útgáfa eða tónleikaferðalag er í vændum er einstaklega heppilegt að fá fjölmiðlaumfjallanir í blöðum, í útvarpi, í sjónvarpi og víðar. Nú til dags sjá minni hljómsveitir / tónilstarmenn um þetta sjálf, en hér eru nokkur góð ráð fyrir ykkur sem gera það.
Fréttatilkynning
Fyrst þarf að vita hvert á að senda fréttatilkynningu. Sumir kaupa lista af tölvupóstföngum í massavís og senda á alla, en við getum ekki mælt með þessari aðferð. Best er að reyna að senda til fárra en vel valdra aðila. Byrjaðu á að punkta niður hvaða miðla þú fylgist með, niðurbútað eftir löndum (tungumálum). Hvaða miðlar fjalla um svipaða tónlist og þú ert að reyna að koma á framfæri? Það er líka gott að vera raunsær, en ef að þú ert með lítið óþekkt verkefni eru kannski minni líkur á að fá umfjöllun á Pitchfork og betra að setja meiri orku í að fá umfjöllun á til dæmis minni bloggum. Það getur líka verið mjög fráhrindandi fyrir t.d. rapp heimasíðu að fá fréttatilkynningu frá metal bandi. Sumir blaðamenn nota lítið tölvupóst og vilja frekar fá sendan geisladisk og bréf í pósti. Best er að vita á hvern þú ert að senda.
Annað er tungumálið, ef heimasíða er á frönsku þá er best að senda fréttatilkynningu á frönsku og svo framvegis. Markmiðið er að gera starf blaðamannsins auðveldari og það að hafa upplýsingar haldbærar á sínu tungumáli er mjög þæginlegt.
Lang besta leiðin til þess að ná til blaðamanna er að skrifa persónulegt bréf. Þá myndirðu ávarpa viðkomandi með nafni, og jafnvel vísa í aðrar greinar sem hann/hún hefur skrifað. Til dæmis er hægt að segja, að fyrst viðkomandi hefur áður skrifað um einn listamann þá gæti verið að hann/hún hafi áhuga á því sem þú ert að kynna.
Einn tilgangur PR fyrirtækja er að eiga lista yfir mikilvæga pressu og hafa þau einnig persónuleg tengsl við blaðamennina sem eykur líkur á umfjöllun töluvert, en það getur kostað sitt. Þú getur lesið meira um PR fyrirtæki hér.
Best er að hafa póstinn stuttan og hnitmiðaðann, ekki hafa allar upplýsingarnar í tölvupóstinum sjálfum en þú getur haft í viðhengi t.d. electronic press kit (EPK) þar sem má finna ítarlegari upplýsingar. Hinsvegar verður þú að tryggja að allar upplýsingar sem blaðamaðurinn þarf er að finna í EPK. Ekki senda plötuna þína einfaldlega á blaðamann og biðja viðkomandi um að skrifa um hana, þú verður að “pitcha” plötuna og taka fram afhverju hún er áhugavert umfjöllunarefni, hver sagan er á bak við hana og þig/ykkur sem tónlistarmann/menn, hvenær hún kom eða kemur út, hvar hún er fáanleg osfv. osfv.
Eitt sem er næstum hægt að lofa, er að maður fær ekki svar í fyrstu tilraun. Best er að senda mjög kurteisan póst stuttu seinna, til dæmis, “Hæ X, hefurðu haft tíma til þess að skoða póstinn sem ég sendi þér?”. Á Íslandi er stundum hægt að hringja í blaðamenn og ýta kurteisislega eftir svari. Ef viðkomandi segir nei, þá er best að taka því bara, og vera ekki að reyna mikið meira. Maður vill ekki vera dónalegur eða of ýtinn, ef efnið á ekki við viðkomandi blað eða blaðamann þá nær það ekki lengra.
Hafðu hlekk á streymi, því það vilja fæstir niðurhala heilu lagi til þess að hlusta á það. Ekki leggja ofuráherslu á tilvitnanir frá öðrum blöðum, sérstaklega ef þú ert með tiltölulega óþekkt verkefni. Tónlistarblaðamenn vilja oft vera þeir sem uppgötvuðu tónlistina og það að sýna hve margir tónlistarmiðlar hafa þegar fjallað um hljómsveitina hjálpar ekki.
Electronic Press Kit (EPK)
Það er gott fyrir allar hljómsveitir að hafa EPK. Margir hverjir hýsa EPK á Dropbox eða sambærilegum heimasíðum nú til dags. Í EPK eru eftirfarandi hlutir:
Stutt ágrip af ferlinum þínum. Ekki byrja á “x hefur spilað tónlist frá 5 ára aldri”, það er mjög þreytt :) Fréttatilkynning frá því sem þú ert að kynna núna til dæmis útgáfa eða tónleikaferðalag. Myndir í góðum gæðum, bæði af þér/ykkur og af plötuumslaginu (ef á við) 1-3 lög eftir þig/ykkur Blað með viðeigandi hlekkjum (Facebook, Instagram, heimasíða, Spotify…) Eins og áður var nefnt er best að hafa þetta á nokkrum tungumálum, eftir því hvaða löndum þú vilt kynna tónlist þína. Mörg lönd eru ekki eins og Ísland þar sem allir tala ensku, ef þú hefur tök á því að þýða EPKið þitt þá mælum við sterklega með því. Ekki nota Google Translate, samt.
+ Hvernig virka bókunarskrifstofur?
Þegar við spyrjum tónlistarmenn hvernig fyrirtæki þeir leitast mest eftir að stofna til samstarfs við, þá er bókunarskrifsta þar efst á vörum. En hvernig virka bókunarskrifstofur og hvað gera þær fyrir tónlistarmenn?
Bókunarskrifstofa, á ensku, er “booking agency” og bókari er þá kallaður “booking agent” eða einfaldlega “agent”. Þessi hugtök geta stundum vafist fyrir fólki þar sem bókari er einnig notað á íslensku fyrir þann aðila sem bókar bönd á ákveðna tónleikastaði eða hátíðir, til dæmis “bókari Hróaskelduhátíðarinnar”, en á ensku væri það t.d. Head of Booking at Roskilde eða Booking at Roskilde, án titilsins “agent”.
Ein hljómsveit eða verkefni á sér oftast einn bókara, en sá vinnur oftast innan stærri teymis í bókunarskrisftofu. Bókunarskrifstofur eru langt flestar sérhæfðar og þá eftir tónlistarstíl og eftir landssvæðum. Ástæðan tengist tilgangi bókunarskrifstofunnar beint, en bókari hefur víðtækt tengslanet við tónlistarhátíðir, tónleikastaði, og svo framvegis. Þannig getur bókari komið sínum listamanni inn á tónlistarhátíðir og inn á tónleikastaði í sínu tengslaneti, staði og hátíðir sem tónlistarmaðurinn myndi ef til vill ekki hafa aðgang að án bókarans. Í því tilfelli er bókarinn einnig að “ýta” tónlistarmanninum áfram og tekur þannig þátt í markaðssetningu tónlistarmannsins gagnvart fagaðilum í tónlist.
Í öðrum tilfellum er tónlistarmaðurinn svo vinsæll að það þarf í rauninni ekki að ýta þeim áfram, heldur rignir inn tilboðum frá allskonar stöðum. Þá sér bókarinn um að vinna úr tilboðunum, velja þau sem líta út fyrir að vera vænlegust, og í samstarfi við umboðsmann og tónlistarmann ákveða hvaða tilboðum á að taka og hvaða tilboðum á ekki að taka. Þetta er í raun og veru sjaldgæft og eru flestir bókarar bæði að sjá um þetta hlutverk og að koma tónlistarmanninum inn á rétta staði einnig.
Bókari er einnig með yfirburðaþekkingu á tónleikastöðum og fleira tengt tónleikaferðalögum og á að geta skipulagt tónleikaferðalag á markvissan og skilvirkan hátt, þannig lítill tími og peningur glatast í óþarfa frídaga á milli tónleika eða óþarfa flakks fram og til baka milli landa.
Fyrir utan þetta á bókari að tryggja góða og sanngjarna greiðslu fyrir hverja tónleika sem tónlistarmaður spilar á. Þetta á bæði bið um launin (e. “fee” á ensku) og svo hvað er innifalið í því, til dæmis flugmiði, gisting, og annað tilheyrandi.
En hvað fá bókarar í staðinn? Það er misjafnt eftir samningum en í flestum tilfellum fá bókarar ekkert “borgað” frá tónlistamönnum heldur setja þeir svokallað “booking fee” ofan á allar bókanir sem eiga sér stað, eða þá taka prósentu af launum tónlistarmannsins frá tónleikunum, eða bæði. Best er að bókarar fá prósentu af launum svo þar sé meiri hvatning til að semja um hærri laun frekar en hvatning til að bóka sem flesta tónleika.
Til að fá dæmi um bókunarskrifstofur á nokkrum mikilvægum landssvæðum endilega skoðið Vegvísi ÚTÓN.
+ Hvað gera PR fyrirtæki fyrir tónlistarmenn?
Þegar kemur að kynningu á nýrri plötu eða tónleikaferðalagi er algengt að tónlistarmenn kaupi sér þjónustu PR fyrirtækis. Það hefur sýnt sig að slík kynning getur verið mjög verðmæt og skili góðum árangri, en hvernig er best að fara að því að notast við PR fyrirtæki?
PR stendur fyrir “public relations” og manneskja sem er PR fulltrúi vinnur við að eiga samskipti við fjölmiðla fyrir hönd einhvers hvort sem það er tónlistarmanns, fyrirtækis eða annars aðila. Stór fyrirtæki (á borð við stórar plötuútgáfur eða slíkt) eru oft með fólk hjá sér í vinnu sem sér um PR mál, en minni fyrirtæki og einstakir tónlistarmenn eru líklegari til þess að kaupa sér þjónustu PR fyrirtækis.
PR fyrirtæki selur þjónustu sína til þess að hjálpa fólki að fá umfjöllun í fjölmiðlum um tiltekin verkefni, plötu, tónleika eða bara almenna vitleysu eins og mikið af celebrity liðinu gengst upp í.
PR fulltrúi er manneskja sem hefur góð tengsl við fjölmiðlafólk og aðstoðar sína viðskiptavini við það að fá fjölmiðlaumfjöllun. Þetta getur verið í formi fréttar um viðeigandi tónlistarmann, viðtal, plötudóm eða annað. Þetta gerir það að verkum að fólk sem les þennan tiltekna miðil mun nú þekkja tónlistarmanninn ef þau gerðu það ekki áður, og/eða ef til vill að ímynd þeirra um tónlistarmannin breytist. Til dæmis getur viðtal leitt hluti í ljós um persónuleika eða sögu tónlistarmanns sem lesandi vissi ekki áður, og einnig getur frétt um tónlistarmann sem birtist í mjög virtu blaði breytt hugmyndum fólks um tónlistarmanninn.
Í rauninni er munurinn á PR og auglýsingum sú að þú kaupir þér auglýsingarpláss í blaði, en með PR þá er peningurinn notaður í að reyna að fá umfjöllun í blaðinu sem ekki er kostuð. Slík umfjöllun virkar oft áreiðanlegri en auglýsing á lesendur.
En hvernig fer maður að því að kaupa sér PR þjónustu, og hver eru algengustu mistök í PR málum?
Þegar farið er í PR herferð eins og aðrar markaðsherferðir er mikilvægt að setja sér mælanleg markmið og fylgja eftir. Mismunandi PR fyriræki starfa á mismunandi markaðssvæðum og með mismunandi miðlum. Þannig er gott fyrir þig að ákveða fyrirfram á hvaða svæði þú vilt einblína (Bretland, Þýskaland og Bandaríkin eru almennt góð markaðssvæði fyrir íslenska músík) og hvort þú hefur mestan áhuga á umfjöllun í blöðunum, útvarpi, sjónvarpi, á netinu eða annað (til þess að komast að því er best að spyrja sig hvaða miðla markhópurinn þinn er líklegur til að skoða, sjá frekari upplýsingar í Verkfærakistu ÚTÓN). Þú getur þá metið tilboð frá PR fyrirtæki útfrá því að það tryggi umfjöllun á markaðssvæði sem skiptir þig máli í miðli sem tilvonandi viðskiptavinir þínir lesa, hlusta á eða horfa á. Þú getur sett þér markmið um ákveðna dreifingu, ákveðna umfjöllun eða auknar spilanir frá ákveðnum svæðum. Þú getur til dæmis óskað eftir gögnum frá Spotify um hvar er verið að hlusta á tónlist þína, og svo borið saman sömu gögn eftir herferðina, ef tilgangur herferðarinnar er að auka streymi í ákveðnu landi (reynið þá til dæmis að fá fjölmiðil til að setja hlekk á Spotify svo að lesendur geti auðveldlega byrjað að hlusta á plötuna).
Eitt það mikilvægasta sem þarf að hafa í huga áður en PR herferð er keypt er það sé verið að kynna eitthvað ákveðið. Þá er það helst tónleikaferðalag eða plötuútgáfa, en það borgar sig aldrei að kaupa PR “út í lofið”. Þess vegna er svo algengt að sjá í lok umfjöllunar um tónlistarmann “þú getur keypt plötuna á iTunes” eða “þú getur séð þennan tónlistarmann spila í þessum löndum á næstunni”.
Einnig er gott að vera virkur á samfélagsmiðlum og vera með góða vefviðveru. Ef einhver sér umfjöllun um tónlist þína og vill ef til vill fylgjast með þér á Twitter þá er gott að þú sért auðsjáanlega virkur á þeim miðli. Þannig getur þú einnig fylgst með Twitter og Facebook Analytics til þess að sjá hvort það sé verið að sýna áhuga á því landssvæði sem PR herferðin fer fram.
Að lokum þegar PR herferð lýkur er mikilvægt að biðja um lokaskýrslu frá PR aðila þar sem kemur fram hvaða umfjallanir manneskjan ber ábyrgð á, hversu margir lesendur eru á bak við hverja umfjöllun og aðrar upplýsingar sem snúa að markmiðum herferðarinnar.
Þú getur sótt um markaðsstyrk frá ÚTÓN (umsóknarfrestur fjórum sinnum á ári) ef þú heldur að PR herferð geti hjálpað þér að ná markmiðum þínum. Einnig getur þú leitað ráða hjá ÚTÓN ef einhverjar spurningar vakna.