Um ÚTÓN


Útflutninsskrifstofa íslenskrar tónlistar

Laugavegur 105, 105 Reykjavík

s. 588 6620

Kennitala: 550207-2300

Merki ÚTÓN og IMX (zip skrá)

 

Tilgangur Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) er að leita tækifæra til að efla og skapa sóknarfæri til handa rétthöfum íslenskrar tónlistar innanlands sem utan. Markmið skrifstofunnar er að auka möguleika íslenskra fyrirtækja og einstaklinga í tónlistarútrás til að ná árangri í alþjóðlegum viðskiptum. Útflutningsskrifstofan er viðskipta- og markaðsskrifstofa í víðum skilningi.

Helstu verkefni Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar eru að:

  • Kynna íslenska tónlistarmenn erlendis
  • Koma útgáfum með íslenskri tónlist á framfæri erlendis
  • Vekja athygli á íslenskum tónlistarhátíðum og tónlistarviðburðum
  • Starfrækja heimasíðu og gefa út netfréttabréf
  • Efla útflutningshæfni íslenskra tónlistarmanna og fyrirtækja sem starfa í geiranum
  • Sinna almennri ráðgjöf og tengslamyndun
  • Styrkja samstarf við hliðstæðar útflutningsskrifstofur erlendis, einkum á Norðurlöndum

Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar eða Iceland Music Export (IMX) var stofnsett árið 2006 með föstu fjárframlagi til þriggja ára frá iðnaðar-, menntamála- og utanríkisráðuneyti, Samtóni og Landsbanka Íslands. Skrifstofan hafði aðsetur hjá  Íslandsstofu (sem áður var Útflutningsráð Íslands).  Útflutningsráð átti einnig samstarf við skrifstofuna um ýmis verkefni.

Rekstur skrifstofunnar var í upphafi miðaður við þrjú ár og í kjölfarið var ráðgert að endurmeta stöðuna til þess að tryggja áframhaldandi starfi sem bestan farveg. Fjármagni var af hálfu stofnenda veitt til starfsemi hennar árin 2006, 2007 og 2008. Samningar við ráðuneyti og Samtón voru endurnýjaðir til þriggja ára og gilda út árið 2011. Markmið þeirrar stefnumótunarvinnu sem nú hefur farið fram er að vinna langtímaáætlun fyrir ÚTÓN en skrifstofan hefur fest sig í sessi og almenn ánægja er með starfsemi hennar eins og kannanir og MS ritgerðir sem unnar hafa verið staðfesta.

Anna Hildur Hildibrandsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri skrifstofunnar í febrúar 2007 og fylgdi markmiðum hennar ötullega eftir, en hún ásamt stjórn ÚTÓN markaði heildarstefnu til útrásar tónlistarverkefna frá Íslandi. Anna Hildur tók við nýju verkefni í janúar 2012 sem kallast Nordic Music Export (NOMEX) sem er í eigu ÚTÓN og systurskrifstofanna á Norðurlöndum. Sigtryggur Baldursson, tónlistarmaður, var í kjölfarið ráðinn framkvæmdastjóri en hann hefur setið í stjórn ÚTÓN frá því að skrifstofan var sett á laggirnar í nóvember 2006.

ÚTÓN rekur tvær heimasíður. www.uton.is er miðuð að íslensku tónlistarfólki og tónlistarbransanum. Á henni er að finna upplýsingar um fræðslukvöld ÚTÓN, umsóknarfresti á bransahátíðir, upplýsingar um styrki o.s.frv.  www.icelandmusic.is er á ensku og miðar að því að kynna íslenska tónlist, tónlistarmenn, plötuútgáfur, tónlistarhátíðir, tónleika erlendis o.s.frv. út á við.

Verkefnalistinn síðustu ár hefur verið viðamikill og góður árangur tvímælalaust náðst í kynningar- og tengslamálum. Gott gengi á tónlistarhátíðum og sá aukni áhugi sem greinilega er á íslenskri tónlist um þessar mundir gefur ástæðu til sóknar.