Showcase Hátíðir (e. faghátíðir)

Showcase hátíðir (e. faghátíðir) eru frábrugðnar hefðbundnum tónlistarhátíðum þar sem stór hluti tónleikagesta eru fagfólk úr tónlistarbransanum og þær geta verið stökkpallur á alþjóðlegan tónlistarmarkað þegar vel er að staðið. Slíkar hátíðir eru mikilvægur liður í útflutningi á íslenskri tónlist.

Showcase hátíðir eru gjarnan sóttar af fagfólki á sviði tónlistar; umboðsmönnum, bókurum, plötutgefendum, PR fyrirtækjum, starfsfólki útflutningsskrifstofa og fleirum. Þeim er ýmist boðið á hátíðina af skipuleggjendum eða á eigin vegum til að kynnast öðru fagfólki, en tengsl eru mjög mikilvæg í tónlistargeiranum. Annað sem er frábrugðið við showcase hátíðir er að hægt er að sækja um að koma fram á þeim, oftast á heimasíðu hátíðarinnar, en hefðbundnar hátíðir notast oftast einungis við bókunarskrifstofur og/eða bókunarteymi.

Ef ætlunin er að koma tónlistarverkefni á framfæri á showcase hátíð er mikilvægt að kynna sér vel stefnu hverrar hátíðar og setja sér skýr markmið með þátttöku, einnig er nauðsynlegt að tónlistarverkefnið sé tilbúið til útflutnings (e. export ready) Athugið að flestar þessar hátíðir eru landlægar, til dæmis eru íslensk tónlistaratriði í forgrunni á Iceland Airwaves, þýsk atriði á Reeperbahn í Hamborg o.s.fr.

Á ráðstefnum sem oft eru haldnar í tengslum við showcase hátíðir er hægt að fræðast um allt það nýjasta í tónlistarbransanum, hlusta á pallborðsumræður um ýmislegt sem tengist geiranum, allt frá tækninýjungum til markaðsmála að spjöllum við tónlistarfólk sem hefur náð góðum árangri og þar fram eftir götunum.

Þau sem hafa áhuga á að sækja um þátttöku eru hvött til að hafa samband við starfsfólk ÚTÓN sem getur veitt ráð við þá mikilvægu undirbúningsvinnu sem er nauðsynleg fyrir slíka umsókn og þátttöku.

Hægt er að sækja um ferða- og markaðsstyrki m.a. hjá Útflutningssjóði íslenskrar tónlistar, sjá nánar hér.

Lista yfir faghátíðir sem ÚTÓN mælir með má finna hér fyrir neðan.

 

Eurosonic

Umsóknarfrestur: Lokað fyrir 2024

 

Iceland Airwaves

Umsóknarfrestur: 15. Maí 2024

By:Larm

Umsóknarfrestur:. Mars 2025

The Great Escape

Umsóknarfrestur: 16. Febrúar 2024

Reeperbahn

Umsóknarfrestur: Ágúst 2024

 
 
 
 

Jazzahead

Umsóknarfrestur: Október 2024

Spot Festival

Umsóknarfrestur: 1. Nóvember 2024

MaMa

Umsóknarfrestur: Maí 2024

CMW

Umsóknarfrestur: Desember 2024

Winnipeg Folk

Umsóknarfrestur: Janúar 2025

 
 
 
 

Wacken

Umsóknarfrestur: 15. Desember 2023

 
 

WOMEX

Umsóknarfrestur: 1. Mars

 

FAI

Umsóknarfrestur: Júlí 2024

 

NFA

Umsóknarfrestur: 31. Nóvember 2024

 

SXSW

Umsóknarfrestur: 27. Október 2024

 

MENT

Umsóknarfrestur: September 2024

 

Inferno

Umsóknarfrestur: Lokað fyrir 2024

 

L2MS

Umsóknarfrestur: Október 2024

 

Tallinn Music Week

Umsóknarfrestur: Lokað fyrir 2024

 

Classical:NEXT

Umsóknarfrestur: Október 2024

 
 

Á ég að spila á showcase hátíðum?

Hluti af markaðsáætlun

Showcase tónleikar eru oft mikilvægur hluti af kynningarplani útgáfu og/eða tónleikaferðalags. Til dæmis ef uppi eru áform um útgáfu og áhugi er á að gera samning við bókunarskrifstofu í Bretlandi. Þá þekkist það oft að umboðsmaður skipuleggur útgáfuna og tónleikaferð í kjölfarið.

Í slíkum tilfellum væri tilvalið að spila t.d. á The Great Escape í London og tryggja að aðilar frá bókunarskrifstofunum komi á tónleikana. Ef tónlistarfólk hefur gefið út plötu í Evrópu, og vill auka líkurnar á bókun á tónlistarhátíðir í framhaldi, þá væri ráð að sækja um að spila á Eurosonic. Þannig getur framkoma á showcase hátíð verið hluti af markaðsáætlun tónlistarverkefnis.

Það sem verður þó að hafa í huga er að flest öll showcase eru með svokallað “no-return policy” sem þýðir að tónlistarverkefni getur einungis spilað á hverri hátíð einu sinni. Auk þess er yfirleitt gerð krafa um “ferskleika” í tónlistargeiranum. Á þessu eru þó undantekningar.

Til hvers og fyrir hverja eru showcase hátíðir?

Í stuttu máli er showhátíð fyrir þau sem eru að selja og kaupa hæfileika. Markmið listamanna og hljómsveita á showcase hátíðum er að mynda sambönd við fólk í tónlistarsamfélaginu sem geta veitt þeim tækifæri. Markmið gesta á showcase hátíðum er að kynnast nýrri tónlist.

Showcase hátíð er ekki til að spila í útlöndum í fyrsta sinn. Showcase hátíð er fyrir tónlistarhópa með skýrar fyrirætlanir og fólk sem er tilbúið að leggja sig fram við að stefna að settum markmiðum.

Sigtryggur Baldursson sagði á fræðslukvöldi ÚTÓN að “þín laun fyrir að spila á showcase hátíð er aðgangur að tengslanetinu á staðnum. Ef þú nýtir þér það ekki þá ertu bara að eyða tíma.”

Hvernig er best að komast inn á showcase hátíðir?

Gis Von Ice, umboðsmaður sagði á fræðslukvöldi ÚTÓN að “algengustu mistök tónlistarmanna væru að spila of snemma á bransahátíðum og tapa því frábæra tækifæri sem þær eru.”

Þau sem hafa áhuga á að taka þátt í faghátíð geta keypt miða og mætt í þeim tilgangi að kynnast tónlistar samfélaginu betur eða sækja um að koma fram.

Hvað er best að gera áður en farið er á showcase hátíðir?

Á showcase hátíð er nauðsynlegt að hafa umboðsmann eða annan á vegum tónlistarverkefnisins til að styðja við og mynda réttu samböndin, en til að eiga möguleika á því þarf að skipuleggja sig vel áður en farið er á hátíðina.

Þau sem skrá sig á faghátíðir fá aðgang að fulltrúalista (e. delegate list) sem er listi yfir aðila á svæðinu sem eru að leita að tónlistaratriðum. Listinn er mjög mikilvægur til að finna ákjósanlega aðila til samstarfs og mynda tengsl við áður en lagt er af stað á hátíðina til að setja upp fund eða spjall á meðan á hátíðinni stendur.

Mikilvægt er að vera með tilbúið einhvers konar nafnspjald (e. business card) til að það sé auðvelt að ná sambandi eftir hátíðina.

Mikilvæg atriði sem þarf að hafa í huga áður en komið er fram á faghátíð:

  1. Að tónlistaratriðið sé tilbúið til útflutnings (e. export ready).

  2. Að hátíðin miðist að markaði sem er mikilvægur fyrir verkefnið.

  3. Útgáfa á vegum verkefnisins sé aðgengileg á markaðinum (annað hvort nýlega eða á næstu mánuðum).

  4. Markmiðin með því að koma fram á hátíðinni séu skýr, og helst mælanleg.

  5. Hvort tíminn sé réttur með tilliti til atriða 1-3

Frekari upplýsingar og ráð varðandi faghátíðir eru veittar á skrifstofu ÚTÓN eftir samkomulagi.