FIRESTARTER - Reykjavik Music Accelerator
Nýr hraðall fyrir viðskiptahugmyndir og nýjar tæknilausnir á sviði tónlistar hefur göngu sína í haust. Opnað hefur fyrir umsóknir í Hraðalinn, sem hlotið hefur heitið FIRESTARTER - Reykjavik Music Accelerator en tilgangur hans er að auka verðmætasköpun í íslensku tónlistarumhverfi. Allt að sjö verkefni verða valin til þátttöku í verkefninu sem hefst í október n.k. og fá þau aðgang að fullbúinni vinnuaðstöðu, ráðgjöf og leiðsögn frá fjölmörgum sérfræðingum, fjárfestum og reyndum frumkvöðlum þeim að kostnaðarlausu yfir fjögurra vikna tímabil. Hraðlinum lýkur í nóvember á Iceland Airwaves með kynningum fyrirtækjanna á hugmyndum sínum fyrir fjárfestum, völdum ráðstefnugestum og öðrum lykilaðilum á sviði tónlistar.
Leitað er eftir sterkum, ástríðufullum og drífandi teymum sem eru tilbúin að vinna og þróa hugmyndir sínar áfram í gegnum hraðalinn. Við hvetjum fyrirtæki sem þrífast í tónlistariðnaðinum svo sem hátíðir, tónleikastaði, útgefendur, forleggjara og bókunarskrifstofur til að sækja um en síðast en ekki síst frumkvöðla sem sjá tækifæri í tónlistarbransanum og möguleika á nýsköpun. Við leitum að spennandi verkefnum og lausnum, hvort sem þær eru á hugmyndastigi eða fullmótaðar eða einhverstaðar þar á milli.
Opið er fyrir umsóknir í FIRESTARTER til og með 30. ágúst n.k. á vefsíðu verkefnisins.
Að verkefninu standa ÚTÓN, Tónlistarborgin Reykjavík og Icelandic Startups með stuðningi Senu Live, Samtóns og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytissins.