MYRKIR MÚSÍKDAGAR; metnaðarfull dagskrá sem fagnar því besta í samtímatónlist í dag

 MYRKIR MÚSÍKDAGAR er fremsta tónlistarhátíð landsins í samtímatónlist og alþjóðlegur vettvangur fyrir fjölbreytta flóru tónverka frá sinfónískum verkum yfir í þverfaglega tilraunastarfsemi. Hátíðin fer fram í 43. sinn 24.-28. janúar í Hörpu, Salnum Kópavogi, Hallgrímskirkju og Norræna Húsinu. 

 
 

MYRKIR MÚSÍKDAGAR verða haldnir í 43. sinn 24.-28. janúar næstkomandi en hátíðin hefur verið haldin árlega frá stofnun 1980 og er í dag þekkt langt út fyrir landsteinana sem fremsta samtímatónlistarhátíð landins. Hátíðin býður upp á tónlistardagskrá á heimsmælikvarða sem bæði innlent og erlent áhugafólk um samtímatónlist sem og fagfólk fær notið. 

Það sem einkennir hátíðina í ár er breiddin í efnisskránni, en hún teygir sig frá flutningi á verkum okkar elstu samtímatónskálda til verka og flutnings tónlistarmanna sem hafa þegar skapað sér nafn í öðrum geirum tónlistar en eru að spreyta sig á tilraunakenndari verkefnum. 

Ásmundur Jónsson – listrænn stjórnandi hátíðarinnar, segir að það sem einkennir samtímatónlist í dag er hvernig tækninýjungar lauma sér inn í skapandi verkferla tónskálda sem gerir samspil á milli tónlistar og annarra listgreina að vettvangi fyrir þverfaglegar listrænar upplifanir. Því má finna á dagskránni í ár sinfóníska tónlist, en jafnframt tónlist sem er tilraunakennd, gagnvirk (e. interactive), gjörninga og hljóðinnsetningar.

Alls eru viðburðir hátíðarinnar yfir tuttugu talsins og þeirra á meðal eru sannkallaðir stórviðburðir; R·O·R – tónleikar Gyðu Valtýsdóttur og Úlfs Hanssonar, tónleikar Ragnhildar Gísladóttur og Cauda Collective þar sem Ragnhildur stígur fram sem tónskáld og flytjandi í samtímatónlist. Cantoque Ensemble mun flytja efnisskrá í Hallgrímskirkju með kórverkum Þorkels Sigurbjörnssonar og Björg Brjánsdóttir mun flytja efnisskrá með verkum Báru Gísladóttur á útgáfutónleikum plötunnar GROWL POWER. 

 
 

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur iðulega tónleika á hátíðinni með íslenskri efnisskrá og mun frumflytja Flökkusinfóníu með Gjörningaklúbbnum sem er sannkölluð veisla fyrir bæði augu og eyru. Höfundar Flökkusinfóníunnar eru Gjörningaklúbburinn, Una Sveinbjarnardóttir og Ólafur Björn Ólafsson. Þar fyrir utan eru á efnisskrá tónleikanna verk eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur og Þuríði Jónsdóttur ásamt því að Jónas Ásgeir Ásgeirsson leikur Harmonikkukonsert Finns Karlssonar með hljómsveitinni. Hér er því um sannkallaða stórtónleika að ræða.

Hátíðin stendur einnig fyrir kynningardagskránni PODIUM í samstarfi við Tónlistarmiðstöð, Tónlistarborgina Reykjavík og Íslandsstofu. PODIUM er einkum fyrir erlenda fagaðila sem leggja leið sína til Íslands til að finna það sem er mest spennandi í íslenskri samtímatónlist í dag. Erlendir gestir verða í ár fulltrúar frá Huddersfield Contemporary Music Festival, Spor festival, New Music Dublin, Oslo Philharmonic, Sono Luminus, BBC og SWR Deutschlandfunk.

Myrkir Músíkdagar eru haldnir af Tónskáldafélagi Íslands í samstarfi við Tónlistarmiðstöð, Tónlistarborgina Reykjavík, Íslandsstofu, Hörpu, Salinn í Kópavogi, Hallgrímskirkju og Norræna húsið. Einnig er vert að minnast á samstarf hátíðarinnar við Listaháskóla Íslands og Menntaskóla í tónlist en nemendur beggja skóla koma fram á hátíðinni. 


Hátíðarpassi gildir á alla viðburði Myrka músíkdaga og er fáanlegur á Tix.is

Aðstandendur hátíðarinnar hvetja ykkur til að sýna stuðning við íslensk tónskáld með því að fjölmenna á þessa fjölbreyttu dagskrá sem veitir íslenskri sköpunargáfu alþjóðlegan vettvang. 


Hlustið á flytjendur hátíðarinnar á ‘Iceland Music Contemporary Classical’ lagalistanum okkar

Iceland Music