Iceland Music Miðlarnir

Samfélagsmiðlar og fréttabréf

Iceland Music á Instagram

 
 

Hvernig má nýta sér Iceland Music vettvanginn

Iceland Music er byggt upp sem vörumerki til að gefa alþjóðlegum tónlistarunnendum glugga inn í það frambærilegasta í íslenskri tónlist hverju sinni. Á meðan vörumerkið ‘ÚTÓN’ er samtal við bransann hér heima, þá horfir ‘Iceland Music’ út á við og er hugsað fyrir alþjóðlegan markað.

Þetta er langstærsta og verðmætasta vörumerkið sem ÚTÓN heldur úti og okkar mikilvægasta starf er að byggja það áfram upp sem vettvang fyrir íslensk tónlistarverkefni til að ná til alþjóðlegra hlustenda. Okkar ósk fyrir íslenskt tónlistarfólk er að það nýti sér þann vettvang svo sem stökkpall í frekari heimsyfirráð.

Þeir miðlar sem við sinnum dags daglega undir formerkjum Iceland Music eru:

Markmið ÚTÓN með Iceland Music

Sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, þá setjum við þau tónlistarverkefni sem eru ‘export ready’ í forgang á miðlana okkar. Það er vegna þess að þau verkefni sem eru tilbúin í útflutning eiga meira erindi á alþjóðamarkað og fá þar af leiðandi meira út úr þessum vettvangi.

Við vinnum daglega að því að fá meiri athygli fyrir íslenskt tónlistarfólk alþjóðlega. Fjöldi samanlagðra fylgjenda nálgast nú 50.000, og við leggjum metnað okkar í það að viðhalda þessum sterka fylgjendahópi til að gera það sem verðmætast fyrir tónlistarfólk að komast inn í dreifingu á þennan hátt hjá okkur.

Ef þú ert að velta fyrir þér hvar lagalistarnir okkar passa inn, þá eru upplýsingar um þá sérstaklega hér.

Markmið okkar er því tvíþætt

  1. Að búa til glugga fyrir alþjóðlega tónlistarunnendur inn í íslenska tónlist sem er nógu grípandi til að halda í þann fylgjendahóp sem þegar hefur byggst upp en jafnframt nógu spennandi til að laða að nýja fylgjendur

  2. Gefa íslensku tónlistarfólki alþjóðlegan vettvang til að koma sér og sinni tónlist á framfæri.

Fyrir verkefni sem hafa áhuga á að verða tilbúin í útflutning, mælum við með að skrá sig á fréttabréf ÚTÓN til að fá upplýsingar um fræðsluviðburði sem alltaf eru haldnir reglulega og kynna sér efni á vef Tónatals sem snýr að fræðslu um umhverfi tónlistar á Íslandi.

Vefur Iceland Music er nýttur til að segja alþjóðlegum tónlistarunnendum frá hápunktum í íslensku tónlistarlífi með fréttum, lagalistum, og upplýsingum um þá tónleika sem íslenskt tónlistarfólk heldur erlendis.

“Hvernig get ég nýtt mér þennan vettvang?”

Til að ná markmiðum okkar á sem áhrifaríkasta hátt, þá útlistum við hér hvernig valið er inn á fréttabréf og samfélagsmiðla Iceland Music. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að gefa öllum jöfn tækifæri en jafnframt vera með heillandi framsetningu á því besta í íslenskri tónlist hverju sinni og byggja upp langtímasamband við okkar fylgjendur.

Það efni sem fær umfjöllun inn á Iceland Music er eftirfrandi:

  1. Eigið efni sem unnið er af teymi ÚTÓN, sem oft telja viðtöl eða annað samtal við íslenskt tónlistarfólk

  2. Umfjöllun um íslenskt tónlistarfólk eða íslenska tónlist í erlendum miðlum

  3. Tónlistarmyndbönd

  4. Lagalistar Iceland Music, sem settir eru saman af eingöngu íslenskri tónlist


  1. Eigið efni

ÚTÓN vinnur markvisst af því að framleiða efni fyrir þessa miðla, annað hvort innanhús eða fá þau sem eru í útflutningi á íslenskri tónlist til að setja upp sitt eigið efni. Þetta er til dæmis #EyesOn take-over seríur á Instagram, 3 Questions serían á YouTube síðu Iceland Music og á vefnum.

Allt efni af þessu tagi fer undir Iceland Music vörumerkið og við erum alltaf með augun opin fyrir skemmtilegum tækifærum til að framleiða meira efni af þessu tagi.


2. Umfjöllun í erlendum miðlum

Fátt sýnir jafn afdráttarlaust fram á útflutning á íslensku tónlistarverkefni og umfjöllun í erlendum miðlum. Það einfaldlega sannar það að það er áhugi á verkefninu alþjóðlega, og reynum við að setja eins mikið af slíkri umfjöllun inn á samfélagsmiðla Iceland Music og við komum að.

Við erum með augun opin sjálf fyrir því þegar fjallað er um íslenskt tónlistarfólk á erlendum miðlum, en það er auðvelt að missa af einhverju. Ef þú ert að vinna að umfjöllun fyrir þín verkefni hvetjum við þig eindregið til að senda okkur slóð á greinina þegar hún er komin í loftið og við setjum það af stað hjá okkur líka.

Sendu þá umfjöllun sem þú færð í erlendum miðlum á hello@icelandmusic.is daginn sem hún kemur út.

ATH: fyrir ykkur sem hafið verið lengur að munið mögulega eftir því þegar við báðum um að fá fréttatilkynningar sendar. Við erum að uppfæra þetta ferli til að geta tryggt að við gefum öllum tónlistarverkefnum sömu tækifæri. Þar sem Iceland Music getur ekki birt fréttatilkynningar, þá hvetjum við ykkur til að beina frekar ykkar tíma og orku frekar í að reyna að fá umfjöllun í fjölmiðlum beint og senda okkur svo þá umfjöllun sem það skilar.

Ef ykkur vantar aðstoð eða ráðgjöf um PR, þá er hægt að hafa samband við okkur hjá ÚTÓN beint.

3. Tónlistarmyndbönd

Í fréttabréfi Iceland Music er alltaf “tónlistarmyndband mánaðarins” og er það alltaf valið úr þeim myndböndum sem okkur berast.

Sendu okkur myndbandið þitt daginn sem það kemur út á hello@icelandmusic.is.

4. Lagalistar

Lagalistar Iceland Music á Spotify.

Lagalistarnir okkar eru samsettir af eingöngu íslenskri tónlist sem er viðhaldið sérstaklega eins og er útlistað hér. Þeir eru í virkri kynningu allt árið um kring á okkar eigin miðlum, og í stærri herferðum sem unnið er að með Íslandsstofu. Í hverjum mánuði er einn listi valinn til að vera ‘lagalisti mánaðarins’ í fréttabréfi Iceland Music.


Svona gengur ferlið svo fyrir sig: 

1. Sendu okkur efni

Við hvetjum allt íslenskt tónlistarfólk* til að senda þá umfjöllun sem það fær í erlendum miðlum og ný tónlistarmyndbönd á hello@icelandmusic.is. Sendu link daginn sem það kemur út.


2. allt efni er skoðað

Á hverjum degi skoðum við það efni sem á að fara út á Iceland Music miðlana og förum í gegnum það sem hefur borist inn á hello@icelandmusic.is pósthólfið. Við hvetjum ykkur jafnframt til að senda okkur hlekki á samfélagsmiðlana ykkar svo að ef efnið ykkar er valið til frekari deilingar á samfélagsmiðlum að þá getum við sett tag á ykkur með. 

Ef efnið ykkar verður fyrir valinu ættuð þið að sjá í bakendanum á ykkar miðlum þegar við setjum efnið inn með taggi. Þegar þið sjáið það hjá ykkur hvetjum við ykkur eindregið til að deila því áfram á ykkar eigin miðlum þar sem það eykur þá athygli sem þín umfjöllun fær og styrkir bæði ykkar miðil og okkar.

Sterkari miðlar auka verðmæti þeirra vörumerkja sem eiga í hlut, og viljum við endilega ýta undir þá stemningu að deila af örlæti innan íslensku tónlistarsenunnar af því það er gott fyrir alla sem eiga í hlut og dragur enn frekar athygli að því hversu lifandi og spennandi tónlistargeirinn hér á landi er. 


3. feed sem fólk vill follow-a

Til að laða að okkur alþjóðlega tónlistarunnendnur er mikilvægt að hafa gott jafnvægi á milli umfjöllun um þekktara tónlistarfólk í bland við þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í alþjóðlega. Við höfum til hliðsjónar ‘momentum’ í kringum artistann, ef þau eru með útgáfur eða tónleikaferðalög framundan, og spilunartölur. Við höfum einstakar mætur á þeim sem eru ‘export ready’ en það er tónlistarfólk sem við getum stutt við enn frekar með öðru starfi ÚTÓN eins og ferða- og markaðsstyrkjum. 

Það skiptir líka máli að búa til stemningu á miðlunum svo að það sé ánægjulegt að ‘follow-a feedið’. Við reynum eftir bestu getu að koma eins miklu efni um íslenska tónlist og mögulegt er, og reynum að finna sem besta vettvang fyrir þau verkefni sem berast á borð til okkar.

Þetta þýðir að ÚTÓN hefur frelsi til að taka ákvarðanir um hvaða efni birtist hvar og hvenær. Það er ekki hægt að ganga út frá því að þótt efni hafi verið sent til okkar að það rati út á okkar miðla vegna þess að þrátt fyrir að við séum með margar rásir, þá hefur hver bara ákveðna ‘bandvídd’ og kemst því ekki allt að sem við myndum vilja kynna.

Það sem við tökum til hliðsjónar er hvaða verkefni erum við skuldbundin til, hversu sterkan presens á eigin miðlum artistinn hefur, og hversu mikið pláss á miðlunum okkar þau hafa fengið þá þegar. Við reynum eftir bestu getu að koma öllu að, en það næst ekki alltaf vegna magn efnis sem okkur berst.

Við hvetjum ykkur þess vegna til að fylgjast vel með á samfélagsmiðlum sérstaklega og nýta ykkur sem allra best ‘momentum-ið’ sem skapast þegar við setjum umfjöllun um þitt verkefni út, deila því áfram, tagga @icelandmusic þegar það á við, og nýta ‘hype-ið’ sem stökkpall í stærri tækifæri.


Að lokum viljum við hvetja ykkur til að halda áfram að gefa út frábæra tónlist - án hennar værum við ekki hér :-)

*Til að flokkast sem íslenskt tónlistarfólk þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Hafa búið á íslandi lengur en eitt ár, OG

  • Kynnt sem íslenskt (IS) eða íslenskt að hluta til, OG

  • Hafa íslenskan ríkisborgararétt, EÐA

  • Vera búsett á Íslandi. Ef fólk býr ekki lengur á landinu þá þarf að sýna fram á sterk bönd við landið.