Tónleikaferðalög

group-of-people-1587927.jpg

Hugleiðing um tónleikaferðalög

Þessar hugleiðingar eru skrifaðar með minni túra í huga sem eru skipulagðir af hljómsveitunum sjálfum, aðallega út frá reynslu fremur en fræðilegum gögnum

Þessi grein notast stöku sinnum við slettur þegar kemur að hugtökum. Ekkert í þessari upptalningu ætti að koma tónlistarmönnum á óvart. Hins vegar ætti þessi grein að virka sem ágætis “tékklisti” til að fara yfir á meðan tónleikaferðalagið er skipulagt.

Hvað þarf að gera áður en þú ferð út:

  • Túrar gagnast lítið ef hljómsveitin er ekki nú þegar með fylgi erlendis. Vertu viss um að hljómsveitinni þinni muni gagnast að leggja í slíkt ferðalag. Túrar eiga að stækka það fylgi sem þú hefur nú þegar. Annars gæti endað í að það mæti bara 20 manns á tónleikana. Fyrsta skrefið er að meta hvort að það séu nógu góðar aðstæður til að skipuleggja tónleikaferðalag. Skoðaðu samfélagsmiðlana þína og tölfræði fyrir tónlistina þína á streymisveitum og reyndu að sjá hvaðan mestu hlustanirnar og heimsóknirnar koma. Þýskaland og Bretland eru venjulega arðbærir markaðir fyrir íslenska tónlist og eflaust sniðugt að skoða aðstæður þar. Áður en þú íhugar tónleikaferðalag skiptir öllu máli að hljómsveitin sé búin að skapa sér nafn utan landsteinanna. Gefðu út plötu og dreifðu henni vel og skoðaðu hvaðan athyglin kemur. Reyndu síðan að skipuleggja ferðalagið um þau svæði sem virka arðbærust. 

  • Stærsti og mikilvægasti hluti af skipulagningu tónleikaferðalaga er að skrifa tölvupósta og vera í stöðugum samskiptum við alla aðila. Láttu vita af öllum mögulegum breytingum og vertu með símanúmer hjá öllum sem þú þarft að ná í. Forðast samskiptaleysi eins og heitan eldinn.

  • Að túra frá Íslandi er öðruvísi en að túra innan Bandaríkjanna eða Evrópu. Þú munt alltaf þurfa að byrja ferðina á flugi. Athugaðu með að láta prenta boli og annan varning erlendis og sækja þegar þú lendir til að spara pláss og yfirvigt.

  • Skipulegðu eins mikið og þú getur eins langt fram í tímann og hægt er. Þú býrð bara til óþarfa stress með því að leysa hluti á síðustu stundu.

  • Ekki pakka of mikið af fötum. Þau taka furðu mikið pláss og þú munt venjast því að vera skítug/ur á fyrstu vikunni. Reyndu að taka sem minnst með þér. Sparaðu plássið fyrir varning. Gakktu hins vegar úr skugga um að þú komist í sturtu á tónleikastaðnum eða þar sem þú ert að gista.

  • Búðu til möppu með öllum dagsetningum, stöðum, tölvupóstföngum, símanúmerum, ferðatímum/flugtímum, korti, osfrv. Þú munt þakka fyrir að hafa þetta í farangrinum. Ein blaðsíða fyrir hverja tónleika. Staðlað skjal þar sem þú geymir allar mikilvægar upplýsingar fyrir hvert kvöld. Símanúmer, tölvupóstar, ferðatímar/flugtímar, kort af nágrenninu osfrv. Gerðu nokkur eintök svo allir geti verið á sömu blaðsíðu.

  • Vertu með fjárhagsáætlun. Gerðu ráð fyrir tekjum og kostnaði fyrir hvert kvöld og notaðu hluta af gróðanum í mat og tilheyrandi. Ef þú vilt sækja um styrki fyrir flugkostnaði og fleiru þarftu líka að hafa fjárhagsáætlun við hendina.

  • Munu bókarar sjá um kynningu á sínum forsendum eða þarft þú að sjá um allt slíkt? Eins og alltaf, spyrja fyrirfram. Leggðu vinnu í að auglýsa tónleikana þína. Hafðu samband við PR fólk innan þíns geira, auglýstu á Facebook, spjallborðum og sendu út fréttatilkynningar.

  • Backline? Þarft þú að ferðast með slíkt? Ef ekki skaltu vera viss um að allt sem þú þarft sé á stöðunum sem þú ert að ferðast á.

  • Búðu til rider og stageplot með öllum hljóðkröfum og græjum.

Hvernig á að skrifa rider?

Rider er nokkurs konar samningur milli hljómsveitarinnar og bókara. Þar þurfa allar þarfir hljómsveitarinnar fyrir umrædda tónleika að koma fram. Vel skrifaður rider getur líka stytt sándtékk til muna. Þetta skjal sendir þú á bókarana og hljóðmenn eins langt fram í tímann og hægt er.

  • Ekki gera ráð fyrir neinu, teldu upp bókstaflega allt sem þú þarft. Það hljómar kannski rökrétt að allir tónleikastaðir eigi nokkur gítarbox, en sú er ekki alltaf raunin.

  • Byrjaðu á að lista allar græjur sem hljómsveitin notar. Líka fetla. Þetta er lítið mál ef þú ert rokkband með tvo gítara, bassa og trommur, en verður  mikilvægara eftir því sem þú ferð lengra út fyrir þá uppsetningu.

  • Teldu upp hversu mörg DI-box þið þurfið. Hljómborð, skrýtin akústísk hljóðfæri og stundum jafnvel bassar fara oft frekar beint í kerfið frekar en í gegnum magnara. Spurðu fyrirfram ef þú ert ekki viss.

  • Settu upp einfalt stage plot sem hægt er að senda á bókara og tónleikastaði. Þetta sýnir hvaða hljóðfæri þið notið, hvar hver vill standa á sviðinu og hvað þið viljið í mónítor. Á internetinu má finna margar síður þar sem teikna má upp stage plot á einfaldann hátt. 

  • Ásamt stageplottinu þá hjálpar að skrifa lista af hljóðfærunum og hvað þau þurfa. Þarftu sérstaka hljóðnema? Er trommarinn með pad og taktmæli? Teldu það upp.

  • Biðja um greiðslu fyrir fram: Ef þú ferð fram á pening, gistingu, mat eða far eitthvert þarf það að koma skýrt fram á ridernum.

  • Matur skiptir máli. Vertu viss um að bókararnir geti útvegað mat baksviðs þar sem það er ekki alltaf tími til að fara út að borða fyrir sándtékk. Láttu einnig vita af sérþörfum og/eða matarofnæmi. Matarofnæmi, grænmetisfæði, o.þ.h. þarf líka að fara á riderinn. Það er venjulega ekki mál að koma til móts við slíkar þarfir, en til þess þarf að vita af því fyrirfram.

Hvernig á að tala við bókara?

  1. Vertu kurteis og alltaf viss um að það sé auðvelt að ná í þig. Samskiptaleysi gerir svona verkefni mun erfiðari.

  2. Spyrðu um hvernig sala á varningi fer fram, sumir staðir eru með starfsfólk sem tekur prósentu fyrir að selja varning fyrir þig. Þegar hugtakið “varningur” er notað í þessu samhengi er iðulega átt við útgáfur hljómsveitarinnar, geisladiska eða vínyl, en einnig hljómsveitaboli, derhúfur og fleira. Ekki vera feimin/n við að bjóða upp á eitthvað öðruvísi. Það er líklegara að þú munir ná að koma út í hagnaði með sölu á varning fremur en aðgangseyri.

  3. Aldrei gleyma að þakka fyrir þig þegar vel gengur. Það kemur oft á óvart hversu langt það nær. Túrar eru líka til þess að “networka”. Haltu sambandi við fólkið sem fílar tónlistina þína og sýndu þeim vinsemd. Það gæti vel verið að þú sért að fara að hitta þau aftur.

Hvernig á að plana leiðina sem þú hyggst ferðast?

  1. Fyrst af öllu: Ætlar þú að fljúga eða keyra milli tónleika? Það getur verið dýrt að fljúga og bókararnir þyrftu sennilega að leggja út fyrir því. Það gerir líka erfiðara að ferðast með varning, en sparar ótrúlega mikinn tíma. Ef þú keyrir milli staða er mikilvægara að plana leiðina þannig að það sé raunhæf fjarlægð milli staða. Að keyra lengur en 6 klukkustundir á dag getur tekið á. Þessa kosti þarf að vega og meta.

  2. Ef keyrandi: Ertu með bílstjóra og bíl? Bílaleigur eru oftast valkosturinn sem er nýttur. Reyndu að hafa amk 2 sem treysta sér í að skiptast á að keyra. Það auðveldar allt ferlið að vera með GPS tæki.

  3. Ef fljúgandi: Vertu alltaf skýr með hvenær þú þarft far upp á flugvöll. Taktu fram í ridernum þínum ef þú vilt vera sótt/ur upp á flugvöll og þurfir far til baka. Oft er gert ráð fyrir þessu, en það er mjög leiðinlegt að lenda í stressinu sem fylgir því að komast ekki upp á flugvöll fyrir næstu tónleika.

  4. Ef fljúgandi: Fáðu yfirvigt fyrir varning og hljóðfæri. Bakpoki með fötum kemst oftast fyrir í handfarangri. Gítartaska og kassi af bolum gæti hins vegar ekki gert það. Fáðu þyngd og mögulegan aukakostnað á hreint fyrirfram.

  5. Nota Google Maps eða eitthvað sambærilegt til að fá nokkurn veginn á hreint hversu langan tíma hver ferð tekur, gerðu ráð fyrir töfum. Reyndu að forðast að ferðast í meira en 6 tíma á dag.

Þegar út er komið

  1. Mættu tímanlega. Alltaf.

  2. Frídagar kosta helling. Reyndu að vera með eina tónleika á dag. Fyrir lengri túra skiptir þó miklu máli að fá einhverja hvíld.

  3. Drekktu nóg af vatni. Gosdrykkir fara illa i mann til lengri tíma og bjórinn veldur vökvaskorti. Flestir staðir sem þú munt ferðast til eru heitari og rakari en Ísland.

  4. Eru lítil útgáfufyrirtæki með sölubása á staðnum? Það gæti vel verið að þau vilji kaupa/skipta eitthvað af varning við þig. Að skipta plötum og öðrum varning er mjög algengt innan pönksins og þungarokksins. Þá sérstaklega innan “DIY” geirans.

  5. Partí eru skemmtileg. Að vera þunnur á tónleikum er leiðinlegt. Farðu varlega og þekktu mörkin.

  6. Hafðu græjur og snúrur merktar og pakkaðu þeim strax eftir tónleikana. Það er mjög auðvelt að týna dýrum snúrum/fetlum/osfrv þegar maður er alltaf á ferðinni. Hvítt límband og tússpenni kemur þar að góðu gagni. Krotaðu nafn og símanúmer þar sem þú getur. Hafðu samband við staðina sem þú ert búin/n að spila á ef eitthvað týnist. Krullaðu upp á snúrurnar þínar og hafðu þær allar á sama stað. Skipulegðu hvernig þú pakkar í töskurnar þínar og gerðu það alltaf beint eftir tónleikana.

  7. Rótaðu beint inní sal og byrjaðu sándtékk eins fljótt og hægt er.

Hvernig skal sándtékka?

  1. Sándtékk taka mislangan tíma, fáðu á hreint hversu langan tíma þú hefur áður en þú mætir. Venjulega má gera ráð fyrir klukkutíma eða svo.

  2. Reyndu samt að taka sem minnstan tíma án þess að stressa þig.

  3. Ef þú ert með fjölbreytta hljóðfæraskipan vertu þá búin/n að ákveða hvað þú þarft að sándtékka fyrirfram.

  4. Ekki taka heil lög, taktu frekar hluta úr 1-2 lögum sem reyna mest á dýnamíkina á svæðinu (td.  brot úr háværasta laginu þínu og því síðan því lágstemmdasta). Það er betra að vera búinn að ákveða umrædda parta fyrirfram. Best er að byrja að vinna í monitor sándinu með því að taka búta úr lögum.

  5. Rými hljóma öðruvísi þegar þau fyllast af fólki. Ekki láta það koma þér að óvörum.

  6. Bentu hljóðmanninum á að hækka í því sem þig vantar að heyra í mónitor frekar en að hækka í magnaranum á sviðinu. Það er auðveldara að fá skýran hljómburð ef að það er ekki of hávært uppi á sviði.

  7. Ef þú ert á tónleikahátíð muntu örugglega ekki fá meira en tíu mínútna línutékk, það er oft meira en nóg, hljóðmennirnir hafa nú þegar verið að vinna með hljóðið í allan dag áður en þú mættir.

  8. Ef þú ert gítarleikari á útisviði: Hækkaðu miðjuna í sándinu þínu, það er auðvelt fyrir bassann að drekkja dýpri tíðnunum og mjög auðvelt fyrir symbala að drekkja hærri tíðnum.

  9. Treystu hljóðmönnunum þó það hljómi pínu skrýtið uppi á sviði. Þeir vita (nánast alltaf) hvað þeir eru að gera.

Listar sem þessi eru auðvitað ekki tæmandi og alltaf eitthvað sem gleymist. Ferlið að skipuleggja tónleikaferðalag er að stórum hluta að sjá til þess að hlutir gangi og leysa vandamál sem koma upp á leiðinni. Ef ferlinu er tekið með ró er hægt að leysa ótrúlegustu hluti.

Góða ferð!