Verkfærakista ÚTÓN


Ísland er lítill markaður og flestir sem hyggjast hafa lifibrauð af tónlist sinni þurfa að huga að útrás á stærri og arðbærari markaði. Með breyttum forsendum á tekjumöguleikum tónlistarmanna er ekki síður þörf á að opna dyrnar. Íslenskir tónlistarmenn hafa verið að færa sig út fyrir landsteinana í áratugi. Margir gera mistök sem eru algeng og fyrirbyggjanleg, og margir aðrir vita hreinlega ekki hvar á að byrja.

Það má í rauninni tala um tónlistargeirann á tvo vegu, fyrir tæknivæðingu og eftir. Eftir tilvist internetsins, ólöglegs niðurhals, nýrra dreifileiða og samfélagsmiðla breyttist viðskiptaumhverfið töluvert. Á meðan völdin innan geirans færðust meira í hendur tónlistarmanna og aðdáenda jókst jafnframt flækjustigið. Stundum virðist sem ætlast sé til að tónlistarmennirnir sjálfir semji tónlistina, flytji hana, markaðssetji, framleiði geisladiska og hanni útlit, fari í tónleikaferðalög og allt þar á milli.

ÚTÓN hefur tekið saman verkfærakistu fyrir tónlistarfólk sem hyggst flytja út tónlist sína. Með þessum tækjum eru meiri líkur á að hægt sé að vinna á alþjóðlegum vettvangi á faglegri og upplýstari hátt. Þessi verkfærakassi inniheldur ráð varðandi styrki, kynningu, lifandi flutning, innheimtu gjalda og margt fleira.

Við uppfærum upplýsingar sem hér koma fram reglulega. Ef þú hefur einhverjar ábendingar eða eitthvað sem þú vilt koma á framfæri endilega sendu okkur línu á info@icelandmusic.is. Verkfærakistan er byggð á Export Toolkit en hefur verið heimfærð og löguð til.

Stefna í útflutningi

Sem tónlistarmaður, tónskáld, textasmiður eða annar aðili sem starfar í tónlistargeiranum er oft mikil þörf fyrir að komast út fyrir landsteinana. Hinsvegar gætir ákveðinnar óþolinmæði hjá fólki sem er með tónverk í höndunum að koma því til sem flestra áheyrenda. Hinsvegar er ekki nóg að vera með tónverk í höndunum til þess að það sé hægt að skilgreina tónlistina sem tilbúna til útflutnings („export ready‟). ÚTÓN vinnur aðallega með tónlistarverkefnum sem eru skilgreind sem slík og er talsverð grunnvinna sem fer í að komast á það stig. Á sama hátt og íslenskt fyrirtæki færi ekki með vöru sína á erlendan markað án þess að greina ítarlega markaðinn, tækifærin, markhópinn, kostnaðinn og annað sem snýr að viðskiptum, ætti tónlistarmaður að gera slíkt hið sama. Vandinn er sá að mörgum tónlistarmönnum langar út að spila sína tónlist fyrir fólk og basta….þannig að þeir gera það nú samt, hvað sem öllum markaðspælingum líður. Því flestir vilja komast út að spila, og ekkert alltaf að spá í fleira en hvað er borgað fyrir “giggið”.

Áður en hafist er handa er gott að kynna sér skýringu á hugtökum sem ÚTÓN hefur tekið saman.

Undirbúningur

Rannsókn

Fyrsta skrefið er að reyna að rannsaka af bestu getu hvar er pláss fyrir þína tónlist á markaðinum, hvar tónlistin er líklegust til þess að ná einhverjum frama. Hvaðan ertu að fá áhuga, er einhver að hlusta á tónlistina þína á vefnum, hvar þá? Þú hefur eflaust einhverja hugmynd um hvaða aðila þarf að ná til á Íslandi til þess að fá tónlist þína flutta, útvarpsspilun eða umfjöllun í fjölmiðlum. Best er að reyna að greina að einhverju leyti hvaða aðilar þetta eru erlendis á því markaðssvæði sem þú hefur áhuga á.

Gott er að gera smá lista yfir til dæmis:

 • Helstu fjölmiðla sem þú myndir vilja koma fram í
 • Helstu útgáfur sem þú myndir vilja að gefi þig út
 • Helstu áhrifavaldar sem gætu hjálpað þér að breiða út boðskapnum (til dæmis útvarþáttastjórnendur)
 • Helstu tónlistarhátíðir sem þú myndir vilja spila á
 • og svo framvegis..

Hvaða markaðssvæði hef ég áhuga á?

Systursíða ÚTÓNs, IMX, safnar ákveðnum gögnum um á hvaða markaðssvæði er mestur áhugi á íslenskri tónlist og á öllum stöðum (heimasíðu, netfréttabréfi, á samfélagsmiðlum o.s.frv.) eru þau lönd Bandaríkin (NY og LA), Bretland og Þýskaland. Bæði Bandaríkin og Bretland eru sérstaklega mikilvægt þar sem miðlar sem þar starfa hafa áhrif á allan heiminn, ekki bara út af gæðum þeirra, heldur vegna þess að þeir eru á ensku sem svo margir skilja. Þýskaland er mjög arðbær markaður þar sem enn er mikið keypt af plötum. Að jafnaði eru þetta góðir markaðir til þess að stefna á, þó ákveðnar tónlistarstefnur eiga oft heima á öðrum markaðssvæðum.

Hér er smá yfirlit yfir fylgjendur á vefmiðlum Iceland Music frá febrúar 2016:

Screenshot 2016-02-11 16.49.22

Hér má einnig sjá að það er mismunandi eftir löndum hvaða miðlar fólki finnst þæginlegastir.

Lönd sem sýna vef Tónverkamiðstöðvar áhuga eru Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Kanada og Norðurlöndin (í þessari röð).

Tónlistarmenn með póstlista, Facebook síður eða vefsíður tengdar greiningarforritum á borð við Google Analytics hafa aðgang að gögnum um hvaðan aðilar sem fylgjast með þeim eru. Ef þú ert þegar með lítinn (eða stóran) hóp aðdáenda erlendis, spyrðu þig sjálfsagt hvaðan koma þeir, og hvernig uppgötvuðu þeir tónlistina þína?

Önnur leið er að skoða tónlistarmenn sem vinna á svipuðu sviði og þú. Á hvaða markaðssvæðum gengur þeim vel? Hvernig stóðu þeir að þeirra kynningu?

Það er auðvitað frekar misjafnt fyrir hvert tónlistarverkefni hvaða markaður er verðmætastur, en ef þú hefur ekki hugmynd um hvert er best að stefna fyrst er Bretland og Þýskaland góður kostur, bæði vegna mikils áhuga þaðan og vegna nálægðar. Bandaríkin er mjög stór markaður og flókinn, auk þess sem það er mjög dýrt að spila þar út af VISA málum. Svo þarf að vega og meta verðmæti markaðar frá ýmsum sjónarhornum, til dæmis gæti verið að þú sért búin að byggja upp dyggan aðdáendahóp í Suður Afríku, en út af fjarlægð, út af skort á tengslaneti, og út af skort á tekjumöguleikum þarf stundum að taka þá ákvörðun að það sé ekki þess virði að einblína á slíkan markað. ÚTÓN hefur einnig verið að skoða Pólland sem góðan markað fyrir íslenska músík því þar er mikill áhugi og markaðurinn er stór.

Þegar þú hefur einhverja hugmynd um hvaða markaðir eru verðmætir fyrir þig er best að komast að því hverjir eru áhrifavaldar á þeim markaði. Þetta getur verið til dæmis listrænir stjórnendur, hátíðarbókarar, tilteknir blaðamenn, útvarpsþáttarstjórnendur. Þú kemst að þessu með því að lesa þér til á internetinu, en einnig er gott að vera virkur í tengslamyndun og spyrja fagaðila á þessu sviði.

Skipulagning

Ef þú ert búinn að rannsaka umhverfið þitt og hefur einhverja hugmynd um á hvaða markað á að herja og hvaða áhrifavaldar innan hans þú vilt ná sambandi við, er kominn tími til þess að skipuleggja þig, og besta leiðin til þess að er að gera viðskiptaáætlun.

Þessi hluti getur vafist fyrir fólki, og margir telja það ónauðsynlegt að gera slíka áætlun. Þetta er eitt af algengustu mistökum sem tónlistarfólk gerir. Þó að þú sért með stutta áætlun rissaða á blað þá er það betra en ekkert. Það er í rauninni ekki endilega lokaniðurstaðan, áætlunin sjálf, sem skiptir mestu máli. Þetta er hugaræfing sem neyðir þig til þess að hugsa málið til enda og gott tækifæri til þess að setja skýr og mælanleg markmið, t.d. „fá yfir 5,000 spilanir á laginu mínu á YouTube” eða “kynna tónlist mína fyrir listræna stjórnanda uppáhalds hátíðarinnar minnar‟.

Internetið er mikilvæg auðlind við gerð viðskiptaáætlana og er til mikið af upplýsingum um hvernig er best að vinna þær.

Viðvera á alnetinu

Ekkert er heilagt í vefmálum. Markhópar eru mismunandi, sumir eru ekki með mikla viðveru á internetinu, sumir eru aðallega á Facebook og ekkert á Twitter, suma má finna á afmörkuðum stöðum sem eru ekki endilega kunnugir öllum. Það þarf að sérsníða vefviðveru að þeim sem þú ert að reyna að ná til, en það eru nokkrar meginreglur sem er gott að hafa í huga.

Heimasíðan

Það fyrsta sem þú þarf að gera er að setja þig í fótspor aðila sem hefur nýlega heyrt eitthvað eftir þig og vill vita meira. Flestir setjast við tölvuna og slá nafnið inn í leitarvél. Hvað gerist í því tilfelli? Hefur sú manneskja beinan aðgang að frekari upplýsingum, svo sem fréttum af því sem er að gerast, niðurhal á tónlist og/eða hlekk á vefbúð, ferilssögu, myndbönd, ljósmyndir í háum gæðum, hlekki á samfélagsmiðla og leið til þess að setja sig í samband við þig?

Sumir telja ekki nauðsynlegt að hafa heimasíðu, en það þarf að hafa í huga að það eru ekki allir á öllum samfélagsmiðlum og heimasíða er góð leið til að taka saman allar þær leiðir sem fólk getur fylgst með þér sem og leið til að hýsa allt stafrænt efni. Þetta er einnig góð leið til þess að sýna persónuleika þinn (tölum meira um þetta undir “ímynd”). Maður rekst á það stundum að tónlistarmenn eru einungis með Facebook síðu. Við mælum ekki með því sérstaklega, en ef þetta er ákvörðun sem þú tekur þá hvetjum við þig til þess að setja allar (já, allar) upplýsingar undir “About”. Tölvupóstfang (mjög mikilvægt, gleymist allt of oft), hlekki á aðrar síður, hlekki á nýjasta lagið þitt, upplýsingar um fyrri útgáfur, hlekki á press kit, og svo framvegis.

Fyrst og fremst er mikilvægt að heimasíðan sé á ensku. Leitarvélar eru orðnar svo mikilvægar að það þarf að huga sérstaklega að SEO og hvernig þú birtist í niðurstöðum Google (og annarra leitarvéla, en Google er með yfirburða markaðshlutdeild). Google hefur útbúið handbók fyrir byrjendur og hún er aðgengileg hér.

Þegar þú ert komin/n með heimasíðu þarftu að tengja hana strax við Google Analytics til þess að geta fylgst með hverjir eru að koma á síðuna þína, hvaðan, hvað þau skoða þarna, hversu lengi þau staldra við og margt, margt fleira. Þetta þarf að gera sem fyrst, ekki er hægt að mæla þessa hluti eftir á.

Samfélagsmiðlar

Á síðustu árum hafa vinsældir samfélagsmiðla aukist verulega þegar kemur að kynningu á öllu milli himins og jarðar. Áður en haldið er lengra er vert að benda á að samfélagsmiðlar koma aldrei í stað “hefðbundinnar” kynningar og sumir sem starfa á sviði markaðsmála telja áhrif samfélagsmiðla vera verulega ýkt. Það tíðkast oft að samfélagsmiðlar séu aðal kynningarleið tónlistarmanna, en eins og með allar kynningarleiðir fer virkni þeirra eftir markhópi og markmiðum. Hinsvegar virðist þróunin vera sú að kynning á samfélagsmiðlum er orðin frekar dýr (bæði í klukkustundum sem þarf að verja í hana til þess að hún virki vel og í peningum sem þarf oft að verka í “boost” og aðrar leiðir til að auka sýnileika) og getur verið verðmætara að einblína á póstlista og almannatengsl.

Við mælum með að þú gefir þér tíma til þess að horfa á myndbönd sem ÚTÓN hefur áður fjallað um hér. Fyrsta myndbandið fjallar um kynningu á samfélagsmiðlum, þ.e. hvernig er best að setja fram efni og hvernig þú nærð til sem flestra með minna fjármagni. Annað myndbandið fjallar um auglýsingar á netinu. Upplýsingarnar sem þarna koma fram eru nýlegar og fjalla um breytingar sem hafa verið gerðar innan Facebook og Twitter nýlega, sem hafa töluverð áhrif á hvernig efnið þitt dreifist. Fyrirlestrarnir eru í lengri kantinum, um klukkutími hvor, en upplýsingarnar geta sparað þér pening, fyrirhöfn og vesen, og eru þar með verðug fjárfesting.

Hlutverk samfélagsmiðla er fyrst og fremst að vera vettvangur til markaðskynningar gagnvart fólki sem nú þegar hefur áhuga á þér / tónlist þinni, eða hvetji til að aðdáendur þínir deili tónlist þinni með vinum sínum. Samfélagsmiðlar eru tilvalinn kostur til að minna á þig, tilkynna nýjar útgáfur og margt fleira. Samfélagsmiðlar hafa ekki sannað sig sem góð leið til þess að ná til nýrra viðskiptavina, að minnsta kosti ekki í samanburði við hefðbundnar kynningarleiðir.

Það breytir því ekki að það er góð hugmynd að vera með einhverja viðveru á samfélagsmiðlum sem eiga við þig. Þetta er vettvangur til að ýta undir ímynd þína og minna á þig. Það er hægt að tala næstum endalaust um stefnu í samfélagsmiðlum, hér eru nokkrir mikilvægustu punktarnir:

 • Ekki setja allt of mikla áherslu á fjölda fylgjenda. Það er miklu mikilvægara að eiga 10 aðdáendur/fylgjendur sem hafa áhuga á því sem þú ert að gera en að hafa 1000 manns sem hefur líkað við síðuna þína út af Facebook leik..
 • Ekki setja inn sama texta alls staðar. Allir samfélagsmiðlar þjóna ákveðnum tilgangi, fólk sem leitar þangað er að leita í ákveðna tegund efnis.
 • Samfélagsmiðlar snúast um samfélag. Þetta er ekki vettvangur fyrir þig til að auglýsa þig endalaust, heldur til að setja inn persónulegar færslur sem tengir þig við þína aðdáendur. Fólk tengir betur við mynd af þér í þínu daglega lífi en hágæða ljósmynd tekna af ljósmyndara, hafðu þær myndir frekar á vefsíðunni. Lestu skilaboð frá aðdáendum, svaraðu þeim.
 • Uppfærðu síðurnar reglulega, en ekki of oft.
 • Notaðu samfélagsmiðla til að beina fólki að póstlista ef þú ert með slíkan, en það er mun verðmætari markaðssetning en samfélagsmiðlar og kostar ekki jafn mikið (samfélagsmiðlar eru tæknilega séð ókeypis en Facebook krefur þig um greiðslu ef þú vilt ná til meira en ~2% fylgjenda þinna). ÚTÓN notar Mailchimp. Einnig veitir kerfi á borð við Mailchimp mikilvægar upplýsingar um þá sem eru að fylgjast með þér á svipaðan máta og Google Analytics. Hverjir opna pósta frá þér, og margt fleira.
 • Vertu með aðgreindan aðgang fyrir tónlistarverkefni þitt og annan fyrir þig persónulega.
 • Skoðaðu bakendakerfi Facebook til þess að fá enn meiri upplýsingar um þá sem eru að fylgjast með þér.

Fylgstu reglulega með hvaða færslur skila sér best á samfélagsmiðlum. Ef færsla fær mikla athygli má huga að því að auka sambærilegar færslur. Þó svo að færslan hafi ekki beint að gera með tónlist þína, eykst virkni á síðunni og þannig aukast líkurnar á að fólk sé að fylgjast með þegar þú t.d. tilkynnir plötuútgáfu eða tónleikaferðalag.

Ímynd

Flestir hafa heyrt orðið „branding‟ (á íslensku, mörkun) en oftast er það sett í samhengi stórfyrirtækja og verðmætra vörumerkja. Það er full ástæða fyrir tónlistarmenn að kynna sér leiðir til þess að koma sér á framfæri eða „branda‟ sig og þannig nýta sér þá flóru af þekkingu sem markaðsfræðin býður upp á til að koma sér á framfæri.

 

Mörkun

Það eru margar leiðir til þess að ákvarða hvernig ímynd þú vilt setja fram, það er einstaklingsbundið og upp á þig komið. Það þarf að svara spurningunni “hvað aðgreinir mig frá öðrum sem eru að gera sambærilega hluti?”. Það þarf að vera eitthvað sérstakt við þig, eitthvað sem lætur þig standa upp úr, hver er sá eiginleiki?

Reyndu að hafa allt efni á vefnum svipað, þannig að vefsvæði sem þú átt eru strax auðþekkjanleg t.d. með lógó, litum og/eða myndum.

Ekki stofna aðgang að vefsvæði sem þú munt ekki uppfæra. Betra er að hafa ekki neitt en dautt vefsvæði, það gefur til kynna að ekkert er að gerast í kring um þig.

Gerðu það auðvelt að finna meira efni eftir þig. Ef manneskja rambar inn á Facebook síðuna þína, gerðu annað efni aðgengilegt, þannig að hún þarf ekki að smella oftar en tvisvar til að komast inn á vefsíðu eða stað þar sem er hægt að hlusta á tónlist þína eða komast að meiru um þig.

Farðu yfir síður hjá sambærilegum listamönnum, hvaða ímynd heldurðu að þau séu að reyna að varpa fram? Hvernig gera þau það?

Það sem skiptir miklu máli er að reyna ekki að vera allt fyrir alla. Merki sem ná langt eru með skýr skilaboð, fyrir hverja þau eru. Það er líka mikilvægt að vita fyrir hvern þú ert ekki. Þá er ekki verið að segja að fólk megi ekki njóta þess sem þú hefur upp á að bjóða, heldur að þú sért ekki að eyða sérstöku púðri í að ná til þess hóps. Til dæmis ef aldraður afi þinn kvartar að hann skilji ekkert í black metal músíkinni sem þú ert að búa til, að þú sért ekkert að beygja þig að hans óskum. Það sama á við um fólk út í heimi.

Tengslamyndun

Tengslamyndun er svið sem margir tónlistarmenn vanrækja. Það er ekki endilega í eðli allra að tengjast öðru fólki á sínu fagsviði, og þá sérstaklega með þann tilgang að koma sér á framfæri. Það breytir því ekki að tengslamyndun er ein áhrifaríkasta leið til árangurs og það er mjög erfitt að hunsa það.

 

Tengslamyndunarfundir og viðburðir

ÚTÓN stendur fyrir tengslamyndunarfundi ár hvert fyrir tónlistarmenn sem koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni. Þar býðst tónlistarfólki að hitta bransafólk og blaðamenn sem sækja hátíðina erlendis frá. Allir sem koma fram á hátíðinni eru sérstaklega hvattir til þess að sækja slíka fundi, eða senda fulltrú, séu þeir önnum kafnir við hljóðprufur og bauk.

Fyrir utan hefðbundinn tengslamyndunarfund eru hátíðir á borð við Iceland Airwaves og Myrka músíkdaga tilvalinn vettvangur fyrir tengslamyndun. Aðstandendur hátíðanna eru stundum tilbúnir til þess að afhenda lista yfir þá fagaðila sem sækja hátíðina. Þú getur farið vel yfir slíkan lista og reynt að hafa samband við fólk á honum til þess að bóka fundi. Margir taka vel í slíkar beiðnir, þó ekki allir.

Ekki vera hrædd/ur við viðburði sem tengjast þínum geira, hvort sem það er opnun af einhverju tagi, mikilvægir tónleikar eða ráðstefnur. Vertu dugleg/ur að mæta og reyna að tengja við fólk í svipuðum hugleiðingum og þú, eða aðilum sem geta hjálpað þér að koma þér á framfæri svo sem útvarpsþáttarstjórnendur.

ÚTÓN heldur erlendis oft á hverju ári á svokallaðar „showcase‟ hátíðir (t.d. Eurosonic Noorderslag, JazzAhead og Classical: NEXT). Þar koma saman margir fagaðilar og er þetta tilvalinn vettvangur til tengslamyndunar. Slíkar hátíðir gera lista yfir þá fagaðila sem sækja hátíðina aðgengilegan öllum og er mælt með að hann sé skoðaður og fundir séu bókaðir  fyrirfram.

Markhópur

Það má í raun líta á nýtt eða lítið þekkt tónlistarverkefni sem sprotafyrirtæki og lúta þau sömu lögmálum að mörgu leyti.

Þegar fyrirtæki eða tónlistarverkefni er stofnað er mikilvægt að skilgreina markhópinn eða áhangendahópinn. Án þess að þekkja þann hóp er erfitt að markaðssetja sig gagnvart honum. Það er auðvitað hægt að markaðssetja án þess að hafa skilgreindan markhóp, en þú gætir verið að eyða tíma, peningum, og fyrirhöfn í markaðsaðgerðir sem tilvonandi viðskiptavinir þínir hafa ekki áhuga á.

Markaðurinn samanstendur af mörgum kaupendum. Kaupendur eru ólíkir á margan hátt. Þeir geta haft mismunandi þarfir, kaupgetu, staðsetningu, kauphegðun og viðhorf. Öll þessi atriði má nota til að skipta upp markaðinum í smærri samstæðari hópa.

 • Hver mun kaupa vöruna/þjónustuna?
 • Hvers eðlis er varan og í hvaða formi vill viðskiptavinurinn fá hana?
 • Hvenær og hve oft mun viðskiptavinurinn kaupa vöruna?
 • Hvar vill viðskiptavinurinn kaupa vöruna?
 • Hvað vill hann greiða fyrir vöruna?
 • Hvernig miðla les viðskiptavinurinn?
 • Hvernig uppgötvar hann tónlist?

Til dæmis er ekki hægt að segja að markhópurinn sé fólk á aldrinum 25 til 40 ára sem hafa áhuga á djasstónlist. Það gefur í skyn að allir þeir sem eru á aldrinum 25 til 40 ára og hafi áhuga á djasstónlist eru með svipaðar þarfir, kaupgetu, staðsetningu, og svo framvegis!

Þú getur byrjað að reyna að átta þig á hvaða markhóp þú getur sóst eftir með því að skoða hvað sambærilegir tónlistarmenn sem hafa notið velgengni hafa verið að gera. Þetta getur þú notað sem upphafspunkt.

Þú getur skoðað tölur á bak við samfélagsmiðla (t.d. Facebook Insights), heimasíðu og netfréttabréf til þess að sjá hvar aðdáendur þínir eru staðsettir.

Það er hinsvegar ekki samasemmerki á milli markhóps og aðdáenda ef þú ert að reyna að lifa á tónlist þinni.

Til dæmis getur verið að allir aðdáendur þínir séu aðilar sem greiða aldrei fyrir tónlist, tónleika, eða annað sem getur skapað þér tekjur. Hver er tilgangurinn fyrir þann sem reynir að lifa á list sinni að eyða tíma og pening í að markaðssetja sig gagnvart fólki sem neytir vörunnar þinnar gjaldfrjálst? Þú getur virkjað þá aðila til þess að reyna að dreifa tónlistinni víðar, og það er mikið virði í því, en meginmarkmiðið er samt sem áður markaðssetning til markhóps sem eru einnig viðskiptavinir þínir. Hinsvegar ef þú hefur lítinn áhuga á tekjumyndun þá skiptir þessi þáttur litlu máli.

Annað

ÚTÓN/IMX

ÚTÓN birtir oft á heimasíðu sinni ýmis konar valkosti sem bjóðast íslenskum tónlistarmönnum. Þetta getur verið í formi fræðslukvölda, fræðslugreina, umsókna um tónlistarverkefni og margt fleira. Sumir hafa áhuga á íslenskri tónlist og vilja starfa með íslenskum tónlistarmönnum, og setja sig þá í sambandi við ÚTÓN til þess að ná til íslenskra tónlistarmanna. Við vonum að sem flestir skrái sig á póstlistann okkar til að tryggja að fá allar þessar upplýsingar.

Við erum með kynningu á íslenskum tónlistarmönnum í gegn um heimasíðu okkar IMX.is og netfréttabréf. Markhópurinn okkar er fagaðilar í tónlistargeiranum og við erum með virka áskrifendur frá mörgum stórum tónlistarfréttaveitum og tónlistarhátíðum. Það borgar sig að senda fréttatilkynningar á ensku á megan@icelandmusic.is.

Einnig má senda upplýsingar um tónleikahald erlendis á imx@icelandmusic.is fyrir Gigs Abroad listann okkar.

Tónverkamiðstöð setur inn valkosti sérsniðna að tónskáldum, keppnir, residensíur, hátíðir o.fl. á tonverkamidstod.is undir „tækifæri og styrkir‟ hér og hægt er að skrá sig á póstlista miðstöðvarinnar hér.

Rétthafamál

Hafir þú undirbúið þig vel ætti ferlið sem framundan er að vera aðeins skýrara. Þú ættir að hafa ákveðna stefnu setta fram, ákveðna ímynd sem þú ert að reyna að varpa fram, með kynningarmál á netinu á hreinu, góða heimasíðu og heilbrigðan póstlista, og verkefnaáætlun sem leiðbeinir þér næstu mánuðina.

Áður en ráðist er í að dreifa tónlist eða hugverki þínu sem víðast þarf að huga sérstaklega að rétthafamálum. Þetta er ekki gert einungis til þess að sporna við ólöglegu niðurhali, heldur fyrst og fremst til þess að tryggja að þú fáir greitt fyrir tónlist þína þegar hún er notuð í hagnaðarskyni (t.d. í útvarpi og í auglýsingum), þegar þú spilar á tónleikum og til þess að tryggja að aðrir fái ekki greitt fyrir hugverk þitt.

Vörumerki

Þetta er eitt af grundvallarmistökum sem margir tónlistarmenn gera þegar þeir stíga sín fyrstu skref. Þú vilt ekki lenda í því að setja talsverðan tíma og pening í að kynna þig og komast að því að þú mátt ekki nota nafnið sem þú hefur valið þér. Þú þarft nokkurn veginn að byrja upp á nýtt. Skoðaðu vel áður en þú velur nafn. Ef þú velur þitt eigið nafn, hafðu í huga að „Sigurður Sigurðsson‟ og „Jón Sigurðsson‟ hljómar mjög svipað í eyrum erlendra aðila og oft eru til betri leiðir til þess að aðgreina þig frá öðrum íslenskum listamönnum (hluti af mörkun). Notaðu leitarvélar og gakktu úr skugga um að nafnið sé nýtt.

Skrásettu vörumerkið þitt sem fyrst. Þú getur skráð vörumerki á heimsvísu fyrir €900 hér.

STEF

Hér á Íslandi er það Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar, skammstafað STEF sem gætir hagsmuna tónskálda og höfunda texta að tónlist á sviði flutningsréttar, en Nordisk Copyright Bureau, skammstafað NCB, sem gætir hagsmunanna á sviði upptökuréttar. Þessi hagsmunagæsla er alþjóðleg.

En hvað gerir STEF nákvæmlega?

Ef einhver vill flytja tónlist þína, t.d. í útvarpi, þá væri flókið mál ef notendur tónlistarinnar þyrftu að hafa samband beint við þig í hvert skipti. Þá koma samtök eins og STEF til skjalanna sem veita leyfi fyrir hönd höfundanna gegn greiðslu sem síðan er úthlutað til höfundanna á grundvelli t.d. tónlistarskýrslna útvarpsstöðva. Þetta á við ef einhver vill breyta tónlist þinni, semja nýjann texta fyrir hana, nota hana í auglýsingu, kvikmynd, heimildamynd og svo framvegis.

STEF er ekki bara tengiliður aðila sem vilja nota tónlist þína heldur hafa samtökin ákveðið lögbundið vald til þess að krefja fólk sem notar tónlist aðildarmanna sinna um greiðslu, til dæmis verslanir og kaffihús. Einnig hefur STEF gert alþjóðlega samninga og fylgist þannig með hvaða tónlist er spiluð í erlendum útvarpsstöðvum og innheimtir þar einnig STEF gjöld. STEF innheimtir einnig gjöld fyrir þína hönd þegar þú kemur fram opinberlega á tónleikastöðum og er það í raun önnur tekjulind fyrir þig sem eiganda flutningsréttar. Þú þarft hinsvegar að skila lagalista (set-list) til höfundaréttarsamtaka þess lands þar sem þú kemur fram. Slík skil eru forsenda greiðslna vegna flutningsins frá STEFi. Sé enginn á staðnum til að taka við lagalistanum eða þú óviss að hann hafi komist til skila getur STEF aðstoðað við það. Best er að senda STEFi upplýsingar um tónleikastaði og dagsetningar svo að þau geta betur fylgt eftir að greiðslur fyrir flutninginn berist.

Þú getur kynnt þér störf STEFs nákvæmlega í upplýsingaskjali sem þau hafa útbúið fyrir nýja meðlima. Þú getur einnig sent fyrirspurnir á info@stef.is.

Sumir tónlistarmenn kjósa að ganga ekki í STEF heldur fela innheimtu gjalda til annarra stofnanna. Til dæmis ef þú ert með samning við tónlistarfoleggjara (e. music publisher) sér sá aðili um að innheimta gjöld fyrir þína hönd. Sjá næsta kafla.

Tónlistarforlag

Tónlistarforleggjarar er það sem nefnt er á ensku „Music Publisher“ , en þeir taka að sér að vinna að ferli tónhöfunda og koma tónlist þeirra á framfæri á öðrum mörkuðum en tónskáldið sjálft hefur aðgang að. Það gera þeir með mismunandi hætti, en oftast á þann hátt að þeir finna flytjendur fyrir lagahöfunda, samhöfunda til að vinna með og annað aðstoðarfólk svo og að koma tónlistinni í sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Þá annast tónlistarforleggjarar oft umsýslu og samskipti við höfundaréttarsamtök fyrir lagahöfundinn. Mjög mismunadni er hversu víðtækt hlutverk þeirra er og er það eitt af því sem tónhöfundur þarf að gæta sérstaklega að, áður en hann gerir samning við tónlistarforleggjara.

Eitt eiga tónlistarforleggjarar sameiginlegt, en það er að þeir taka ávallt tiltekið hlutfall af höfundaréttartekjum viðkomandi höfundar til sín. Er þetta hlutfall mjög mismunandi hátt. Forleggjarar sem eingöngu sinna umsýslu eins og skráningu verka og að fylgja eftir greiðslum frá höfundaréttarsamtökum taka um 12%, en hefðbundinn forleggjari tekur frá 30-50%.

Tekjur forleggjara koma aðallega frá opinberum flutningi og eintakagerð þeirra verka sem þeir fara með umboð fyrir og fá þeir greiðslur sínar beint frá höfundaréttarsamtökum. Einnig geta þeir fengið tekjur af leyfissamningum sem þeir gera sjálfir eins og við kvikmynda- og sjónvarpsþáttaframleiðendur.

Ef þú ert með samning við stóran forleggjara sækir þú greiðslur fyrir höfundarétt þinn beint og er þá ekki ástæða að fela STEFi það hlutverk. STEF er í raun tónlistarforleggjari meðlima sinna sem sér einungis um skráningu og eftirfylgni greiðsla en ekki kynningu á einstökum tónlistarmönnum.

STEF er með ítarlegar upplýsingar um tónlistarforleggjara á heimasíðu sinni, auk ráða um gerð samninga við þau, upplýsingar um skyldur og margt fleira.

Synchronization

Synchronisation (“sync”) er ört vaxandi hluti af tónlistargeiranum og eitthvað sem flestir tónlistarmenn ættu að huga að. Sync snýr að leyfisveitingu fyrir notkun á tónlist í auglýsingum, tölvuleikjum, sjónvarpsþáttum og fleira. Orðið “sync” á oftast við um leyfið sem höfundarréttahafi veitir þriðja aðila til þess að nota tónlistina eða verkið í myndrænu efni.

Þetta er töluverð tekjulind fyrir tónlistarfólk. Einnig getur lag í vel völdum sjónvarpsþætti eða kvikmynd fleytt tónlistarfólki áfram. Sýnt hefur verið fram á að fólk uppgötvar nýja tónlist í auknum mæli í gegn um sjónvarpsefni.

Tveir stærstu markaðir fyrir sync í heiminum eru Bandaríkin og Bretland.

Fyrir sync samning til að eiga sér stað þurfa rétthafa bæði flutningsréttar (“publishing right”) annars vegar og mekanískan- eða fjölföldunarrétt (“master rights”) hins vegar að veita leyfi.

YouTube, Spotify, SoundCloud

YouTube

Það eru margar leiðir til þess að hafa tekjur úr tónverkum þínum á netinu, allt frá því að “synca” tónlistina í auglýsingu á netinu, eða með því að hvetja til þess að það sé hlustað á hana á streymiveitum á borð við Spotify og Deezer. Af öllum þessum leiðum þá er YouTube arðbærust. Það þarf hinsvegar að gera alls kyns ráðstafanir til þess að fá þessa peninga og eru það ákveðin vísindi. CD Baby hefur útbúið ókeypis bækling sem fjallar einmitt um þetta.

Í stuttu máli kemur þar fram:

 • YouTube snýst um það að deila hlutum. Settu myndbönd þín á heimasíðuna, á samfélagsmiðla og í fréttatilkynningar. Myndbönd auðga efni og brjóta upp langa texta. Fólk vill deila myndböndum. Nýttu þér það.
 • Notaðu “tags”, settu inn mikið af þeim og gerðu þau nákvæm. Þetta tengir þig við samfélagið og lætur myndbandið þitt koma fram í “Related Videos” hjá myndböndum með svipuð tögg.
 • Notaðu sérstakan YouTube aðgang fyrir hljómsveit / tónlistarverkefni þitt.
 • Búðu til lagalista svo að fólk geti hlustað á tónlist þína samfellt.
 • Skoðaðu hvað það þýðir að vera YouTube Partner og hvort það henti þér.
 • Hvattu aðila til þess að gerast áskrifendur og settu reglulega inn nýtt efni. Þú getur einnig deilt efni sem þér líkar við og þannig tengt tónlist þína betur við YouTube samfélagið.

YouTube er ein áhrifamesta síða heims og getur haft töluverð áhrif á velgengni þína. Hugaðu vel að YouTube og hvernig tónlist þín er sett fram þar, það skiptir máli.

Hér er heimasíða sem YouTube hefur búið til sem sýnir manni hvernig er best að koma fram á YouTube.

SoundCloud

SoundCloud er góður vettfangur til þess að gera tónlist þína fáanlega. SoundCloud er í raun samfélagsmiðill fyrir tónlistarfólk og þar getur þú tengst fólki sem er að gera svipaða hluti og þú. Miðillinn er samt aðallega fyrir ákveðna tegund tónlistar. Þú getur gert tónlist þína fáanlega á miðlinum sama hvernig tónlist þú ert að gera, en samfélagslega tengingin er aðallega á milli aðila í raf, popp, indie, rapp og hip hop geiranum.

Hinsvegar er ekki hægt eins og er að fá greitt fyrir spilun á tónlist þinni á SoundCloud. Það getur vafist fyrir fólki að SoundCloud í raun græði peninga á tónlist þeirra án þess að tónlistarmennirnir fá nokkuð fyrir það greitt, en það virðist vera í vinnslu að breyta þessu.

Spotify og aðrar streymiveitur

Undanfarið hefur verið mikil umræða um kosti og galla þess að vera með tónlist á Spotify. ÚTÓN hefur tekið saman ýmis rök með og á móti til þess að auðvelda tónlistarmönnum að taka upplýsta ákvörðun um dreifingu á efni sínu. Ætlunin er ekki að taka afstöðu með eða á moti, heldur setja fram fleiri hliðar á málinu, sérstaklega vegna þess að ákvörðun um að vera ekki á slíkum streymiveitum getur haft víðtæk áhrif á tónlistarmenn.

Taylor Swift, Thom Yorke, Geoff Barrow úr Portishead og fleiri heimsfrægir tónlistarmenn hafa tekið afstöðu gegn Spotify opinberlega og að mörgu leyti gert okkur greiða með því að opna umræðu um greiðslu til tónlistarmanna. Á sama tíma og þessi aukna umræða á sér stað fara einnig á flug alls kyns rangfærslur um hvernig Spotify virkar og hvaða tilgangi það þjónar. Á sama máta og ólöglegt niðurhal umturnaði neysluvenjum þegar kemur að tónlist þá hafa streymisveitur gert það sama, eða eru í það minnsta í því ferli. Breyttar neysluvenjur hafa áhrif á tekjuöflun, og tekjuöflun er forsenda áframhaldandi sköpunar fyrir marga tónlistarmenn. 

Það fyrsta sem þarf að átta sig á er að með breyttum neysluvenjum koma breyttar áherslur. Flestir eru sammála um að það er ekki jafn mikil ofur áhresla á útgáfu á plötu í tónlistargeiranum í dag. Það er engu að síður mikilvægur punktur í kynningu á hljómsveit, en samskiptin á milli tónlistarmanna og almennings hefur gjörbreyst og með tilkomu samfélagsmiðla er frekar talað um samtal frekar en einhliða miðlun upplýsinga. Þannig er sú krafa komin að tónlistarmenn haldi athygli aðdáenda lengur en bara á því tímabili sem nemur útgáfu á plötu, en haldi áfram að dæla út áhugaverðu efni eins og myndböndum, myndum af daglegu lífi og tónleikaferðalögum, og lagalistum,  svo eitthvað sé nefnt. Markmið tónlistarmanns er ekki lengur miðað við  hversu mörg eintök af plötu þau selja, heldur er núna besti mælikvarðin frekar, heildarfjöldi aðdáenda. Hver aðdáandi getur neytt mismunandi tegunda efnis frá tónlistarmanni, og í lengri tíma.

Þannig getur hver aðdáandi verið verðmætari en áður, þar sem hver plata var keypt einu sinni (einn aðdáandi, ein sala), og þarf að rækta þetta langtíma samband mun betur.

Þarna liggur styrkur streymiveitna að einhverju leyti. Það er búist við að áhlustun á plötu, lag, eða tónlistarmann sem heild sé gert yfir lengri tíma en áður fyrr. Þú færð minni pening úr hverri áhlustun, en ef þú getur ræktað samband við aðdáendur þína ættir þú að geta fengið meira út úr hverjum einstaklingi.

Annað sem skiptir máli er að Spotify býður upp á mjög góðar leiðir til þess að uppgötva nýja tónlist. Í auknum mæli notar fólk Spotify til að kynnast nýjum tónlistarmönnum,  í gegnum Discover fítusinn, í gegnum lagalista (sem eru bæði búnir til af Spotify og af sjálfstæðum einstaklingum) og í gegnum Related Artists fítusinn. Á The Great Escape hátíðinni í Brighton í ár voru haldnir fyrirlestrar um mikilvægi lagalista. Að komast inn á lagalista getur haft gríðarleg áhrif á kynningu. Nú eru tilkomin fyrirtæki sem starfa við það einungis að plögga lögum inn á lagalista og er það að einhverju leyti ætlað til að koma í stað útvarpsplöggara. Þetta er vegna þess að spilanir geta tvöfaldast, jafnvel þrefaldast eða meira þegar lagið þitt fer á lagalista. Einnig er orðið vinsælt að tónlistarhátíðir búi til lagalista með þeim hljómsveitum sem koma fram á hátíðinni. Þetta er oft raunin með showcase hátíðir þar sem mikið af böndunum eru óþekkt, og hafa það markmið að hjálpa bókurum, plötufyrirtækjum og fleiri fagaðilum að skera úr um hverjir eru áhugaverðir á hátíðinni (til dæmis gerir Iceland Airwaves þetta).

Ef þú ert ekki á Spotify getur þú misst af mikilvægum kynningartækifærum svo sem þessum. 

Oft er rætt um eignarhald Spotify og að það sé einungis gott fyrir listamenn sem eru búnir að skrifa undir samning hjá stórri plötuútgáfu. Record of the Day hefur gert úttekt á lagalistum á Spotify (einungis opinberir Spotify listar), auk lista yfir mest spiluðu lögin og borið saman við þá sem eru í rennsli á stærstu útvarpsstöðvum Bretlands. Þau komust að því að 94% af þeirri tónlist sem spiluð er í útvarpi eru frá major útgáfum, en meirihluti laga (51%) á lagalistum Spotify eru frá indie útgáfum. Einnig voru þeir lagalistar sem voru með stærra hlutfall af indie útgáfum með mun fleiri fylgjendur. Þar sem Spotify er að taka við sem aðal tól fyrir tónlistaruppgötvun (af útvarpi) þýðir þetta augljóslega að þar leynast ýmis tækifæri fyrir minni útgáfur.

Þess má geta að þeir sem hafa talað hvað háværast gegn Spotify starfa í allt öðru umhverfi en minni tónlistarmenn. Thom Yorke mun alltaf selja plötur til stærsta aðdáendahóps síns, sem er stór, og hefur þegar stórgrætt á sölu á geisladiskum, þegar það var ennþá möguleiki. Eins með Taylor Swift, eftirspurnin er þegar til staðar. Tónlistarmenn sem ekki eiga stóran aðdáendahóp hafa ekki endilega þann lúxus að taka afstöðu á móti Spotify á þennan máta, þar sem Spotify er einmitt tól sem getur hjálpað til að auka eftirspurn eftir ákveðnum tónlistarmanni. CMU hefur birt grein sem útskýrir vel að lokagreiðsla til tónlistarmanna fer mikið eftir því samkomulagi sem hefur verið gert við útgáfu, umboðsmann, forleggjara eða aðra sem að því ferli hafa komið. 

Að lokum þarf að taka fram annan kost Spotify og það er gagnaöflun. Ef þú ert með tónlist á Spotify getur þú haft aðgang, samstundis, að gögnum sem geta verið ómetanleg. Þú getur fengið gögn sem búta niður hlustanir á tónlist þína eftir landssvæðum, og fólk er farið að skipuleggja heilu tónleikaferðalögin eftir því. Þú veist einnig hvar það fólk er, sem hlustar mikið á tónlist þína. T.d. getur þú vitað ef PR herferð sem þú fórst í í Belgíu skilaði sér í auknum hlustunum eða ekki. 

Neikvæði hlutinn við Spotify þekkjum við öll, það er almennt talið að tónlistarmenn fá ekki nógu vel greitt fyrir hvert streymi. Ef það er næg ástæða fyrir þig að setja ekki tónlist þína á Spotify, þá er það góð og gild rök. Hægt er að fara alls kyns millivegi, til dæmis með því að setja plötu ekki á Spotify strax við útgáfu heldur aðeins eftir á, eða setja bara titillag plötu eða gömul lög sem ekki er lengur verið að selja mikið af.

Hvaða ákvörðun sem er tekin er okkar von að nú sé hún eilítið upplýstari.

Styrkir og sjóðir

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar

Útflutningssjóður er í umsýslu ÚTÓN og eru flestar upplýsingar hér á heimasíðunni.

Sjóðurinn úthlutar mánaðarlega ferðastyrkjum sem eru upphæð 50.000 krónur á mann. Miðað er við að umsækjandi sé að fara í tónleikaferðalag með minnst 4 tónleikum eða að spila á showcase hátíð sem er í samstarfi við ÚTÓN.

Þess má geta að allar úthlutunarreglur sjóðsins eru frávíkjanlegar ef sterkar röksemdir eru að baki. Til dæmis ef þú ert að koma fram á minna en fjórum tónleikum en þeir tónleikar eru mjög þýðingamiklir fyrir þig, þá má geta þess í umsókninni og stjórnin tekur það til greina. Til dæmis hefur sjóðurinn ítrekað styrkt tónskáld til þess að vera viðstödd flutning á verkum þeirra erlendis, þó það sé bara í eitt skipti.

Sjóðurinn veitir einnig markaðsstyrki ársfjórðungslega að upphæð 500.000 kr. eða 1.000.000 kr.

Markaðsstyrkir

Það er aðeins loðnara að skilgreina markaðsstyrki. Þegar hugað er að sækja um markaðstyrk er gott að hafa í huga markmið sjóðsins: að styrkja íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands.

Umsækjandi þarf að vera íslenskur (þó það sé ekki krafa um ríkisborgararétt) og miðað við að tónlistin sé íslensk einnig, að minnsta lagi að hluta til. Það þyrfti til dæmis að færa sterkari rök fyrir styrk þegar flytjandi er íslenskur en tónlistin sem flutt er er eftir dauða þjóverja (hvernig orða ég þetta betur?).

Dæmi um verkefni sem hafa holtið styrk:

 • Kynning á útgáfu Önnu Þorvaldsdóttur á lykilstöðum í Evrópu og Bandaríkjunum undir leiðsögn Arnbjargar M. Danielsen umboðsmanns
 • Markaðssetning á nýrri plötu Lay Low í Bretlandi og Bandaríkjunum í samstarfi við Paradigm, Communion og Hill Media.
 • Kynning og markaðsetning í Bretlandi á þremur útgáfum Kammerkórs Suðurlands í samvinnu við Smekkleysu.

 • Aðstoð við ráðningu PR fyrirtækis vegna Extreme Chill hátíðarinnar í Berlín sumarið 2014
 • Umsjón með kynningu á þremur nýjum íslenskum útgáfum erlendis, og umboðsmannastörf í 6 mánuði

Dæmi um verkefni sem ekki hlutu styrk:

 • Upptaka á plötu erlendis (eða önnur forvinna við gerð plötu)
 • Tónleikaferðalag þar sem 50.000 kr. á mann er ekki talið vera nóg til þess að svara kostnaði (ferðastyrkir eru aldrei veittir með markaðsfé, ekki heldur sem hluti af kynningarherferð)
 • Stefnt að öflugri kynningarherferð í kjölfar útgáfu, en ferlið hefur ekki verið skilgreint

 

Fjárhagsáætlunargerð 

 

ÚTÓN hefur tekið saman leiðbeiningar um fjárhagsáætlunargerð vegna ferðastyrkja hér.

Þegar sótt er um markaðsstyrk þá þarf að hafa skýra hugmynd um hvaða kostnaðarliðir munu falla til í gegn um ferlið. Til þess  þarf að hafa skýra hugmynd um hvað er verið að gera, hvaða samstarfaðila er verið að nota, hvaða PR fyrirtæki kemur við sögu, hversu miklu verður varið í auglýsingar og svo framvegis.

Hér er dæmi um fjárhagsáætlun hjá verkefni sem hlaut styrk frá Útflutningssjóði. Eins og má sjá koma fram upplýsingar um hvaða kostnaður fellur til og hvenær.

Hér er dæmi um fjárhagsáætlun hjá hverkefni sem hlaut ekki styrk. Sjóðnum berst oft slíkar fjárhagsáætlanir, og góðum verkefnum verið hafnað út af því.

Umsóknarferlið getur verið ógnandi fyrir marga. Útflutningssjóður er með netfangið utflutningssjodur@icelandmusic.is og þar má senda alls kyns fyrirspurnir og beiðnir um aðstoð alla leið frá hugmynd að framkvæmd verkefnisins. Við hvetjum umsækjendur um að leita ráða hjá okkur ef eitthvað er óljóst eða til að bera hugmyndir undir okkur. Það eru engar heimskulegar spurningar og þessi ráðgjöf er hluti af fræðslustarfi ÚTÓNs, en vonin er að lipurð í umsóknagerð muni skila sér til tónlistarmanna til lengri tíma.

Reykjavík Loftbrú

Reykjavík Loftbrú sjóðurinn er einnig í umsýslu ÚTÓN.

Sjóðurinn veitir styrkþega flugmiða til áfangastaðs Icelandair. Styrkþegi þarf að greiða skatta og bensíngjöld, en sá kostnaður er í kring um 25.000 kr. til Evrópu og 45.000 kr. til Bandaríkjanna. Það fer eftir með hversu miklum fyrirvara þú sækir um hve hátt það gjald er.

Aðrir styrkir og sjóðir

Listi yfir aðra styrki og sjóði sem ekki eru í umsýslu ÚTÓN má finna hér.

Alþjóðlegir markaðir

Þú getur ákveðið að herja á ákveðin markaðssvæði, og ef þú ert með virka Facebook síðu, heimasíðu og/eða póstlista þá ættir þú að hafa góða hugmynd um hvar þínir viðskiptavinir eru. Jafnvel án þessara upplýsinga getur þú ákveðið að herja á einn stað ferkar en annan, til dæmis er Þýskaland markaður sem virðist hafa áhuga á íslenskri tónlist, er arðbærari fyrir tónlistarmenn en margir aðrir og það er ekki langt eða dýrt að fara þangað. Kannski ert þú að kynna músík sem myndi helst höfða til ákveðins markhóps og kannski finnst sá markhópur meira í einu landi en öðru. Sumir einblína á Bretland út af áhrifum breskra miðla, sem smita verulega út frá sér og inn á önnur markaðssvæði.

Það er einstaklingsbundið hvað fólk velur, en ef þú velur eitthvað og nær að markaðssetja tónlist til markhópsins, þá er velgengni mun líklegari.

Einn punktur sem gleymist oft og á við svo margt, er að það er ekki hægt að gera ráð fyrir að flestir tali ensku eins og tíðkast hér á Íslandi. Fólk á öllum aldri í öllum heimshornum talar einungis sitt móðurmál, og sumir sem tala ensku kjósa samt sem áður að hafa allt í kring um sig á sínu móðurmáli. Ef þú ert að einblína t.d. á Frakkland, þá er það mikill kostur að hafa eitthvað kynningarefni á frönsku.

Mjög gott er að lesa Vegvísinn þar sem farið er ítarlega í markaði, mikilvægustu miðla, hátíðir, og annað.

Bandaríkin

Norður Ameríka er stærsta markaðssvæði fyrir tónlist á heimsvísu, og þá bæði hvað varðar framleiðslu og neyslu

Það kemur í raun og veru ekki á óvart miðað við fólksfjölda (yfir 320 milljónir) og tæknivæðingu. Það mætti í raun búta Bandaríkin niður eftir landssvæðum, jafnvel fylkjum, og líta á þau sem sérstök markaðssvæði með sér þarfir.

Einfaldast er að einblína á suðupotti eins og L.A og Kaliforníu annars vegar og New York hins vegar. Þar er mikil samkeppni en ef þú nærð árangri þar, greiðir það leið þína inn á önnur svæði. Seattle er einnig mjög góður staður en KEXP er útvarpsstöð í Seattle sem er með tengsl við Iceland Airwaves og hefur yfirburða þekkingu og áhuga á íslenskri tónlist.

Starfsleyfi/Atvinnuleyfi

Starfsleyfismál geta verið ein stærsta hindrun erlends tónlistarfólks inn á Bandaríkjamarkað.

Ef þú ert að spila á auglýstum tónleikum í Bandaríkunum,  þá þarft þú að fá starfsleyfi, en slíkt getur kostað í kring um $3,000, per haus, um það bil 400.00 kr. (skv. gengi feb 2015). Það er einnig tímafrekt ferli og jafnvel þegar sótt er um leyfi þá berast þau ekki í tæka tíð. Það hafa verið tilfelli þar sem Bandaríska sendirráðið hefur aðstoðað tónlistarfólk sem kemur fram án greiðslu við að komast inn í landið, við mælum með því að hafa samband við þau. Undantekningar frá þessarri reglu eru ef tónlistarmenn spila á kynningum sem haldnar eru á vegum fyrirtækja eða opinberra aðila, sem sjá þá um greiðslur. Dæmi um það er Reykjavik Calling, sem eru menningarkynningar sem Íslandsstofa stendur fyrir í samvinnu við íslenska Konsúlinn í NY, og íslensk fyrirtæki.

SXSW

Eitt af algengum fyrirspurnum til ÚTÓNs varðar SXSW, (South By Southwest tónlistarhátíðin í Austin-Texas) , en íslenskar hljómsveitir sækjast oft eftir því að koma fram þar. ÚTÓN hefur ekki verið að mæla með að hljómsveitir fari þangað til þess að spila án þess að það séu sterkar ástæður til þess, svo sem tengingar við útgáfu eða tónleikabókara, og fleiri tónleikar séu bókaðir í kring um framkomuna á SXSW. Það er einfaldlega of dýrt og ekki nógu miklar líkur á árangri að öllu jöfnu. Það eru einfaldlega allt of mikið af hljómsveitum að spila og ef það er enginn markvisst að vekja athygli á þínu verkefni sérstaklega sem er með tengsl við bransann í Bandaríkjunum þá er okkar reynsla að það gerist ekki neitt.

 Markaðurinn

Bandaríkjamarkaður er stór og flókinn og því þarf að undirbúa sig mjög vel áður en nokkuð sýnilegt er gert þar. Það er best að reyna að stofna til samstarfs með einhverjum sem hefur þar reynslu, þekkingu og tengsl, eins og bókunarskrifstofa, útgáfa eða tónlistarforleggjari.

Margir hafa farið á tónleikaferðir með öðrum hljómsveitum, en það er best gert með tengingu við útgáfu eða bókunarskrifstofur.

Ef þú ert ekki með slíkt þá þarftu að vera með sterka viðveru á alnetinu, og jafnvel þó þú sért með trausta samstarfsaðila þá eru Bandaríkin svo netvædd að það er erfitt að ná árangri án þess að vera á netinu. Ef þú ert tónskáld þá getur ein pöntun á verki leitt af sér fleiri pantanir, og þess vegna ef slíkt kemur upp er mikilvægt að fylgja því eftir með öflugri heimasíðu með öllum upplýsingum um þig og þín verk.

Það er sterkur leikur að fá sync í Bandaríkjunum þar sem myndefni þaðan er birt um allan heim.

Bretland

Bretland er mjög mikilvægur markaður á Evrópuvísu þar sem velgengni þar getur smitað út frá sér. Miðlar þar í landi hafa áhrif á miðla annars staðar, og móðurmálið er enska sem flest okkar geta tjáð okkur á.

90% af öllum alþjóðlegum plötuútgáfum sem eru með starfsstöðvar í Bretlandi eru í London.

Þýskaland

Aðal markaðssvæðin í Þýskalandi eru Berlín, Hamborg, Köln og München, það eru allt góður staður til að byrja á.

Vegna þess að þýski markaðurinn er svo stór, er mikilvægt, eins og á öðrum stórum mörkuðum, að undirbúa sig vel með því að stofna til samstarfs við fyrirtæki og/eða einstaklinga á staðnum, að byggja upp aðdáendahóp og virkja þau öll í kynningu og tengslamyndun.

Prentmiðlar eru ennþá mikilvægir í Þýkskalandi, ólíkt flestum öðrum mörkuðum.

Það þýðir varla að setja tónlist þína á YouTube og reyna að kynna hana þannig í Þýskalandi. GEMA (þýsku höfundarréttarsamtökin) hefur verið í nokkurs konar stríði við YouTube í mörg ár vegna þess að þau telja að YouTube greiði ekki nægilega mikið til höfundarrétthafa fyrir hvert streymi / áhorf. Til þess að koma í veg fyrir lögsóknir þá lokar YouTube á öll myndbönd sem eru talin innihalda músík, og er ekki hægt að sjá þau í Þýskalandi án þess að nota sérstök GEMA-block forrit. Þetta gera þau þó svo að tónlistarmaður er ekki skráður í GEMA eða systursamtök, eða veiti leyfi fyrir streyminu í Þýskalandi. Þú getur beðið um að láta opna fyrir myndbandið þitt eftir á, en þetta getur haft víðtæk áhrif á kynningarstörf í Þýskalandi. Það er talið að yfir 60% af 1.000 vinsælustu myndböndum á YouTube eru ekki aðgengileg í Þýskalandi.

Það er mjög miður að tónlistarmaður sem vill láta sem flesta heyra tónlist sína eyðir tíma og peningum í að reyna að fá fólk til þess að hlusta á lag eða horfa á myndband, og svo þegar tilvonandi viðskiptavinur ætlar að gefa sinn tíma til að hlusta á lagið, er það lokað fyrir honum. Það er ekki algengt að fólk hafi fyrir því að leita að laginu annars staðar, og þá missir maður athygli fólks. Það er mikilvægt að ef þú t.d. kaupir aukna dreifingu á myndbandi á Facebook, og ákveður að reyna að ná athygli fólks í Þýskalandi, að tryggja að þau geta horft á það.

Hér er grein sem ÚTÓN hefur birt um kynningu á Þýskalandsmarkaði.

Önnur markaðssvæði

Japan

ÚTÓN hefur birt grein um kynningu á japansmarkaði hér.

Spánn

Velgengni á Spáni getur haft áhrif út á við þar sem móðurmálið þar er eitt mest talaða tungumál heims. Spánarmarkaður er einnig að verða mikilvægari með tilliti til alls Suður Ameríku markaðarins, sem er sá markaður í heiminum, ásamt Asíu, sem nú vex hraðast með tilliti til tónleikahalds.

Tónlistarhátíðir & miðlar

Tónlistarhátíðir

Það eru í raun tvær tegundir af tónlistarhátíðum, þá hefðbundnar hátíðir og svokallaðar “showcase” hátíðir. Venjulegar hátíðir eru lang algengastar og eru oft með mörgum nöfnum sem maður þekkir, stór bönd sem spila á aðal sviðum og það er oftast engin bein leið til þess að “sækja um” að spila á hátíðinni. Dæmi um svona hátíðir eru Glastonbury, Coachella, Sónar, ATP.

Showcase hátíðir eru oftast með umsóknarferli. Einnig er lang stærsti hluti dagskráarinnar óþekktar eða lítið þekktar hljómsveitir. Fyrir utan það er oft rekin ráðstefna og tengslamyndunarviðburðir samhliða tónlistardagskrá. Dæmi um þessar hátíðir er Iceland Airwaves, The Great Escape, Reeperbahn, Amsterdam Dance Event, Classical:NEXT og Eurosonic Noorderslag. Það hafa kannski ekki allir heyrt um þessar hátíðir, en flestir sem vinna í tónlistargeiranum hafa gert það. Ástæðan er sú að það fer mikið af tónlistargeiranum á þessar hátíðir til þess að uppgötva nýjar hljómsveitir og til þess að tengjast öðrum fagaðilum í geiranum.

Það er almennt talið mun verðmætara fyrir tónlistarmann að spila á showcase hátíð frekar en á hefðbundinni hátíð, þó það farið auðvitað eftir stærð hátíðarinnar og fleira. Við mælum með að allir tónlistarmenn sækja um að spila á þessum hátíðum:

Indie / raf / rokk / popp

Eurosonic Noorderslag* (Holland)

Reeperbahn* (Þýskaland)

The Great Escape* (Bretland)

by:Larm* (Noregur)

SPOT Festival* (Danmörk)

CMJ New York (Bandaríkin)

Iceland Airwaves (Ísland)

Ja Ja Ja klúbbakvöld í London og Berlín* (Þýskaland, Bretland)

Jazz

JazzAhead* (Þýskaland)

Samtímatónlist

Classical:NEXT* (Staðsetning er mismunandi milli ára)

Aðrir staðir sem vert er að athuga:

Amsterdam Dance Event er ein mikilvægasta showcase hátíð í raftónlistargeiranum en er ekki með opið umsóknarferli.

Ultima hátíðin er mikilvæg fyrir Norræna tengslamyndun í samtímatónlistargeiranum en er ekki hefðbundin showcase hátíð. Það sama á við um Donaueshingen Festival fyrir Þýskaland og Huddersfield fyrir Bretland.

ÚTÓN styður við Wacken Metal Battle en þar get hljómsveitir keppt um að fá að spila á Wacken Open Air í Þýskalandi.

*ÚTÓN veitir ferðastyrki til þeirra sem spila á hátiðum merktum með stjörnu

SXSW

ÚTÓN fær oft fyrirspurnir um framkomu á SXSW. Við mælum almennt ekki með því að tónlistarmenn spili þar nema þeir séu með sterkt bakland í Bandaríkjunum og mikið af tengslum þar. Almennt séð er það of dýrt og það kemur ekki mikið út úr því, og því miður eru ekki ferðastyrkir í boði fyrir þá sem þar spila.

Miðlar

Hér er listi yfir miðla sem hafa komið til Íslands á vegum ÚTÓN eða tengdra aðila til þess að fjalla um íslenska tónlist:

 • ELLE Online
 • Telegraph Online
 • Mixmag
 • Resident Advisor
 • The Quietus
 • Crack
 • Loud & Quiet
 • Devilution
 • Metal Hammer UK
 • Metal Hammer NO
 • Inferno Magazine
 • Iron Fist
 • Metallian
 • Denmarks Radio
 • The Quietus
 • CLASH
 • MOJO
 • NME
 • The Line of Best Fit
 • Umag / Kulturnews
 • Noisey
 • Berliner Zeitung
 • Spex
 • Arte
 • Deutschlandfunk Corso
 • Clash Music
 • Record of the Day
 • Music Week
 • Dazed
 • de Volkskrant
 • Coolhunting
 • Musikmarkt
 • Entree Libre
 • Taz Magazine
 • Guardian
 • BBC 6 Music
 • The Times
 • WNYC (NY public radio)
 • Daily Telegraph
 • i-D
 • VICE
 • Les Inrockuptibles
 • Dots & Dashes
 • The Quietus
 • WCRX-FM Chicago
 • KEXP
 • MOJO
 • redbull tv
 • Under The Radar
 • Dummy Magazine
 • Consequence of Sound
 • GAFFA
 • BBC 6
 • Musikexpress
 • Consequence of Sound
 • Metroexpress
 • Stereogum
 • The 405
 • Amazing Radio
 • State Magazine
 • Newsweek
 • Les Inrockuptibles
 • Irish Times
 • DIY
 • I Care If You Listen
 • Nutida Musik