Opið fyrir umsóknir í Keychange

Vilt þú verða hluti af Keychange verkefninu?

Það er opið fyrir umsóknir til og með 30. október. 

STEF í samráði við FÍH og ÚTÓN er þátttakandi í hinu alþjóðlega Keychange verkefninu sem ætlað er að styðja konur í tónlistarlífinu. 

Verkefnið snýr annars vegar að konum sem flytja eigin tónlist og hins vegar að konum sem starfa á annan hátt innan tónlistarbransans. Þátttökuþjóðir eru 12 og tónlistarhátíðir sem taka þátt í verkefninu eru 13 talsins. Fyrir utan það hafa yfir 200 tónlistarhátíðir skrifað undir skuldbindingu við verkefnið um að bjóða upp á jafnt hlutfall kynja á hátíðunum frá og með árinu 2020. 

Þátttakendur í verkefninu fá: 

- Þátttöku í tengslamyndunarfundi í Stokkhólmi í febrúar 2020. 
- Þátttöku í tengslamyndunarfundi á Reeperbahn tónlistarhátíðinni í september 2020. 
- Þátttöku í mentoring prógrammi SheSaidSo
- Kynningu í gegnum gagnagrunn Keychange sem yfir 200 tónlistarhátíðir geta nýtt sér til að bóka konur á tónlistarhátíðir. 
- Konur sem flytja eigin tónlist munu koma fram á einni af þessum 13 tónlistarhátíðum sem taka þátt á árinu 2020. 
- Konur sem starfa á annan hátt innan tónlistarbransans (umboðsmennska, verkefnastjórnun, upptökustjórn o.s.frv.) munu taka þátt í einni af þeim 13 tónlistarhátíðum sem taka þátt á árinu 2020 með setu í pallborðsumræðum eða með framsögu. 

Konur sem flytja eigin tónlist munu fá 2.260 Evrur (um 308.000 kr.) til að standa straum af kostnaði sínu við verkefnið. Konur sem starfa á annan hátt innan tónlistarbransans munu fá um 1.160 Evrur (um 226.000 kr.) til að standa straum af kostnaði sínu við verkefnið. Reiknað er með að þetta dugi fyrir um 75% af kostnaði við að taka þátt í ofangreindum verkefnum. Fyrir utan styrkinn greiðir Keychange verkefnið fyrir aðgangsmiða á viðkomandi tónlistarhátíðir og hótelgistingar á bæði febrúar- og septemberfundunum, mentoring prógrammið og það prógram sem verður fyrir þátttakendur á þessum hátíðum. Þær konur sem flytja eigin tónlist geta ennfremur sótt um viðbótarstyrki til Ferðasjóðs STEFs, ÚTÓNs og til FÍH. 

Þátttakendur þurfa að sækja um þátttökuna á vefgátt verkefnisins. Af þeim sem sækja um mun STEF, í samráði við FÍH og ÚTÓN, velja 3 konur sem starfa í tónlistariðnaðinum svo og 10 konur sem flytja eigin tónlist. Úr hinum 10 manna hópi kvenna sem flytja eigin tónlist munu síðan tónlistarhátíðirnar sem taka þátt í verkefninu velja endanlega 3 konur. 

Vert er að vekja athygli á því að verkefnið stendur einnig öðrum kyngervum í minnihluta til boða. 

Nánari upplýsingar um hvaða kröfur eru gerðar til þeirra kvenna sem sækja um s.s. um að vera með efni sem er tilbúið til útflutnings, með reynslu í að koma fram opinberlega o.fl. eru tilgreindar í vefgáttinni:

http://www.keychange.eu/apply

Iceland Music