Samræður hafnar við stjórnvöld
Skýrsla um áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað sem kom út í sumar gefur góða mynd af stöðu tónlistariðnaðarins í dag. Skýrslan fjallar um áhrif samkomubanns og ferðatakmarkana á tónlistarfólk en einnig á þann fjölbreytta hóp sem starfar innan iðnaðarins, allt frá tæknifólki til tónleikastaða og tónlistarhátíða.
Í júlí virtist vera farið að sjást aðeins til sólar en það reyndist skammgóður vermir og í kjölfar nýjustu sóttvarnarreglna er ljóst að aftur verði höggið stórt fyrir tónlistariðaðinn.
Í skýrslunni voru lagðar fram tillögur að aðgerðum með það að markmiði að lina höggið og styðja við tónlistariðnaðinn á þessum erfiðu tímum. Í framhaldinu hófst samtal með hinu opinbera og er skýrslugerðarhópurinn bjartsýnn eftir góðan fund með Mennta- og menningarmálaráðherra í síðustu viku.
Á myndinni má sjá hluta starfshóps skýrslunnar að störfum en á myndina vantar Eið Arnarsson og Gunnar Guðmundsson. Hópurinn vinnur nú að eftirfylgni með tillögunum og hittist reglulega.