Eðvarð, Úlfur og Tara valin í alþjóðalegar lagahöfundabúðir

Eðvarð Egilsson, Úlfur Eldjárn og Tara Sóley Mobee voru valin sem fulltrúar STEFs og ÚTÓN í alþjóðalegum lagahöfundabúðum NordicLA. 

NordicLA hafa staðið fyrir lagahöfundabúðum í nokkur ár en þar taka þátt annars vegar norrænir tónhöfundar og hins vegar tónhöfundar og upptökustjórar í Los Angeles. Eðvarð Egilsson og Úlfur Eldjárn munu taka þátt í lagahöfundabúðum sem snúa að kvikmyndatónlist og Tara Mobee tekur þátt í popptónlistarbúðum.

Eðvarð er tónskáld með BA-gráðu í tónsmiðum frá Listaháskóla Íslands. Eðvarð hefur lengi verið viðloðandi tónlist. Var hann einn af meðlimum hljómsveitarinnar Steed Lord. Eðvarð hefur samið tónlist fyrir allmörg sjónvarps- og kvikmyndaverkefni, jafnt innlend sem erlend.

Úlfur er tónskáld og raftónlistarmaður, hann hefur starfað bæði sjálfstætt og með hinum ýmsu hljómsveitum m.a. Orgelkvartettinum Apparat. Úlfur hefur sent frá sér nokkrar plötur og samið töluvert af tónlist fyrir leikhús, sjónvarp og aðra miðla og hefur verið tilnefndur til Grímu- og Edduverðlauna fyrir verkefni á því sviði.

Tara er ung og efnileg söngkona og lagahöfundur.  Lögin hennar hafa m.a. náð góðri spilun á Spotify. Tara var einn höfunda og flytjandi lagsins „Betri án þín“ sem tók þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins 2019. Tara vinnur nú að nýrri plötu og tónlistarmyndbandi.  

Við óskum þeim til hamingju og hlökkum til að fylgjast með þeim í framhaldinu.

Iceland Music