Íslenskt tónlistarfólk ánægt með aðra útgáfu Bransaveislu – skoðið myndirnar

 
 

Christiana Sudano, sem hefur t.a.m. unnið með Taylor Swift og Joni Mitchell, gaf sjálfstæðu tónlistarfólki ráð um hvernig er hægt að vera eigin umboðsmaður. Hún impraði á því hversu mikilvægt færi fyrir tónlistarfólk að vera alltaf með þriggja ára plan og langtímamarkmið til að vinna að.

 

ÚTÓN, STEF og Tónlistarborg Reykjavíkur með stuðningi frá Íslandsstofu héldu Bransaveislu í annað sinn 1.-2.nóvember síðastliðinn. Boðið var upp á dagskrá sem var sérstaklega sett saman fyrir íslenska tónlistarbransann í tilefni af Iceland Airwaves, stærstu og öflugastu showcase hátíð okkar Íslendinga. ÚTÓN hefur átt í nánu samstarfi með Iceland Airwaves í gegnum árin, og þá einkum til að fá erlenda fagaðila til landsins yfir hátíðina. 

Markmið ÚTÓN er fyrst og fremst að auka útflutningstækifæri fyrir íslenska tónlist, þ.e. tónlistarfólkinu okkar og þeirra samstarfsaðila. Iceland Airwaves er einstakt tækifæri til að bjóða erlenda bransanum heim að sjá íslenska tónlist í hjarta höfuðborgarinnar. Bransaveislan er hugsuð sem viðbót til að skapa beinar tengingar á milli þessara erlendu gesta og tónlistarsamfélagsins á Íslandi. 

Boðið var upp á námskeið, pallborð og tengslamyndunafundi með fagaðilum í tónlist en þátttaka var vonum framar. Það fylltist á næstum alla viðburði sem hægt var að skrá sig á, þannig að það komust ekki allir að sem vildu. Það tónlistarfólk sem tók þátt var einstaklega ánægt með dagskránna:

“Þetta eru nákvæmlega úrræðin og tengingarnar sem við þurfum svo mikið á að halda á Íslandi en mér fannst öll dagskráin mjög gefandi og hjálpleg. Ég myndaði ný og djúp tengsl sem ég hlakka mikið til að fylgja eftir og hlúa að.”

  • ZÖE, tónlistarkona

Dagskráin þriðjudaginn 1. nóvember snér sérstaklega að umboðsmennsku en hlutverk umboðsmanna verður æ mikilvægara eftir því sem viðskiptaumhverfi tónlistarbransans flækist. Því var boðið upp á málstofu með Ali Raymond, umboðsmanni Arlo Parks og tvö námskeið í því að gefa tónlist út sjálfstætt og að vera eigin umboðsmaður. Um kvöldið var svo haldið upp á stofnun íslenska MMF (Music Managers Forum) þar sem opnuð var íslandsdeild þessara samtaka umboðsmanna sem er mikið fagnaðarefni.

Daginn eftir, þann 2. nóvember, beindist sjónin að tónlistarforleggjurum, en það er sú hlið tónlistarbransans sem snýr meðal annars að kvikmyndabransanum og að skapa tekjur á tónlist með því að koma henni í kvikmyndir. Því var boðið upp á málstofu með Steven Tallamy frá Wise Music Group en það fyrirtæki stofnaði skrifstofu á Íslandi sama dag með Ingu Magnes Weisshappel í fararbroddi. Í eftirmiðdaginn var svo haldið pallborð um stöðu tónlistarforleggjara á Íslandi en eins og er starfa aðeins þrjú fyrirtæki við slíkt hér á landi; INNI Music, Iceland Sync og Wise Music.

Sama dag var boðið upp á hraðfundi með fagaðilum í tónlist en þar gátu þátttakendur skráð sig á 15 mínútna fundi með lykilfólki í tónlistarbransanum, allt frá bókurum fyrir stórar tónlistarhátíðir til umboðsmanna, frá eigendum plötufyrirtækja til tónlistarblaðamanna.

 

Meistaranámskeið í umboðsmennsku og tónlistarvali

 

Ali Raymond, umboðsmaður Arlo Parks, gaf ótrúlega innsýn inn í hvernig skal byggja upp feril ungs tónlistarfólks.

Steven Tallamy frá Wise Music Group ræddi mikilvægi tónlistarvals (e.music supervision) þegar kemur að velgengni íslenskrar tónlistar á erlendri grundu.

 

Málstofur á KEX

 
 

Nina Radojewski frá AIM fór yfir allt sem þarf að hafa í huga þegar gefa á út tónlist sjálfstætt.

 

Lewis Jamieson hélt málstofu um mikilvægi þess að tónlistarbransinn taki sig á þegar kemur að loftslagsvánni.

 

MMF Iceland stofnsett

 
 

Haldið var upp á stofnun MMF (Music Managers Forum) á Íslandi. Sigtryggur Baldursson hélt tölu þar sem hann tók fram hversu mikilvæg uppbygging þessara innviða sé.

Stjórn MMF Iceland (Árni Þór Árnason, Soffia Kristín Jónsdóttir, Kim Wagemaar, Nick Knowles, Anna Jóna Dungal) ásamt formanni MMF í Bretlandi, Paul Bonham.

 

Tenglsamyndun

Fátt skiptir jafn miklu máli í tónlistarbransanum en að vera vel tengd og finna góða samstarfs aðila. Skipuleggjendur settu af stað tengslamyndunarfundi með 14 framúrskarandi alþjóðlegum fagaðilum en var viðburðurinn svo vinsæll að það komust ekki öll að sem vildu.

 
 

Nick Knowles, umboðsmaður Sóleyjar og Eydísar Evensen, gat gefið the virgin orchestra góð ráð.

Tónlistarkonan Sunna Margrét og tónlistarforleggjarinn Inga Magnes Weisshappel ráða ráðum sínum

Gunnar Hilmarsson talar við Ariane Mohr, yfirbókara Reeperbhan hátíðarinnar.

 

Pallborð tónlistarforleggjara á Íslandi

Dagskráin endaði á pallborðsumræðum um tónlistarforleggjara á Íslandi. Í pallborði voru Colm O’Herlihy (INNI Music), Brynja Guðmundsdóttir (Iceland Sync), Steven Tallamy (Wise Music Group) og Christiana Sudano.

 

ÚTÓN, Tónlistarborgin Reykjavík og STEF þakka öllum kærlega fyrir þáttökuna í ár. Endilega skráið ykkur á póstlista ÚTÓN til að vita af næstu viðburðum hjá okkur.

 
Iceland Music