ÚTÓN styrkir tengsl við breska tónlistarbransann, með samstarfi við AIM og MMF
Hlutverk ÚTÓN er að finna og skapa sóknarfæri fyrir rétthafa íslenskrar tónlistar á erlendri grundu með það að markmiði að fleiri geti haft atvinnu af tónlist. Það er gert með ýmsum hætti, meðal annars með því að kynna íslenska tónlist og tónlistarverkefni erlendis (undir vörumerki Iceland Music), bjóða fagfólki hingað til lands og umsýsla styrki fyrir fagaðila í tónlist til að komast sjálf erlendis til að mynda tengsl og afla sér þekkingar.
Eitt af því besta sem við getum gert er að miðla upplýsingum inn í bransann af tækifærum, þekkingu og reynslu annara, af því hver veit betur hvernig best má finna og nýta tækifæri í tónlist heldur en þau sem hafa það að atvinnu nú þegar. Þar sem markaðurinn okkar er einstaklega smár er eðlilegt að innan hvers sérsviðs eru aðeins örfáir einstaklingar. ÚTÓN er því að skoða hvort hægt sé að formgera tengsl við stærri samtök í t.d. Bretlandi sem bjóða upp á fyrsta flokks fræðsluefni en líka viðburði og tækifæri til tengslamyndunnar.
Breska senan hefur reynst mörgu íslensku tónlistarfólki vel, en mörg af okkar helstu útflutningsverkefnum eru gefin út af breskum útgefundum, vinna með breskum umbosðsskrifstofum og/eða hafa fengið umfjöllun þar í landi. Við trúum á að áframhaldandi tengsl milli Íslands og Bretlands stuðli eingöngu að jákvæðri þróun fyrir íslenska rétthafa.
Það eru tvö samtök ÚTÓN er að skoða sérstaklega að formgera samstarf við í Bretlandi til að styrkja tengslinn á milli íslenska og breska tónlistarbransans enn frekar: AIM og MMF.
AIM: ASSOCIATION OF INDEPENDENT MUSIC
AIM segist vera: “rödd óháða hljóðritabransans” í Bretlandi (“AIM is the voice of the independent music sector in the UK”).
AIM er í raun óhagnaðardrifin félagasamtök sjálfstætt starfandi útgefanda í Bretlandi, en sjálfsæðir útgefendur gefa út um fjórðung af hljóðritaðri tónlist í Bretlandi. Samtökin hafa starfað í 20 ár og eru margar af virtustu tónlistarfyrirtækjum í heimi í dag skilgreind sem ‘óháð’ og telja meðlimir AIM meðal annarra Beggars Group (Rough Trade, XL Recordings) og Ninja Tune sem eru með tónlistarfólk eins og The Strokes, Radiohead, Bonobo og hundruði fleira á sínum snærum.
Þess utar þá fellur það fjölmarga tónlistarfólk sem gefur út eigin tónlist sjálft undir skilgreininguna á að vera óháður útgefandi og er AIM með fjölbreytta og aðgengilega fræðslu sérstaklega fyrir slíka frumkvöðla, og býður auk þess upp á hagnýtta aðstoð og viðskiptatækifæri sem eru til þess fallin að láta fyrirtækin dafna og tónlistina heyrast á nýjum mörkuðum.
AIM hefur áhuga á að vinna með Iceland Music (ÚTÓN) sem ‘partner’ og bjóða íslensku tónlistarfyrirtækjum aðgang að þeirri þjónustu sem þau bjóða upp á fyrir sína meðlimi nú þegar. Þau eru með mikið af efni á vef sínum og halda reglulega upp á fræðsluviðburði bæði í eigin persónu og á netinu þar sem þau miðla þekkingu og setja upp tækifæri til tengslamyndunar.
Við höfum nú þegar boðið íslenska tónlistarsamfélaginu að mæta á ráðstefnu Future Independents í gegnum AIM og gaf það góða raun.
Hægt er að gerast ‘Associate Member’ af AIM ókeypis á netinu.
MMF: MUSIC MANAGERS FORUM
MMF er stærsta tengslanet umbosðmanna í heimi. Það var stofnað 1992 sem hagsmunasamtök fyrir umboðsmenn með það að markmiði að bjóða upp á vettvang til tengingar þar sem skipst er á þekkingu, tækifærum og gagnlegum upplýsingum.
Í dag eru 1200 meðlimir í Bretlandi og 2700 í Bandaríkjunum. Tilgangur samtakanna er ekki bara að styrkja tengslin innbyrðis heldur vera hagsmunasamtök fyrir umboðsmenn sérstaklega út á við og gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum í tónlist.
Líkt og AIM, stendur MMF fyrir fjölbreyttri fræðslu þar með talið áfanga í umbosðmennsku sérstaklega sem er aðgengilegur fyrir meðlimi MMF.
Hægt er að gerast ‘Member’ af MMF fyrir 120 GBP á ári, sem samsvarar undir 2000 kr. á mánuði.
Markmið ÚTÓN
Markmið ÚTÓN er að skoða að vinna nánar með bæði AIM og MMF og viljum við endilega heyra frá íslenska tónlistarsamfélaginu hvort áhugi sé að setja upp slíka tengsl við samtök sem þessi.
Ef þið hafið áhuga á að kynnast starfi MMF eða AIM betur, nú eða jafnvel gerast meðlimur, endilega látið okkur vita á hello@icelandmusic.is.