Fræðslukvöld: Stafræn dreifing og kynning

ÚTÓN OG STEF KYNNA:

Pallborðsumræður um dreifingu og kynningu tónlistar á streymisveitum með Öldu Music, Sony Music, Sticky Records og Post-dreifingu

ÍSLENSKIR ÚTGEFENDUR HITTAST Á KEX OG RÆÐA HVERNIG BEST MÁ DREIFA OG KYNNA TÓNLIST Á DÖGUM STREYMISVEITNA

„Í síbreytilegu umhverfi tónlistarútgáfu dagsins í dag er mikilvægt að þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref, jafnt sem lengra komnir, hafi skilning á hlutverki ólíkra fagaðila í útgáfuumhverfinu.

Mjög misjafnt er á milli verkefna með hvaða formerkjum skal nálgast samstarf í útgáfu og dreifingu. Okkur hjá ÚTÓN er það bæði ljúft og skylt að geta boðið íslensku tónlistarfólki upp á samtal um þessi mál, sem vonandi verður til þess að þau muni taka upplýstar ákvarðanir þegar kemur að vali á samstarfsaðilum í útgáfu og dreifingu.” – Leifur Björnsson, ÚTÓN

 

ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar) og STEF bjóða upp á fræðslukvöld um útgáfu á tónlist, hvernig henni er dreift og hún kynnt á dögum streymisveita.

Í pallborði verða Andri Þór Jónsson (Alda Music), Anna Jóna Dungal (Sony Music), Geoffrey Þór Huntingdon-Williams (Sticky Records) og Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir (Post-dreifing).

Tónlistarfólk stendur frammi fyrir ýmsum valkostum þegar kemur að útgáfu og dreifingu tónlistar og hafa valkostir líklega aldrei verið fleiri. Til viðbótar við hefðbundna útgefendur, stendur tónlistarfólki til boða að dreifa á streymisveitur sjálfstætt, eða með því að nýta þjónustu sérhæfðra dreifingarfyrirtækja.

Oft er því haldið fram, að streymisveitur hafi rýrt tekjur af tónlist. En samkvæmt Markaðsskýrslu Félags hljómplötuframleiðanda frá 2021 hafa heildartekjur af streymi farið fram úr heildartekjum af plötusölu árið 2011, sem þá voru hærri en nokkru sinni, námu um 800 milljónum. Árið 2021 voru samanlagðar tekjur af plötusölu og streymi rúmur 1.1 milljarður, en um 90% komu frá streymi.

Spurningin er hvert hlutverk útgefanda sé, nú þegar hægt er að dreifa tónlist á streymisveitur beint og milliliðalaust. Duga streymistekjur til að fjármagna framleiðslu (upptökur), framleiða og dreifa á föstu formi og standa straum af kostnaði við kynningar- og markaðsstarf?

Það er ókeypis að mæta og fer skráning á viðburðinn fram á Facebook >>

ÚTÓN og STEF hafa sett saman pallborð með fulltrúum frá mismunandi fagaðilum í útgáfu, Leifur Björnsson, verkefnastjóri hjá ÚTÓN, mun stýra pallborðsumræðunum, með það að leiðarljósi að efla skilning íslensku tónlistarsenunnar á því hvað mismunandi nálganir á dreifingu og kynningu tónlistar fela í sér.

Þáttakendur eru:

 
 

Andri Þór Jónsson, Alda Music

Á mála hjá Öldu eru m.a. Bubbi Morthens, Friðrik Dór, Jón Jónsson, BRÍET, Hafdís Huld, Daniil, Jóhanna Guðrún, Helgi Björns, Björgvin Halldórsson, Stuðmenn, Ellý Vilhjálms, Páll Óskar, Svala, Ouse, Víkingur Heiðar, FM95BLÖ, kef LAVÍK, Krummi, ISSI og fleiri.

Alda Music er stærsta tónlistarfyrirtæki landsins, stofnað árið 2016 af Sölva Blöndal, Ólafi Arnalds og fleirum. Á þeim sex árum sem liðin eru, hefur fyrirtækinu vaxið fiskur um hrygg og er nú umfangsmikið í útgáfu og dreifingu. Fyrirtækið hefur stóran og fjölbreyttan hóp kunnra listamanna á samningi, einnig sem þar er lögð áhersla á að koma auga á og vinna með nýju og upprennandi tónlistarfólki.

Anna Jóna Dungal, SONY Music

Þar eru m.a. Á mála JóiPé, GDRN, Herra Hnetusmjör, Klara Elias, Birnir, Una Torfa, Mugison, gugusar, Inspector Spacetime, SZK, FLOTT, Moses Hightower, Magnús Jóhann, RAKEL, Aron Can, Ingi Bauer, Unnsteinn og fleiri.

Sony Music Entertainment er annað stærsta plötu- og útgáfufyrirtæki heims, með um 44 útibú víðsvegar. Sony Music Iceland er hluti af stærri skrifstofu Sony Music Entertainment Denmark, sem vinnur að því að þróa, markaðssetja, kynna og selja tónlist frá fjölmörgu íslensku og alþjóðlegu tónlistarfólki. Starfsemi Sony Music Iceland snýst ekki eingöngu um að skapa og dreifa nýrri tónlist, heldur einnig í því að styðja við upprennandi íslenskt tónlistarfólk.

Geoffrey Þór Huntingdon-Williams, Sticky Records

Á mála hjá Sticky Records eru m.a. HAM, Aron Can, Emmsjé Gauti, Joey Christ, Birnir, CYBER, Krabbamane, Yung Nigo Drippin og fleiri

Aðrir útgefendur gefa út tónlist á annan hátt. Sticky Records er eitt miðlunartóla eins þekktasta og langlífasta skemmtistaðar landsins, Prikið Kaffihús. Starfsemi Sticky Records byggist á samstarfi við listafólk og í raun hreina aðstoð við útgáfu verka, listræna stjórnun, mix, masteringu og tengingar við stafræna miðlun og dreifingu. Hugmyndin er í rauninni einföld, þar sem Sticky býður uppá “platform” fyrir yngra og/eða reyndara og eldra tónlistarfólk til að sjá útgáfur verða að veruleika. Um hreint samstarf er að ræða hverju sinni, þar sen útlagður kostnaður hvers verkefnis er fenginn til baka með eigin tónleikahaldi, miða- og áfengissölu.

Steinunn Sigþrúðardóttir Jónsdóttir, Post-dreifing

Hefur komið að sjálfstæðum útgáfum, mörgum hverjum undir hatti listasamlagsins Post-dreifing, sem telur m.a. Supersport!, Ólaf Kram, GRÓU og fleiri

Enn aðrir velja svo þá leið að gefa út sjálfstætt, ýmist ein og sér, eða sem hluti af “kollektívi” á borð við listasamlagið Post-dreifingu. Þar er ekki um eiginlegt útgáfufyrirtæki að ræða, heldur samstarf sjálfstæðs listafólks sem vinnur út frá “DIT” hugmyndafræðinni (Do It Together), sem felur í sér að tónlistarfólk veitir hvert öðru hjálparhönd við útgáfu og stafræna dreifingu, án þess að hafa gróðrarsjónarmið að leiðarljósi. Þannig tilheyra hljómsveitir á borð við Supersport!, Ólaf Kram, GRÓU og fleiri þessu “kollektívi”, en gefa samt í raun plötur sínar út sjálfstætt.

 


Iceland Music