Drög að tónlistarstefnu og nýrrar Tónlistarmiðstöðvar

Nú er til umsagnar í samráðsgátt Alþingis drög að tónlistarstefnu og frumvarp til laga um málefni nýrrar Tónlistarmiðstöðvar, nýs tónlistarsjóðs og Sinfóníuhljómsveitar íslands.

Hlutirnir eru að gerast hratt, Tónlistarmiðstöðin hefur störf um áramótin og grundvöllur þeirrar stofnunar eru þessi nýju lög. Sjóðakerfið er líka að breytast og afar mikilvægt er að tryggja að lögin séu rétt og þjóni tilgangi sínum. Þetta eru spennandi tímar og einstakir hlutir að gerast í stoðkerfi tónlistarinnar!

Þess vegna biðjum við ykkur sem flest að rýna frumvarpið og gera athugasemdir í samráðsgátt (öll geta sent inn sem vilja) ef þið hafið einhverjar. Einnig má koma ábendingum á framfæri við mig og ég myndi flétta þær inn í umsögn ÚTÓN:

Hér er slóðin á samráðsgáttina (drög að tónlistarstefnu)

Hér er slóðin á samráðsgáttina (tónlistarlögin)

Um er að ræða fyrstu opinberu stefnu á sviði tónlistar á Íslandi!

„Þetta eru mikil tímamót, en með stefnunni og lögum um tónlist vinnum við að því að efla tónlist á landinu öllu og mörkum í fyrsta sinn heildarramma fyrir málefni tónlistar sem lengi hefur vantað. Með þessu viljum við búa tónlistinni hagstæð skilyrði til að vaxa og dafna um ókomna tíð,“
– Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Stefnan inniheldur framtíðarsýn og markmið tónlistar til ársins 2030 auk aðgerða sem mótaðar hafa verið sem liður í að ná tilsettum markmiðum. Aðgerðaáætlun stefnunnar verður í tveimur hlutum. Fyrri hluti, sem kynntur er í stefnudrögunum, gildir fyrir árin 2023-2026. Aðgerðaráætlun sem gilda mun árin 2027-2030 verður mótuð síðar.

Grunnur að tónlistarstefnu var lagður með skýrslu starfshóps um Tónlistarmiðstöð frá árinu 2021. Í framhaldinu var haldinn stefnumótunarfundur með hag- og fagaðilum innan tónlistar auk þess sem leitað var eftir endurgjöf og tillögum frá fjölbreyttum stofnunum og félögum.

Mikilvægt er að almenn sátt sé um þá stefnu sem er mörkuð í málefnum tónlistar og að stjórnvöld hafi sem besta innsýn inn í ólík sjónarmið. Með birtingu í Samráðsgátt gefst tækifæri til enn breiðara samráðs og því er hér kallað er eftir umsögnum um innihald, áherslur og aðgerðir þær sem lagðar eru til í þessum drögum. Í framhaldinu verður unnið úr þeim ábendingum sem berast og lokaútgáfa stefnunnar og fyrri aðgerðaáætlun lögð fram.

Umsagnarfrestur er 17.08.2022–31.08.2022. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.

– Sigtryggur Baldursson
framkvæmdarstjóri ÚTÓN

Iceland Music