MMF og shesaid.so stofna deildir á Íslandi yfir Iceland Airwaves hátíðina
Yfir Iceland Airwaves hátíðina voru stofnaðar íslenskar deildir tveggja félagasamtaka í tónlistarbransanum, MMF (Music Managers Forum) og shesaid.so. Hvoru tveggja eru samtök sem starfa erlendis, en nú hefur grasrótin á Íslandi staðið fyrir opnun Íslandsdeilda beggja samtaka.
Þó samtökin þjóni hvor sínum tilgangi, eiga þau það sameiginlegt að efla tengslanet fagaðila í tónlist hér innanlands, en eru á sama tíma í virku samtali við alþjóðlega starfsemi erlendis. Okkur hjá ÚTÓN þykir ánægjulegt að sjá aukna breidd í íslensku tónlistarlífi en það er einkar ánægjulegt að sjá hvernig tónlistargeirinn styrkist nú í auknu mæli.
MMF: MUSIC MANAGERS FORUM
Stofnun MMF Iceland fór fram á Kex Hostel þann 1.nóvember síðastliðinn en hugmyndin að stofnun Íslandsdeildarinnar kom til í upphafi árs þegar ÚTÓN stóð fyrir samráðsfundi umboðsmanna.
MMF (Music Managers Forum) er stærsta tengslanet umbosðmanna í heimi. Það var stofnað 1992 sem hagsmunasamtök fyrir umboðsmenn með það að markmiði að bjóða upp á vettvang til tengingar þar sem skipst er á þekkingu, tækifærum og gagnlegum upplýsingum. Í dag eru 1200 meðlimir í Bretlandi og 2700 í Bandaríkjunum. Tilgangur samtakanna er ekki bara að styrkja tengslin innbyrðis heldur vera hagsmunasamtök fyrir umboðsmenn sérstaklega út á við og gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum í tónlist.
“Umboðsmenn halda utan um ímyndarsköpun og viðskiptaferla ákveðinna tónlistarverkefna, vinna í tengslamyndun og tækifærum fyrir sitt tónlistarfólk og eru mjög mikilvægur hlekkur í framgangi slíkra verkefna á alþjóðavettvangi. Verksvið þeirra hefur á síðustu árum verið að víkka út og taka þeir nú æ virkari þátt í mótun ferils þeirra verkefna og listafólks sem þeir starfa með.
-Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN
Hlutverk umboðsmannsins hefur því aldrei verið mikilvægara en á sama tíma flóknara og því vonast samtökin til þess að geta veitt stuðning og fræðslu til íslenskra umboðsmanna, sem og tónlistarfólks á Íslandi sem hyggist starfa með umboðsmönnum, hvort sem það er á erlendri grundu eða hér heima.
Stjórn MMF skipa Sindri Ástmarsson, Árni Þór Árnason, Soffía Kristín Jónsdóttir, Kim Waagenar, Nick Knowles en Anna Jóna Dungal er varamaður. Hægt er að gerast meðlimur MMF Iceland að kostnaðarlausu þetta fyrsta ár en frekari upplýsingar verða kynntar á Facebook síðu samtakanna.
shesaid.so Iceland
shesaid.so er alþjóðlegt samfélag kvenna og kynsegin einstaklinga starfandi í tónlistarbransanum. Samtökin voru upprunalega stofnuð af Andreeu Magdalinu í London árið 2014 en hafa vaxið hratt þar sem nú eru yfir 12 þúsund meðlimir í shesaid.so um allan heim. Íslenska deildin er nítjánda deild samtakanna og bætist því í hóp með New York, Ítalíu, Mumbai og fleirum. Markmið shesaid.so er að vera vettvangur fyrir þau kyn sem hallar á í tónlistarbransanum til þess að tengjast og valdeflast, bæði í sínum eigin samfélögum og á milli menningarheima, sem og að vera málsvari þessa hóps á alþjóðasviðinu.
Konurnar sem standa á bak við stofnun shesaid.so á Íslandi eru þær Anna Jóna Dungal, Hrefna Helgadóttir, Kelechi Amadi and Kim Wagenaar. Þær eiga það allar sameiginlegt er að hafa eytt verulega miklum tíma erlendis þar sem þær fengu að kynnast mikilvægi þess að hafa samfélag til að deila reynslu með og fá stuðning frá varðandi starf þeirra í tónlistarheiminum, sérstaklega þegar kemur að tengingum á alþjóðavísu. Markmið þeirra er að skapa slíkt samfélag hér á landi með þá stefnu að styrkja hvort annað og skapa nýjar tengingar, og jafnframt styrkja innviði í íslensku tónlistarlífi.
shesaid.so Iceland munu hefja störf snemma á árinu 2023 og stefna á að halda fjóra viðburði yfir árið, ásamt smærri mánaðarlegum hittingum til að efla tenglsanet kvenna og kynsegin sem vinna bransamegin í tónlist. Stefna samfélagsins er að fræða, hvetja, tengja og skemmta meðlimum samtakanna og bjóða upp á tækifæri, samvinnu og aukinn sýnileika meðlima, bæði hér á landi og erlendis. Slíkt starf mun þjóna tónlistarmenningu hér á landi með því að jafna völlin fyrir konur og kynbundinna minnihlutahópa og gera þau sýnilegri.
Aðild að shesaid.so verður opin öllum konum og kynsegin einstaklingum sem vinna í tónlistarsenunni hér á landi en aðild verður kostnarlaus fyrsta árið. Aðild gefur meðlimum aðgang að viðburðum og tengslaneti, tækifærum á vinnumarkaði, tengingu við alþjóðlega samfélagið, ásamt ýmsu fleiru.
Fylgist með shesaid.so Iceland á Facebook hópi þeirra.