Jólakveðja frá ÚTÓN
Kæri vinir og vandamenn.
Furðuárið 2020 er nú senn á enda og trúum við því statt og stöðugt að nú séu bjartari tímar framundan.
Það góða sem komið hefur út út þessum erfiðleikum, er að þeir hafa þjappað saman aðilum sem eru í sama geira og hafa þurft að standa saman og mynda hóp sem hefur verið að ræða málefni tónlistarinnar, bæði innan sinna raða og líka gagnvart stjórnvöldum. Þá er ég að tala um aðildarfélög tónlistar, Tónlistarborgina, Útón og fleiri, sem saman mynduðu samráðshóp tónlistariðnaðarins og settu meðal annars í loftið vefsíðuna tonlistartolur.is.
Við hjá Útón höfum þurft að aðlaga okkar starfsemi að kóvinu á árinu og höfum farið í frekara samstarf við aðra aðila í umhverfinu, svo sem Reykjavik Tónlistarborg og aðildarfélögin í tónlist, STEF, SFH, FÍH og FHF til þess að styðja betur við geirann hér heim, m.a. með fræðsluverkefninu Tónatal sem fór í loftið í ágúst og heldur úti vefsíðunni www.tonatal.is sem inniheldur fjölbreytt fræðsluefni, þar á meðal Snöggeldað, fræðslumyndbönd með GDRN og Loga Pedro sem vöktu mikla lukku og voru m.a. sýndir á Sjónvarpi Símans. Önnur samstarfsverkefni voru meðal annars skýrslan um áhrif Covid-19 á tónlistargeirann og Firestarter hraðallinn sem haldinn var í annað sinn í ár.
Þá höfum við haldið áfram kynningum á íslensku tónlistarfólki gagnvart alþjóðlega geiranum en meðal annars vorum við með Aftershowcase viðburð þann 17. nóvember sl þar sem streymt var til boðsgesta í bransanum í Evrópu og Bandaríkjunum, atriðum sem tekin voru upp fyrir Live from Reykjavik - Iceland Airwaves streymið, það var unnið í samvinnu við Senu og Iceland Airwaves, og ekki má gleyma Record in Iceland ráðstefnunni fyrir Bandaríkjamarkað sem haldin var 3. desember í samstarfi við Íslandsstofu og Iceland Naturally, en kynningarverkefnið hefur verið að gefa góða raun, gaman er til dæmis að sjá árangurinn hjá SinfoniaNord á Akureyri.
Tækifærin eru mörg í náinni framtíð þegar fer að þiðna á kóvinu og fólk fer að ferðast aftur og margir í tónlistargeiranum spá framtíð þar sem áhrifa heimstónlistar fari vaxandi með opnun nýrra markaða, og er það til bóta fyrir okkur sem erum hluti af fjölbreyttara málsvæði. Við erum vel undirbúin fyrir það sem koma skal og hlökkum til að vinna með ykkur að áframhaldandi framgangi íslenskrar tónlistar á alþjóðavettvangi.
Við þökkum ykkur fyrir samveruna á síðasta ári og horfum björtum augum til næstu ára!
Gleðilega hátíð
Sigtryggur, Bryndís og Martin
Starfsfólk ÚTÓN