Miðvikudaginn 11. mars verða íslensku tónlistarverðlaunin veitt í Silfurbergi í Hörpu
Miðvikudaginn 11. mars verða íslensku tónlistarverðlaunin veitt í Silfurbergi í Hörpu. Síðasta ár var blómlegt í íslensku tónlistarlífi og fjöldi innsendinga bera þess merki. Fram kemur á heimasíðu Ístón að innsendingar í ár í alla flokka hátíðarinnar eru fleiri en árið áður sem er jákvæð þróun. Hildur Guðnadóttir stal senuninni á árinu sem var að líða og hún hefur unnið til flestra verðlauna sem í boði eru þegar kemur að tónlist í kvikmyndum og þáttum, fyrir myndina Joker og þættina Chernobyl en hún er einmitt með tvær tilnefningar, útgáfa ársins - leikhús og kvikmyndatónlist fyrir þættina Chernobyl og upptökustjórn ársins - þvert á flokka fyrir Chernobyl en hún er þar tilnefnd ásamt Sam Slater.
Vök, Sykur, Ingi Bjarni Skúlason, Hatari, Hipsumhaps, Grísalappalísa, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan, Myrkir músíkdagar, ADHD og Einar Scheving hlutu flestar tilnefningar fyrir árið 2019.
Annars má fá nánari upplýsingar um þá sem tilnefndir eru á heimasíðu Ístón og rökstuðning dómnefndar.