Takk fyrir árið 2021
Komið sæl vinir fjær og nær.
Nú er komið að lokum þessa árs og maður hugsar sitthvað, en hvað skal segja?, þetta er búið að vera erfitt um margt fyrir tónlistina, og sérstaklega þann hluta sem treystir mikið á lifandi flutning. Á móti er ýmislegt sem hefur gengið vel og kannski gott að staldra við og skoða aðeins jákvæðu punktana í tilverunni.
Í fyrsta lagi hefur þeim höfundum sem vinna við að búa til tónlist fyrir hverskyns myndefni fjölgað enda mikill vöxtur í geiranum og líka tölvuleikjum, og svo er byrjað að bókast í hljóðverin, og ekki bara fyrir norðan í Sinfonia Nord í Hofi, það er líka að bókast nær Reykjavik, í Hafnarfjörð og nærsveitir:-)
Við höfum heldur ekki setið auðum höndum á árinu, heldur sníðum okkur bara stakk eftir vexti. Hér er smá annáll yfir þau verkefni sem ÚTÓN hefur unnið á árinu sem áhugasöm geta skoðað hér fyir neðan.
Útflutningssjóður
Hlutverk Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar er að styrkja íslenskt tónlistarfólk við að koma tónlist sinni til stærri áheyrendahóps, á stærri markaði og auka möguleika þess á velgengni utan Íslands. Verk sjóðsins er tvíþætt, að styrkja tónlistarfólk í tónleikaferðalögum erlendis með ferðastyrkjum sem veittir eru mánðarlega og svo markaðsstyrkjum sem eru yfirleitt veittir ársfjórðungslega.
Þar sem kórónuveirufaraldurinn hefur lagst sérstaklega þungt á tónleikaferðalög hefur eftirsókn í ferðastyrki hrunið núna árin 2020 og 2021. Árið 2021 voru veittar 5,450,000 kr. í ferðastyrki og 12,550,000 kr. í markaðsstyrki, en það er viðsnúningur á hlutfalli milli ferðasstyrkja og markaðsstyrkja frá árinu 2019 síðasta árs sem tónleikahald fór fram með eðlilegum hætti. Það ár voru alls veittar 14,500,000 kr. í ferðastyrk og 8,200,000 kr. í markaðsstyrki. Árið 2019 voru veittar alls 22.7 milljónir króna í Útflutningssjóð en framlag Mennta- og menningarmálaráðuneytisins í sjóðinn hefur síðan verið lækkað, þannig í ár var upphæðin sem var úthlutað var 18 milljónir.
Strax í febrúar fengu tvöfalt fleiri markaðsstyrki en vanalega sem eins og segir, er óvenjulegt fyrir sjóðinn, en sýnir að íslenskt tónlistarfólk er í auknum mæli að sækjast eftir styrkjum til að framkvæma stærri og fjölbreyttari kynningarverkefni á erlendum mörkuðum. Sjóðurinn ákvað að vera með aukaúthlutun í desember á markaðsstyrkjum til að koma til móts við tónlistarfólk í þessum erfiðu aðstæðum.
Hér má sjá hvaða verkefni voru styrkt í kynningar fyrir febrúar, maí, ágúst, nóvember og desember.
NOMEX - Norrænt samstarf á árinu
NOMEX er samstarfsvettvangur norrænu tónlistarútflutningsskrifstofanna, en hlutverk þeirra flestra er ekki bara að kynna norræna tónlist á alþjóðavísu heldur jafnframt styðja við uppbyggingu á innviðum tónlistarbransans í hverju landi fyrir sig.
Coffee with the Nordics
Tilgangur seríunnar er að gera vinnuna sem á sér stað á bak við tjöldin í tónlistarbransanum aðgengilega fyrir tónlistarfólk, bransafólk og áhugafólk um tónlistariðnaðinn. ÚTÓN hélt tvo viðburði undir þessum merkjum: annan eingöngu á Zoom þar sem rætt var við þá Atla Örvarsson og Colm O’Herlihy, stofnendur iNNI Music og svo var haldin ‘live’ viðburður sem var líka streymt þar sem við gægðumst á bak við tjöldin hvernig tónlist fyrir seríuna KATLA var sett saman og við ræddum við þá Sigurjón Kjartansson og Högna Egilsson.
Bergþór Másson & Ægir Sindri Bjarnason viðurkenndir af norræna tónlistarbransanum sem ‘20 UNDER 30’
Ægir Sindri Bjarnason og Bergþór Másson hlutu norræna viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf í þágu tónlistargeirans á Íslandi, ‘Top 20 Under 30 – Nordic Music Biz’. Verðlaunaathöfnin fór fram á By:Larm hátíðinni í Osló í haust þar sem þeir tóku báðir á móti verðlaununum.
Trade Mission Ja Ja Ja í London
Ja Ja Ja hefur haldið showcase kvöld í London og Berlín núna í 10 ár til að opna breska og þýska markaðinn fyrir norrænu tónlistarfólki. Eins og gefur að skilja hafa þessi kvöld nú ekki verið haldin síðan 2019, þannig í Nóvember var ákveðið að halda ‘Trade Mission’ til að skipuleggja útfærslu á komandi misserum. Fyrir Ísland fóru Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir frá Iceland Sync og Kim Wagenaar frá Peer Agency.
Fræðsluviðburðir
Eitt mikilvægasta hlutverk ÚTÓN er að efla útflutningshæfni íslenskra tónlistarmanna og fyrirtækja sem starfa í geiranum með því að miðla þekkingu inn í greinina. Þetta er gert með því bæði að fá erlenda fagaðila til landsins, en líka halda viðburði þar sem hérlendir fagaðilar miðla þekkingu sinni áfam.
PUBLISHING VINNUSTOFA
Í vor var til að mynda haldin vinnustofa um ‘publishing’, en það er sú hlið tónlistariðnaðarins er snýr að því að vernda höfundarrétt tónverka og reyna að auka verðmæti þeirra á alþjóðamarkaði, til dæmis með því að koma þeim í kvikmyndir og sjónvarpsþætti.
FRÆÐSLULÖNS
Okkur finnst yfirleitt betra að halda viðburði í eigin persónu þegar það er í boði, en það var því miður erfitt að framkvæma stundum vegna fjöldatakmarkana. Því var ákveðið að miðla gagnlegum upplýsingum um útgáfur og kynningarmál yfir Zoom í sex viðburða seríu sem haldin var í vor.
Allir fyrirlestrarnir eru aðgengilegir á vef ÚTÓN, og svarað var spurningum á borð við: ‘Hvernig undirbý ég mig fyrir útflutning?’, ‘Hvernig tek ég þátt í showcase festivali eins og Iceland Airwaves?’, og ‘Hvernig finn ég markaðinn minn erlendis?’ sem og kynning á ferða- og markaðsstyrkjum Útflutningssjóðs og Record in Iceland endurgreiðslunum.
Markmið ÚTÓN er að auka útflutning á íslenskri tónlist og er lykilþáttur í því verkefni að byggja upp þekkingu innanlands og styðja við iðnaðinn hér heima.
BRANSAVEISLA
Við stóðum fyrir umsvifamikilli viku af fræðandi og uppbyggilegu efni fyrir íslenska tónlistarbransann í fyrstu viku nóvember, ásamt frábærum samstarfsaðilum: Íslandsstofu, STEF, Tónlistarborginni Reykjavík, INNI, Samband Íslenskra Kvikmyndaframleiðanda, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Listaháskóla Íslands, og RIFF. Var vikan kölluð Bransaveisla, og var haldin í þeirri viku sem er helguð tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í venjulegu árferði,
Viðburðirnir sem haldnir voru eru þeir sem upprunalega voru hugsaðir í tengslum við ráðstefnuhluta Iceland Airwaves. Þegar hátíðinni var frestað ákváðum við hinsvegar að halda þeim til streitu og bættum í.
Vikan hófst með málþingi um kvikmyndatónlist, síðan tóku við fundir með tónlistarforleggjurum (publishers), masterklassar í tónlistarstjórn fyrir myndefna framleiðslu (music supervision) og umboðsmennsku fyrir hverskyns tónlistarverkefni, ásamt fyrirlestrum, pallborðsumræðum um samningagerð, tónleikum fyrir norræna bókara og Studio Safari, þar sem farið var með marga erlenda gesti í ferðalag um nokkur íslensk hljóðver og endurgreiðslukerfið fyrir hljóðritun á íslandi kynnt fyrir þeim. Þessi vika endaði síðan í Live from Reykjavik streymistónleikum á vegum Iceland Airwaves þar sem 16 íslensk tólistaratriðu léku fyrir áhorfendur, bæði í sal og á streymi um allan heim.
Þessa sömu viku komu 18 einstaklingar til landsins undir merkjum ‘European Music Business Task Force’ en það er verkefni sem tónlistarborgir Evrópu halda utan um. Markmiðið er að vinna að eflingu innviði tónlistarbransans innan Evrópu. Þá var og haldið norrænt þing tónleikahaldara í Reykjavík. Stóðum við, í samstarfi við Tónlistarborgina og Iceland Airwaves, að tónleikum fyrir þessa aðila í Iðnó til þess að þau gætu séð fjölbreytt íslensk tónlistaratriði.
TÓNATAL kynnir
Tónatal er samstarfsverkefni sem ÚTÓN ásamt Tónlistarborgarinni Reykjavík, STEF, SFH, og Íslandsstofu stofnaði í fyrra eftir til að miðla fræðsluefni inn í bransann í formi myndbanda og hlaðvarpa til að gera það meira aðgengilegt fyrir sérstaklega nýliða í okkar fagi sem eru að stíga sín fyrstu skref.
Bransakjaftæði með Bergþóri Mássyni
Bergþór Másson er þáttastjórrnandi annarrar seríu hlaðvarpsins Bransakjaftæði, sem gefið er út undir merkjum Tónatals og er hægt að finna á Spotify, Apple Podcasts, á Vísi og var útvarpað á 101 Radio.
Í hverjum þætti fékk Bergþór Másson til sín góðan gest, en serían samanstendur af 8 þáttum með eftirfarandi viðmælendum: Ólafur Arnalds, Sindri Ástmarsson, Hildur Kristín, Egill Ástráðsson, Esther Þorvaldsdóttir, Sigtryggur Baldursson, Pálmi Ragnar Ásgeirsson og Sóley Stefánsdóttir.
Þættirnir hafa fengið frábærar viðtökur og við þökkum öllum hlustunina á árinu.
Aukning á Spotify fylgjendum Iceland Music
Iceland Music hefur lengi haldið úti lagalistum á Spotify. Í ár var ákveðið að setja áherslu á kynninguna á þeim öllum sem heild, meðal annars með því að auglýsa þá í bílaleigubílum fyrir þá ferðamenn sem sækja okkur heim sem vilja kynnast tónlistinni okkar betur.
Svavar Knútur sem átti hugmynd að verkefninu segir:
„Þetta fólk langar langflest að heyra íslenska tónlist en veit oft ekki hvernig á að nálgast hana almennilega. Það er borðliggjandi að koma til móts við þennan stóra hóp.“
Alls heldur ÚTÓN úti meira en 20 lagalistum á Spotify og uppfærir vikulega samkvæmt ferli sem er lýst hér. Langstærsti listinn er Icelandic Indie en hann fór nýverið yfir 20.000 fylgjendur, en þeir hafa allir vaxið á árinu.
Verðlaun á árinu
Skrifstofa ÚTÓN var þáttakandi í tveimur verkefnum sem voru viðurkennd á árinu.
Verðlaunin voru:
Global Music Match - Alþjóðlega samstarfsverkefnið sem Ösp Eldjárn tók þátt í sumar fyrir hönd Íslands var á dögunum heiðrað með verðlaunum WOMEX hátíðarinnar fyrir framúrskarandi faglega umgjörð (e. WOMEX 21 Professional Excellence Award). Womex sagði í tilkynningu um hvers vegna Global Music Match var verðlaunað:
„Undanfarið eitt og hálft ár hefur verið eitt erfiðasta tímabil í sögu alþjóðlegs tónlistariðnaðar. Allt í einu og með nánast engum fyrirvara hvarf tónleikahald í heiminum. Tónlistarfólk sem og áhorfendur reyndu öll tiltæk ráð til að finna leiðir til að tengjast án þess að yfirgefa heimili sín. Oft er mótlæti af þessu tagi sem leiðir til nýsköpunar og þar kemur Global Music Match inn. Forsendan er einföld: þjóðlagatónlistarfólk kynnir hvert annað og þar með nær hvert þeirra tengslum við áhorfendur út fyrir sína eigin landsteina ásamt því að mynda ný fagleg tengsl.
ÚTÓN tók líka þátt árið 2020 og þá voru íslenskir þáttakendur þau Ásgeir Ásgeirsson, hljómsveitin Brek og Svavar Knútur.
Record in Iceland - hlaut Útflutningsverðlaun á Degi íslenskrar tónlistar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra og Bryndís Jónatansdóttir, verkefnastjóri Record in Iceland tóku á móti verðlaununum. Um verkefnið segir dómnefnd:
Record in Iceland hlýtur Útflutningsverðlaun Dags íslenskrar tónlistar fyrir hið verðuga verkefni og öfluga kynningarátak sem felst í því að hvetja tónlistarfólk um allan heim til hljóðritunar hér á Íslandi. Átakið er á vegum ÚTÓN (Útflutningsstofu íslenskrar tónlistar) vegna endurgreiðslu hljóðritunarkostnaðar sem fellur til á Íslandi.
Kynningarátakið er unnið í samvinnu við Utanríkisráðuneytið, Íslandsstofu og Reykjavík tónlistarborg. Verkefnið er einnig styrkt af Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu sem var og hét. Record in Iceland er handhafi Útflutningsverðlauna Dags íslenskrar tónlistar og voru það þær Bryndís Jónatansdóttir frá ÚTÓN og Lilja Alfreðsdóttir menningar-, ferða og viðskiptamálaráðherra sem tóku á móti viðurkenningunni.
Record in Iceland er samstarfsverkefni ÚTÓN, Utanríkisþjónustunnar, Íslandsstofu og Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur en verkefnið er styrkt af Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneytinu (áður Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið) og er markmið verkefnisins að kynna Ísland sem upptökuland.
Teymið stækkar!
Í ár var Hrefna Helgadóttir ráðin í nýja stöðu sem verkefnastjóri markaðs- og kynningarmála hjá ÚTÓN.
Kveðja frá ÚTÓN
Árið var að sönnu erfitt fyrir marga í tónlistargeiranum, en við þurfum að horfa frammá við og halda áfram að finna leiðir til þess að koma íslenskri tónlist og tónlistarfólki á framfæri alþjóðlega.
Nú er komið á koppinn nýtt ráðuneyti Menningar og Skapandi greina, Viðskipta og Ferðaþjónustu, og bindum við miklar vonir við aukinn stuðning við markmið okkar að efla listgreinina okkar sem starfsgrein og gera fleirum kleift að stækka starfshlutfall sitt í tónlistarsköpun og flutningi.
Við horfum brött fram á veginn og ætlum okkur að vera með mikla dagskrá á næsta ári sem verður aðgengileg á vef okkar uton.is og hvetjum við alla þá sem áhuga hafa á að fara með sína tónlist á stærri markað að kynna sér hana og vera í sambandi við okkur.
Með bjartsýnni kveðju í lok árs:-)
– Sigtryggur Baldursson,
Framkvæmdarstjóri ÚTÓN/Iceland Music