Fræðslukvöld ÚTÓN: Dagskrá 2022 & 'Gigs Abroad' sett í loftið

Markmið ÚTÓN er að skapa sóknarfæri fyrir íslenska tónlist erlendis. Í fyrsta fræðslukvöldi ársins kynnum við dagskrá ársins 2022 og hvernig útflutningshæf verkefni geta nýtt sér þau tækifæri sem eru framundan, og þann vettvang sem Iceland Music býður upp á.

Fyrir þau sem eru ný í útflutningi rennum við yfir það fræðsluefni sem er til staðar, bæði til að skilja umhverfið og að gera verkefnin útflutningshæf (“export ready”). Við kynnum svo þau tækifæri sem eru skipulögð fyrir árið, eins og til dæmis tónlistarhátíðir, alþjóðleg samstarfsverkefni, ráðstefnur sem og nýstárleg tækifæri á borð við lagahöfundabúðir og önnur alþjóðleg samstarfsverkefni.

Við minnum á að því vænlegra sem verkefni er til útflutnings, því betur er hægt að nýta þessi tækifæri. Því leggjum við árið upp með að segja ykkur hvað er framundan hjá okkur og vonum að það nýtist ykkur í að skipuleggja hvernig má nýta þau tækifæri til að ná ykkar markmiðum.

Rannsóknir benda til þess að ónæmi náist fljótt í baráttunni við Covid og þetta ár hefur alla burði til að verða gott í tónleikahaldi þó það gæti byrjað betur…
— Sigtryggur Baldursson, framkvæmdarstjóri ÚTÓN

Undanfarin ár hefur tvímælalaust náðst mikill árangur í sérstaklega kynningarmálum, þar sem lagalistarnir okkar á Spotify fóru yfir 30.000 fylgjendur á árinu sem var að líða, fylgjendur okkar á fréttabréfum nálgast 10.000 og á samfélagsmiðlum nálgast nú 50.000 samtals, og er þar vörumerkið Iceland Music langstærst. 

Við straumlínulöguðum ferlið fyrir lagalistana á Spotify árið 2021 með frábærum árangri, og í ár setjum við stefnuna á tónleikaferðalögin með því að setja aftur af stað endurbættta útgáfu af Gigs Abroad sem kynnt verður sérstaklega sem unnin hefur verið í samstarfi við hið íslenska Mobilitus.

Þess vegna langar okkur að kynna sem allra best fyrir ykkur í tónlistarbransanum hér heima hvernig má nýta þann vettvang sem byggður hefur verið upp í vörumerkinu Iceland Music, sem flokkast að mestu leyti í þrennt: 

  1. Iceland Music fréttabréf og samfélagsmiðlar

  2. Spotify Lagalistar

  3. Gigs Abroad 

Á meðan smittölur eru enn háar, bindum við miklar vonir við að á árinu 2022 opnist möguleika fyrir íslensk tónlistarverkefni til að geta spilað meira erlendis en síðastliðin ár. En til að hafa allan vara á, höldum við þennan viðburð á Zoom þann 20. janúar klukkan 16:00. 

16:00     Verum klár í útflutning 2022

16:10      Dagskrá ÚTÓN á árinu kynnt

16:20     Hvernig má nýta sér Iceland Music vettvanginn

16:45     Spurningar og tengslamyndun

Skráning er opin fyrir öll og fer fram á Facebook síðu ÚTÓN>>

Við hvetjum ykkur endilega til að mæta á Zoom með kleinur og kaffi (eða eitthvað sterkara), vera með myndavélina á, og nýta tækifærið til að setja upp farsælt 2022 fyrir ykkar heimsyfirráð í tónlist.

Iceland Music