ÚTÓN kynnir Fræðslulöns – fræðsluviðburði um útgáfu, kynningarmál, og undirbúning fyrir útflutning.

2.png

ÚTÓN setur af stað viðburðarseríu í maí undir nafninu ‘Fræðslulöns’ sem streymt verður á hverjum fimmtudegi út júní. Markmið seríunnar er að deila með tónlistarfólki þeim upplýsingum sem það þarf til að undirbúa útgáfur, kynningar og tónleikaferðalög eftir meira en ár af ferðatakmörkunum.  

Alls verður sex fyrirlestrum streymt yfir Zoom.

20.05 Fræðslulöns "Hvernig undirbý ég mig fyrir útflutning?"

Í þessum fyrsta fræðslulöns ÚTÓN kynna þær Bryndís og Hrefna sín störf um hlutverk ÚTÓN í tónlist á Íslandi. Ein mikilvægasta skilgreiningin sem þau vinna út frá er að byggja upp íslenskt tónlistarfólk til að verða “export ready”, en það þýðir að tónlist þeirra sé aðgengileg alþjóðlega á helstu streymisveitum, þau hafi a reynslu af því að spila tónlist sína á lifandi vettvangi, og hafi sett upp umgjörð um sig sem nýtist í markaðssetningu. Einnig þarf fólk að skoða þann markað sem það vill taka þátt í.

Jafnframt munu þau kynna hvernig er best að nýta sér þá styrki, ráðgjöf og vegvísa sem ÚTÓN býður upp á. Markmið ÚTÓN er að auka útflutning á íslenskri tónlist og er lykilþáttur í því verkefni að byggja upp þekkingu innanlands og styðja við iðnaðinn hér heima.


27.05 ÚTÓN kynnir ferða- og markaðsstyrki útflutningssjóðs

Eitt verkefna ÚTÓN er að umsýsla útflutningssjóð sem veitir ferða- og markaðsstyrki og er með þriggja manna stjórn sem fer yfir umsóknir. Ferðastyrkir eru veittir mánaðarlega og eru að jafnaði upp á 50.000 krónur á mann og er sérstaklega hugsað sem styrkur við tónleikaferðalög. Markaðsstyrkir eru svo veittir fjórum sinnum yfir árið og ætlaðir til að framkvæma kynningarverkefni á erlendum markaði.

Markmið ÚTÓN er að auka útflutning íslenskrar tónlistar og þessar styrkveitingar eru lykilþáttur í þeirri vegferð að koma íslenskri tónlist inn á erlendan markað. Bryndís mun fara yfir hvernig þessir styrkjum úr Útflutningssjóði íslenskrar tónlistar er úthlutað og kynna hvernig er best að setja saman sterka umsókn.


03.06 ÚTÓN kynnir: Record in Iceland

Þriðji fræðslulöns ÚTÓN verður þann 3. júní í hádeginu á zoom og snýr að því hvernig endurgreiðslur á 25% af hljóðritunarkostnaði ganga fyrir sig. Endurgreiðslurnar hafa verið kynntar undir nafninu Record in Iceland. Þetta er stutt af Atvinnuvega- og Nýsköpunarráðuneytinu og miðar að því að byggja upp upptökuhliðina af íslenska tónlistariðnaðinum, og hefur íslenskt tónlistarfólk verið að nýta sér endurgreiðslurnar í nokkur ár, en þetta fyrirkomulag hefur reynst vel í kvikmyndaiðnaðinum hér á landi eins alþekkt er orðið.

Markmið ÚTÓN er að auka útflutning íslenskrar tónlistar t.a.m. með að byggja upp innviði þess iðnaðs sem það starfar í, og gegnir upptökuiðnaðurinn þar lykilhlutverki. Record in Iceland var hleypt af stokkunum árið 2019 í samstarfi við ráðuneytin, Reykjavíkurborg og Íslandsstofu.

10.06 "Hvernig tek ég þátt í showcase festivali eins og Iceland Airwaves?"

Í þessum fræðslulöns fær ÚTÓN til sín góðan gest, Will Larnach-Jones, framkvæmdarstjóra Iceland Airwaves, en hann hefur yfirumsjón með bókunum fyrir tónlistarhátíðina. Bryndís mun ræða við Will um hvernig best er að undirbúa sig fyrir svokallað “Showcase festival” eins og Iceland Airwaves er, en það eru tónlistarhátíðir sem sérhæfa sig sérstaklega í að koma upprennandi tónlistarfólki á framfæri. Hátíðir af þessu tagi eru stundum kallaðar “baksviðspassi að tónlistarbransanum” þar sem alþjóðlegt fagfólk í tónlistariðnaðinum sem annars getur verið erfitt að komast í snertingu við, mætir sérstaklega til að finna spennandi nýja tónlist.

Markmið ÚTÓN er að auka útflutning íslenskrar tónlistar og ein besta leiðin fyrir tónlistarfólk til að bæði öðlast reynslu á lifandi flutningi og komast í snertingu við alþjóðlega tónlistariðnaðinn er að spila á ‘Showcase’ tónlistarhátíðum eins og Iceland Airwaves.

16.06 "Hvernig finn ég markaðinn minn erlendis?"

Í þessum fræðslulöns fær ÚTÓN til sín góðan gest, Önnu Jónu Dungal, sem hefur kennt námskeiðið ‘Innsýn og undirbúningur fyrir erlendan tónlistarmarkað’ á Skýinu. Þær Hrefna og Anna Jóna munu ræða sín á milli hvaða umgjörð tónlistarfólk þarf til að koma sér á framfæri erlendis, hvernig skal markaðssetja sig og finna markaðinn sinn.

Markmið ÚTÓN er að auka útflutning íslenskrar tónlistar og gegnir markaðssetning þar lykilhlutverki bæði til að auka athygli á íslenskri tónlist almennt en einnig skiptir miklu máli að hvert tónlistarverkefni geti byggt upp eigin fylgjendur, sem er grunnurinn að farsælum ferli í tónlist.



24.06 "Hvernig skrái ég lögin mín?"

Í þessum síðasta fræðslulöns býður ÚTÓN samstarfsaðilum sínum hjá STEF og SFH, sem heldur úti hljodrit.is, að koma og kynna hvernig best er að skrá lögin sín og afhverju það er mikilvægt að skrá tónverkin sín. Vissir þú að skráning á verkum þínum er grundvöllur þess að þú getir fengið höfundarréttartekjur greiddar? Höfundarréttargreiðslur eru verulegur hluti af tekjustreymi margra tónlistarmanna og því til mikils að vinna að gera þetta rétt.

Við hvetjum allt tónlistarfólk til að skrá sig á viðburðina okkar, hvort sem það er upprennandi hæfileikafólk eða reynsluboltar sem eru að koma sér af stað aftur eftir covid-dvalann. 

Fyrirlestrarnir eru ókeypis og opnir öllum. Sá fyrsti verður haldinn í hádeginu 20. maí klukkan 12:00, og verða svo vikulega út júní. Skráning fer fram á Facebook viðburðum ÚTÓN.