Vinnustofa um publishing
Lítið hefur farið fyrir publishing innan tónlistargeirans á Íslandi. Fyrirbærið publisher kallast á íslensku "tónlistarforlag/tónlistarforleggjari" og snýr að allskyns verkefnum er tengjast hugverki höfunda. Oft veita tónlistarforleggjarar þjónustu á borð við að aðstoða tónskáld og lagahöfunda með að koma verkum sínum í þætti og kvikmyndir, skipuleggja lagahöfundabúðir, halda utan um höfundarréttartekjur og margt fleira. Mismunandi er hvaða þjónustu þeir veita og fer það einnig eftir þörfum höfundarins. Tónlistarforleggjarar beita sér fyrir því að skapa tækifæri fyrir höfunda og geta góðir publishing samningar því verið góð tekjulind fyrir tónhöfunda og tónskáld.
Þann 13. júní munu ÚTÓN og STEF efna til vinnustofu/fræðslufundar þar sem farið verður yfir grunnatriði og ýmsa þætti er varða tónlistarforleggjara. Vinnustofan samanstendur af fyrirlestrum, pallborðsumræðum og reynslusögum en einnig mun listmeðferðarfræðingurinn Elísabet Lorange mæta á svæðið og leiða æfingu fyrir þátttakendur sem snýr að því að finna út sína vegferð í heimi tónlistarforlaga - þ.e. hvert þátttakendur eru að stefna sem tónskáld/tónhöfundar og hvort, og þá hvaða, þjónusta tónlistarforleggjara myndi henta fyrir þá.
Meðal atriða sem farið verður yfir eru:
Hlutverk tónlistarforleggjara – hvaða þjónustu þeir veita.
Réttindamál – hvað ber að hafa í huga og varast í samningagerð við forleggjar.
Ýmsar gerðir tónlistarforleggjara og lagahöfunda - ,,hver er ég sem lagahöfundur og hvernig publisher hentar mér/hverjar eru mínar þarfir?“
Hvernig finn ég forleggjara?
Vinnustofan verður kl. 10-15 þann 13. júní og er þátttökugjald 4.900 kr. Innifalið í verði er einnig hádegismatur og kaffiveitingar.