Nordic Folk Alliance – showcase hátíð í Gautaborg

Nordic Folk Alliance, tónlistarhátíð, ráðstefna og alþjóðavettvangur fyrir norrænt þjóðlagatónlistarfólk sem haldin er í Gautaborg í apríl. Þrjú íslensk tónlistaratriði koma fram, Svavar Knútur, Blood Harmony og Umbra.

 
 

Nordic Folk Alliance kynnir með stolti tónlistarhátíð og ráðstefnu sem haldin verður í annað sinn þann 20-22. apríl 2022 í Gautaborg í Svíþjóð. Hátíðin er alþjóðlegur vettvangur fyrir þjóðlagatónlist (e. ‘folk music’) og er sú stærsta sinnar tegundar á Norðurlöndunum. Á hátíðinni koma saman fagaðilar og unnendur þjóðlagatónlistar og skapa vettvang fyrir rísandi stjörnur á markaðnum. Fulltrúar Íslands á Nordic Folk Alliance 2022 eru Svavar Knútur, Blood Harmony og Umbra.

Þjóðlagatónlist nær til þeirrar tónlistarstefnu sem berst manna millum í gegnum aldirnar og byggir á sagnahefð. Tónlistin er oft rödduð eða leikin á hefðbundin hljóðfæri og nýtur sín best í lifandi flutningi. Umbra byggir frumsamdar útsetningar sínar á íslenskri og evrópskri miðaldatónlist, Blood Harmony er hljómsveit úr Svarfaðardal en þau systkinin Ösp, Örn og Björk Eldjárn byggja tónlist sína á fjölskylduarfleifð. Svavar Knútur sömuleiðis byggir tónlist sína á sögu forfeðra sinna og hefur unnið sér inn dyggan alþjóðlegan fylgjendahóp með einlægum og persónulegum flutningi.

 
 
Iceland Music