Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar og ÚTÓN kynna 40 milljón króna átaksverkefni

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar og ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar) kynna nýtt átaksverkefni þar sem íslenskt tónlistarfólk getur sótt sérstaklega um framleiðslu á kynningarefni í sjóðinn. Þetta kemur til viðbótar við ferða- og markaðsstyrki sem þegar er hægt að sækja í sjóðinn. 

Á dögunum tilkynnti Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra 40 milljón króna viðbótarframlag í Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Þetta framlag kemur til vegna þeirra alvarlegu áhrifa sem heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft á tónlistargeirann og þann samdrátt sem hefur átt sér stað á verðmætasköpun hans, sérstaklega fyrir þá aðila sem byggja tekjuöflun sína að mestu á viðburðahaldi.

Umsóknir um ferðastyrk eru afgreiddar mánaðarlega eins og áður. Ákveðið hefur verið að hækka styrkina til að koma til móts við aukinn ferðakostnað. Ferðastyrkurinn fer úr 50.000 kr á einstakling upp í 75.000 kr fyrir ferðalög innan Evrópu og 100.000 á einstakling fyrir ferðalög utan Evrópu. Hvert verkefni getur fengið styrk fyrir að hámarki 8 manns í hvert skipti. 

Umsóknir um markaðsstyrk eru yfirleitt afgreiddar ársfjóðungslega en nú hefur verið bætt við tveimur auka-úthlutunum yfir árið og verða þær því alls sex yfir árið. Næsti umsóknarfrestur til að sækja um ferða- og/eða markaðsstyrk er 1. apríl. Nú er hægt að sækja um styrk fyrir kynningarefni sem hluta af markaðsstyrkjum. 

„Við höfum lengi bent á að það þurfi að efla Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar. Það er því einstaklega ánægjulegt að við skulum fá þetta aukaframlag í viðspyrnuaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Við finnum að það er þörf á að efla markaðsefni og markaðssetningu núna þegar íslenskir tónlistarmenn komast aftur út í heim.” 
– Anna Hildur Hildibrandsdóttir, stjórnarformaður Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar”

Sigtryggur Baldursson framkvæmdastjóri ÚTÓN segir ánægjulegt og mikilvægt að hægt sé að efla markaðssetningu á íslenskri tónlist nú þegar heimsfaraldri sé að ljúka. 

„Við höfum séð mikinn samdrátt í tekjum tónlistarmanna undanfarin tvö ár og því mikilvægt að við spyrnum við fótum núna bjóðum öflugan stuðning fyrir verkefni sem eru tilbúin í útflutning.”
–Sigtryggur Baldursson, framkvæmdastjóri ÚTÓN 

Stjórn útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar og ÚTÓN bjóða íslensku tónlistarfólki og fagaðilum í tónlistargeiranum á kynningarfund um átakið og um hlutverk og starfsemi sjóðsins í Húsi Máls og Menningar 24. febrúar klukkan 17:00. Linkur og skráning fer fram á Facebook event ÚTÓN.

Næsti frestur til að sækja um í Útflutningsjsoð er FYRIR 1. APRÍL og er opið fyrir umsóknir í ferða- og markaðsstyrki ásamt hinum nýja styrk í framleiðslu á kynningarefni.

Iceland Music