Fáðu lögin þín á lagalista Iceland Music – við viljum heyra í þér!

Hvaða lagalista ertu að tala um?

ÚTÓN heldur uppi vörumerkinu Iceland Music sem vinnur að því að koma íslenskri tónlist á framfæri á erlendum mörkuðum. Þessvegna höldum við uppi 18 lagalistum, til þess að safna saman nýrri íslenskri tónlist á einn stað, svo að erlendir hlustendur eigi greiðara aðgengi að ykkar tónlist.

Þessir lagalistar eru eitt mikilvægasta tól sem ÚTÓN býr yfir til að kynna íslenska tónlist á alþjóðamörkuði. Markmið okkar er alltaf að fá meiri athygli fyrir íslenskt tónlistarfólk almennt og því er umsjón og kynning lagalistanna í forgangi hjá teyminu. Við gerum okkur jafnframt grein fyrir mikilvægi þess fyrir tónlistarfólk að fá góða spilun á streymisveitum og því leggjum við metnað okkar í það að byggja upp sterkan fylgjendahóp til að gera það sem verðmætast fyrir tónlistarfólk að komast inn á lagalistana okkar.  

“Ég vil sjá lagið mitt á lagalista Iceland Music!”

Það er mjög auðvelt!!!

  1. Þú sendir spotify link að laginu á playlists@icelandmusic.is

  2. Lagið fer inn á ‘New From Iceland’ listann og helst þar inni í mánuð

  3. ÚTÓN teymið hlustar á öll innsend lög og setjum á viðeigandi lagalista

Til að laða að okkur alþjóðlega hlustendur er mikilvægt að hafa gott jafnvægi á milli laga frá þekktu tónlistarfólki í bland við nýjar útgáfur. Við höfum til hliðsjónar gengi á vinsældarlistum, spilunartölur sem og ‘momentum’ í kringum listamanninn. Við höfum einstakar mætur á þeim sem eru ‘export ready’ en það er tónlistarfólk sem við getum stutt við enn frekar með öðru starfi ÚTÓN eins og ferða- og markaðsstyrkjum. 

ÚTÓN hefur frelsi til að taka ákvarðanir er koma að því í hvaða röð lögin birtast á listanum, og hve lengi hvert lag er á hverjum lista. Það er ekki hægt að ganga út frá því að hafi lag birst á lista hjá okkur þá muni það haldast þar eða halda staðsetningu sinni á listanum. Við viljum ítreka að vegna fjölda laga sem við fáum send þá eru lagalistarnir uppfærðir vikulega og því er lögum reglulega skipt út. 

Við hvetjum ykkur þess vegna til að fylgjast vel með á Spotify þegar lögin ykkar detta inn á Iceland Music lagalista og nýta ykkur sem allra best ‘momentum-ið’ sem skapast við það til að deila laginu ykkar áfram á samfélagsmiðlum, deila lagalistanum og tagga @icelandmusic, og reyna að nýta þetta sem stökkpall í enn stærri lagalista.

 
Iceland Music