Hvernig er best að nýta sér erlendar bransahátíðir (e. showcase)?
Fræðslukvöld ÚTÓN í febrúar var tileinkað showcase hátíðum þar sem bransaaðilar gerðu grein fyrir hvernig má nýta sér hátíðir af þessu tagi. Fyrir þau sem ekki höfðu tök á því að mæta má finna hér samantekt, og svo hefur heimasíða ÚTÓN verið uppfærð með nánari upplýsingum um þær hátíðir sem íslenskt tónlistarfólk hefur sótt í gegnum tíðina.
Á síðasta fræðslukvöldi ÚTÓN í febrúar voru ‘showcase’ hátíðir teknar fyrir.
Áhersla er lögð á þessar hátíðir þar sem þær eru frábrugnar hefðbundnum tónlistarhátíðum þar sem stór hluti tónleikagesta eru aðilar úr tónlistarbransanum þá ýmist bókarar, umboðsmenn, fólk frá útflutningsskrifstofum, plötuútgáfum, PR fyrirtækjum og fleira. Þeim er gjarnan boðið á hátíðina af skipuleggjendum eða koma þangað á eigin vegum til að kynnast öðrum fagaðilum í tónlist, en tengsl eru einstaklega mikilvæg í tónlistariðnaðinum. Annað sem er öðruvísi við showcase hátíðir er að það er hægt að sækja um að koma fram á þeim, oftast á heimasíðu hátíðarinnar, en hefðbundnar hátíðir notast oftast einungis við bókunarskrifstofur og/eða bókunarteymi.
Dagskrá kvöldsins fór þannig fram að Sigtryggur Baldursson frá ÚTÓN fór yfir hvað “bakendavinna fyrir showcase tónlistarhátíð” þýðir sem Valgerður G. Halldórsdóttir frá Tónverkamiðstöð ítrekaði svo frá sjónarhóli tónskálda, en það liggur fyrir að ÚTÓN og Tónverkamiðstöð fari með íslesnkan hóp á Classical:NEXT hátíðina sem haldin verður í Þýskalandi í maí.
Við heyrðum jafnframt frá tónlistarfólkinu Sunnu Gunnlaugs sem talaði um Jazzahead! og Svavari Knút sem fór á WOMEX með ÚTÓN í fyrra og gerði grein fyrir hvernig hátíðir af þessu tagi geta nýst í uppbyggingu á eigin tónlistarferli. Að lokum heyðrum við frá umboðsmanninum Gis Von Ice en hann hefur farið með hljómsveitir á borð við Vök á hátíðir á borð við The Great Escape, Reeperbahn og by:Larm.
Við viljum öllum ykkur sem mættu á síðasta fræðslukvöld, og gerum hér glærurnar aðgengilegar.
Sérstakar þakkir Svavar Knútur, Sunna Gunnlaugs, Gis Von Ice, Valgerður Halldórsdóttir og okkar eigin Sigtryggur Baldursson fyrir að gera viðburðinn fræðandi, skemmtilegan og spennandi.
Nánar um showcase hátíðir hér.
Næsta fræðslukvöld ÚTÓN hefur verið tilkynnt og er kynning á 40 milljón króna átaksverkefni Útflutningssjóðs íslenskrar tónlistar. Skráning á viðburðinn fer fram hér >>