Nýr styrkur til að framleiða kynningarefni fyrir markaðssetningu á tónlist erlendis

Útflutningssjóður íslenskrar tónlistar og ÚTÓN (Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar) kynnir nýjan styrk fyrir framleiðslu á kynningarefni sérstaklega.

Þetta kemur til viðbótar við ferða- og markaðsstyrki sem þegar er hægt að sækja í sjóðinn. 

Nýr styrkur að 1.000.000 kr

Nýtt framlag frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu inn í Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar sem ÚTÓN umsýslar gerir tónlistarfólki nú kleift um að sækja um nýjan styrk í sjóðinn, en það er styrkur til framleiðslu á kynningarefni. Þessi nýi styrkur kemur til viðbótar við þá ferða- og markaðsstyrki sem staðið hafa til boða, en markmiðið er að koma til móts við vaxandi ákall úr grasrótinni, því hvergi í kerfinu hefur verið hægt að sækja um styrki til framleiðslu á kynningarefni sérstaklega.

Samkeppnin um athygli tónlistarunnenda erlendis alltaf að verða stífari og eru kröfurnar á tónlistarfólk að markaðssetja sig á markvissan hátt sífellt að aukast. Útflutningssjóður hefur séð að sú vinna sem þarf að fara fram í markaðssetningu krefst eiginleika og þekkingar sem nær umfram það að semja góða tónlist, þótt hún komi að sjálfsögðu alltaf fyrst. 

Með þessum nýja styrk sjóðsins er nú hægt að sækja allt að 1.000.000 kr til framleiðslu á kynningarefni sérstaklega sem getur þá verið allt frá framleiðslu á tónlistarmyndböndum eða beinu streymi í stuttar klippur og myndefni fyrir samfélagsmiðla. Þessi nýi styrkur helst samt í hendur við markaðsstyrk Útflutningssjóðs en sé sótt um hinn nýja styrk þarf að fylgja umsókn til markaðsstyrk líka til að gera grein fyrir útflutningsmarkmiðum tónlistarfólksins. Þannig er hægt er að sækja um markaðsstyrk án þess að sækja um styrk til gerðar kynningarefnis, en ekki öfugt.

Góð ráð fyrir umsækjendur

Það sem þarf til að skila inn góðri sameiginlegri umsókn í markaðsstyrki (markaðsstyrk + styrk til framleiðslu á kynningarefni) er eftirfarandi: 

  • Góða markaðsáætlun 

  • Góða fjárhagsáætlun 

Góðar markaðs- og fjárhagsáætlanir eru sannfærandi plan til útflutnings sem er metnaðarfullt en raunsætt fyrir það verkefni sem á við. Markmið ÚTÓN og sjóðsins er að gera þessa styrki sem aðgengilegasta fyrir metnaðarfull verkefni í útflutningi, og með það að leiðarljósi kynnum við fræðslupakka sem hefur verið unnin í samstarfi við Önnu Jónu Dungal. 

Finnið hér ráð til að setja saman sterka markaðsáætlun og þægileg sniðmát fyrir fjárhagsáætlun sem hægt er að fylla inn í.

ÚTÓN mælir með því að áður en hafist er handa við að senda umsókn að kynna sér vel hvaða gögn sjóðurinn biður um bæði í umsókn og fjárhagsáætlun, og vera með þau tilbúin áður en hafist er handa. 

Næsti umsóknarfrestur er FYRIR 1. ágúst og svo aftur FYRIR 1. september. Síðasta úthlutun ársins í markaðs- og kynningarefnisstyrki er svo FYRIR 1. nóvember. 

Iceland Music